Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Eyjólfur litli 2.0

 Eitt af frægustu leikritum norska skáldsins Henriks Ibsen kallast "Eyjólfur

litli“. Það fjallar um meinleg örlög lítils drengs. Hann er þroskaheftur vegna þess að hann datt á gólfið ungabarn, foreldrar höfðu brugðið sér frá til að njóta ásta og drengsins var ekki gætt. Svo ber að garði hálfgerða norn sem nefnd er „Rottujómfrúin“. Hún  býður fólki að hreinsa íbúðir þeirra af rottum, hún geti lokkað þær með sér niður að vatni þar sem þær munu drukkna. Fólkið hafnar "tilboði" kerlingar. En óvitinn Eyjólfur lætur heillast af henni, eltir hana og dettur í vatnið  og drukknar.

Vald yfir þjóðerni

Enginn veit hvaða örlög bíða annars Eyjólfs, fimm ára snáða sem norsk barnaverndarnefnd vill skilja frá skyldfólki sínu. Koma honum í fóstur í Noregi og ráða þar með þjóðerni hans, gera hann að Norðmanni. Hæstiréttur dæmdi barnaverndinni í vil, sjálfsagt  rétt dæmt samkvæmt laganna bókstaf. En sá bókstafur er ekki alltaf í samræmi við réttlætið. Að tiltekið ríkisapparat taki sér vald til að ráða þjóðerni barna er í mínum huga himinhrópandi ranglæti. Sem kunnugt hafa  norsku barnaverndarnefndirnar  verið harðlega gagnrýndar víða um lönd en lítið ber á þeirri gagnrýni í Noregi. Stærsta blað landsins, Aftenposten, ver barnaverndarnefndirnar í leiðara og þegir að öðru leyti um málið.

Óhæfir barnaverndarfulltrúar?

Þó birtist grein nýlega í blaðinu eftir Anki nokkra Gerhardsen sem gagnrýnir barnverndarnefndina fyrir ýmislegt, samt ekki þau mál sem hún hefur mest verið gagnrýnd fyrir erlendis (þau virðast tabú). Hún heldur því fram að alltof margir óhæfir einstaklingar starfi á vegum barnaverndarnefndarinnar. Hálfmenntuð ungmenni, nýskriðin úr skóla. Í ofan á lag séu alltof margar barnverndarnefndir í landinu, í sumum sveitum vinni bara ein persóna fyrir nefndina. Fólk endist illa í starfi, stöðugt sé verið að skipta um barnaverndarfulltrúa. Spyrja má hvort þeir einstaklingar sem tóku ákvarðanir í máli Eyjólfs litla hafi verið af þessu hálfmenntaða, óhæfa tagi. Hvað sem því líður má telja sérkennilegt að hlutfallslega mun fleiri íslensk börn séu tekin af foreldrum sínum í Noregi en á Íslandi (ef trúa má frétt Stundarinnar). Auðvitað kann skýringin að vera sú að allmargir þeirra sem fluttu til Noregs eftir hrun hafi verið vafasamt fólk á flótta frá alls konar vitleysu. Fólk sem ekki er fært um að ala börn upp.

Norskt gagnrýnisleysi

En það er engan veginn öruggt. Víst er um að norsku barnaverndarnefndirnar eru vægast sagt ráðríkar og komast upp með ýmislegt m.a. þess að fjölmiðlar eru þeim hliðhollir. Norðmenn eru ekki ýkja gagnrýnir á eigið samfélag, ég hef áður nefnt hvað hinn finnska Sanna Sarroma segir um málið í bók sinni. Ástrali einn sem í Noregi býr skrifaði lesendabréf í Aftenposten þar sem hann kvartar yfir ömurlegum lestarsamgöngum. Hann segir Norðmenn ótrúlega lítið gagnrýna á þetta ástand lestarmála. Þetta gagnrýnisleysi sé ein ástæða þess að járnbrautarfyrirtækið norska komist upp með að meðhöndla farþega illa.

Lokaorð

Ég kemst í vont skap við tilhugsunina um norskar lestarsamgöngur, við lá að ég missti af áttræðisafmæli móður minnar lestarrugls vegna. En ég kemst í enn verra skap þegar ég hugsa um það ranglæti sem lítil börn eru beitt. Hvort sem það er af völdum vanhæfra foreldra eða fólks sem borgað er fyrir að vernda börn en  er öldungis óhæft til þess arna.

Starfar Rottujómfrúin fyrir norska barnaverndarnefnd?

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni