Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Við drepum okkur ekki fram úr þessum vanda

Við drepum okkur ekki fram úr þessum vanda

Nú um mundir drukkna álíka margir á Miðjarðarhafi á hverjum degi og dóu úr ebólu meðan faraldurinn stóð sem hæst. 

Það á ekki að þurfa að taka það fram en fólkið leggur ekki í háskann af gamni sínu. Ástandið í ríkjum eins og Eritreu og Sýrlandi er löngu orðið þannig að örvæntingafullar tilraunir til flótta eru ekki aðeins skiljanlegar – heldur óumflýjanlegar.

Fleiri en tíu þúsund sýrlensk börn hafa nú verið drepin. Fjöldi Eritreumanna á vergangi er svipaður og fjöldi allra Íslendinga. 

Í flestum tilfellum er það stríðs- og ofbeldishneigð sem hrint hefur af stað gangverki sem leiðir til þess að fólk flykkist þúsundum saman að Miðjarðarhafinu í tilraun til að öðlast öryggi og betra líf.

Málið er alls ekki auðleyst. En það verður að leysa það. Og það verður ekki leyst með því að tækla það með sömu hernaðarhyggjunni og olli vandanum til að byrja með.

Fólk væri t.d. ekki að drukkna í Miðjarðarhafinu ef það gæti flogið milli landa. Þetta kann að hljóma barnalegt – en staðreyndin er sú að, eins og dr. Hans Rosling hefur bent á, að flugfar frá Eþíópíu til Stokkhólms kostar um 400 evrur. Sæti í bátunum sem eru að farast kosta 1000 evrur. Fólkið sem er að drukkna er ekki verst setta fólkið. Þetta eru þeir sem hafa efni á að reyna að forða sér. Við getum rétt ímyndað okkur stöðu hinna.

En af hverju flýgur fólkið ekki?

Jú, ástæðu þess má rekja til ársins 2001. Þá gaf Evrópusambandið út tilskipun (nr. 51) um aðgerðir til að „berjast gegn“ (e. combat) ólöglegum innflutningi fólks. 

Veitum orðalaginu athygli. 

Í framhaldi af tilskipuninni voru settar reglur um að þeir sem taka að sér fólksflutninga til og frá Evrópu eru ábyrgir fyrir því að flytja ekki „ólöglegt“ fólk til álfunnar. Slíkt er dýrkeypt.

Þess vegna er ekki hægt að forða sér úr hörmungunum í Sýrlandi með því að kaupa sér flugmiða. Flugfélög hleypa þér ekki um borð. Þú ert ekki velkominn.

Og þess vegna eru til menn sem selja sæti í hálfónýta báta. 

Þegar stríðshugsunin reynir að finna lausn á vandanum er lykilatriðið að finna skilgreindan óvin. Helst einhvern sem hægt er að fangelsa eða drepa. 

Og nú er óvinurinn þeir sem gera út bátana. 

Samt er algjörlega augljóst að þótt hver einasti bátur væri stöðvaður í fjöruborðinu Afríkumegin þá hefði það sáralítil eða engin áhrif til lausnar raunverulega vandanum. 

Hinn raunverulegi vandi er margþættur. Engin ein lausn er nægileg. Málin þarf að leysa á margvíslegum sviðum og í ólíkum tímaskala. Lykilatriðið er að stuðla að friði og uppbyggingu innviða. 

Áherslan er þó miklu frekar á skammtímalausnum. Það væri hægt að eyðileggja báta eða drepa skipstjóra í drónaárásum. Og nú heyrist úr ýmsum hornum að sömu aðferðum skuli beitt á Miðjarðarhafi og notaðar eru við Ástralíu.

Hvað gera Ástralir?

Þeir borga t.d. siðferðilega og efnahagslega gjaldþrota þjóðum fyrir að taka að sér alla flóttamennina. Fara þar fremstir í flokki hinir alræmdu Nárúmenn. Mannúðartilraun sem gerð var á Nárú og fólst í því að opna flóttamannabúðirnar gekk næstum strax til baka. Ekki vegna þess að innfæddum stæði ógn af flóttafólkinu – heldur vegna þess að konur í hópum flóttamanna urðu fyrir alvarlegum kynferðisárásum af hálfu innfæddra. 

Markmiðið með Ástralíuaðferðinni er í raun og veru sú að gera líf flóttamanna svo erfitt og ömurlegt að þeir kjósi að snúa aftur heim.

Það er ótæk aðferð þegar „heim“ er ónýtt. 

Flóttamenn eru ekki innrásarher. Virkisveggir og sýki eru ekki lausn á vandanum. Málin verður að leysa af mannúð. Vandinn er kominn til að vera og hefur raunar verið til staðar lengi. Við drepum okkur ekki fram úr honum. 

 

Mynd með færslu: Freedom House

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni