Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Nei, nei, ekki um jólin

Krúttlegasti spunameistari Íslands heitir Elliði Vignisson. Hann býr í Vestmannaeyjum. Hann spilar á fjölmiðla eins og fiðlu. Það var til dæmis dásamlegt hvernig hann ýtti sér skör ofar í hópum Sjálfstæðismanna með því að skrifa stuðningsgrein um Hönnu Birnu í hvert sinn sem hætta var á að fólk væri búið að gleyma því að það væri reitt við hana.

Nú er verið að vinna í fjárhagsáætlun sveitarfélaga. Ýmsir sveitastjórnarmenn hafa furðað sig á því að peningar hafa verið vanáætlaðir inn í menntamálin í ljósi þess að verið er að reyna að semja við kennara. Þeir sem stungið hafa upp á raunhæfari áætlunum hafa fengið það svar að það megi alls ekki undir neinum kringumstæðum gera ráð fyrir hærri launum kennara. Helst eigi að gera áætlanir þar sem ekkert pláss sé fyrir hærri laun. Klára skuli hverja krónu í önnur verkefni. Síðan skuli launahækkanir, ef af þeim verður, vera fjármagnaðar með því að skera niður (helst í skólamálum). Best sé að sameina skóla eða fækka kennurum.

Þetta er semsagt lína Sambands sveitarfélaga. Hún hefur verið kynnt fólki um allt land og henni á að fylgja.

Þetta er ástæða þess að Samband sveitarfélaga er í raun rotta sem nagar sundur innviði samfélags okkar. Apparatinu er illa stjórnað og afleiðingar þess eru m.a. menntakerfi í molum. 

Elliði Vignisson er duglegasti fótgönguliði línunnar frá SÍS. Í Vestmannaeyjum hefur hann aðgang að fjölmiðlum sem augljóslega setja það ekkert fyrir sig að vera málpípur ráðandi afla. Þess vegna var skrifuð þessi frétt á Eyjar.net.

Fréttin er semsagt sú að Elliði segist ekki eiga fyrir kjarasamningum kennara. Þeir muni þurrka út allan afgang og meira til. 

Hér hefði sæmilega heiðarlegur blaðamaður getað spurt eins og einnar eða tveggja gagnrýnna spurninga. Til dæmis: „Nú var ljóst að kennarar höfðu tvífellt samninga, hversu ábyrgt var að gera ekki ráð fyrir meiri hækkunum en þegar var búið að fella?“

Það hinsvegar virðist ekki vera stíllinn hjá Eyjar.net. Þess í stað er spurt um það hvort þetta þýði að níðast þurfi á gamla fólkinu eða skattpína vinnandi fólk í eynni. 

Og Elliði verður voða sorgmæddur á svipinn og gefur í skyn að það geti verið erfiðari tímar í vændum hjá Eyjaskeggjum með hagræðingu og naflaskoðun. 

Og þá spyr blaðamaðurinn:

„Þetta eru nú vart skemmtilegt verkefni að ráðast og hvað þá á aðventunni?“ (svo!)

Akkúrat!

Greyið Elliði. Ég hef ekki vorkennt einum manni svona mikið síðan tveir herramenn ruddust inn á Ebeneser Skrögg og heimtuðu af honum ölmusu fyrir fátæka rétt fyrir jólin! Og það þótt fangelsin og þrælakisturnar stæðu enn opin ræflunum.

Það er hryllilegt til þess að hugsa að fátækt fólk skuli rísa upp af hnjánum og heimta ábót og trufla með því aðventuna hjá þeim betur settu.

Tilgangur þess að flytja skólann til sveitarfélaga var að minnka miðstýringu, auka fjölbreytni og gera nærsamfélögin ábyrg sinna skólamála. Einn tilgangur fjölmiðla er að veita valdhöfum aðhald. Hvorugt markmiðið næst í Vestmannaeyjum. 

Þar syngja menn eftir forskrift vanhæfra manna innan Sambands sveitarfélaga og fjölmiðlamenn syngja bakraddir.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni