Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Menntakerfið sem við eigum skilið

Að skrifa um skólamál fyrir þessar kosningar er svona svipað og að fjalla um snjóskóflur í júlí. Það er flestum alveg sama. Ég ætla samt að láta vaða enn einu sinni.

Það er nebblega svo að flestir foreldrar barna í skólum í Reykjavík hafa fengið að upplifa sýnishorn af því hvernir er að starfa í skólakerfi borgarinnar á síðustu vikum. Eftir að foreldrar stórjuku greiðslur fyrir mat handa börnunum sínum geri ég ráð fyrir því að hveitipasta með tómatsósu sé liðin tíð. Nú gæði börnin sér á trufflum og lífrænt ræktuðum tómötum í hvert mál.

Ekki?

Nei, auðvitað ekki. Ég efast um að mörg börn hafi fundið nokkurn mun eftir að greiðslur fyrir mat voru hækkaðar. Maður yrði nokkurnveginn jafn fótkaldur í opnum báti í skítaveðri þótt maður fengi matskeið til að ausa bátinn í stað teskeiðar. Hækkuð gjöld fyrir mat þýddi í flestum tilfellum einfaldlega að aðeins minni halli er á rekstri mötuneytanna.

En með sama hætti finna kennarar nánast ekkert fyrir þeim háu greiðslum sem borgin sagðist hafa sett í skólastarfið. Mest af peningunum fór ekki í neitt annað en að borga gjaldfallna reikninga. Þar af mest í að borga kostnaðinn af því örvæntingarfulla útspili sveitarfélaga að reyna að auka vinnuþrælkun gamals fólks í kennslu.

Árið 2009 var ákveðið að öll dýrin í skóginum ættu að verða vinir og að aldrei ætti framar að vera neitt vesen á vinnumarkaði. Allir ættu bara að vera sáttir við sín laun og smám saman varð til rammasamkomulag eða þjóðarsátt um að heildarkostnaður allra launagreiðenda myndi aukast um rúm 30% frá 2013 til 2019. Svo myndu menn bara í rólegheitunum hækka verðið á mjólkinni og sígarettunum um þessa sömu upphæð og svo sigldi samfélagið í einum tindilfættum ballett inn í framtíðina þar sem engir væru að heimta meiri launahækkanir en aðrir.

Nú hangir þetta samkomulag á nöf. Það er allt við það að springa í tætlur. 

Og auðvitað mun þetta koma verst út fyrir kennara sem enn einu sinni drógu Svarta-Pétur.

Það segir sitt að kennarar eru eina stéttinn innan Salek-hópsins sem hefur þurft að fara í harðsvíraðar samningaviðræður við viðsemjanda sinn um að fá þær hækkanir sem allir eiga að fá. Í stað þess að afhenta þessar hækkanir þegjandi og hljóðalaust eins og ákveðið hafði verið í Salek heimta sveitarfélögin sífellt eitthvað í staðinn. Og nú eru kennarar samningslausir og fá ekki neitt fyrr en einhverntíma seint og um síðir.

Það stafar fyrst og fremst af því að sveitarfélögum hefur tekist að gera skólann að svo óeftirsóttum vinnustað að svotil enginn hefur minnsta áhuga á að gera kennslu að ævistarfi. Menntavísindasvið er að deyja og skólarnir að hníga til viðar hægt og rólega.

Í stað þess að druslast til að gera eitthvað til að bæta kjör kennara er taktíkin þessi: Breyta lífeyriskerfinu með þeim hætti að kennarar tapi lífeyrisréttindum við að fara í önnur störf og murrka svo úr þeim lífið síðustu árin sem þeir kenna. Troða á þá fleiri nemendum og meiri kennslu og bæta þannig upp fyrir skort á nýjum kennurum. 

Mest af þeim tugum og hundruðum milljóna sem Reykjavíkurborg bætti í skólastarfið fór í að borga fyrir kennara sem búið var að skemma. Kennarar sem einfaldlega gátu ekki meira og urðu alvarlega veikir. Þeim fjölgar hratt þessar vikurnar. Einfaldlega vegna þess að síðustu samningar voru í tilfelli elstu kennaranna val á milli sárrar fátæktar eða ómanneskjulegs álags. Of margir höfðu ekki efni á öðru en að fórna sér.

Sveitarfélögin hafa svo gefið það út að þau vilja endurnýjað veiðileyfi á þá sem ekki gáfu sig síðast.

Og sagan er ekki einu sinni öll. Endir hennar er nebblega skelfilegur:

Það að reka skólakerfi eins og maður þurfi aldrei að laða til sín ungt fólk er á endanum stórkostlega dýrt og tryggir nær örugglega að þeim litlu fjármunum sem til taks eru sé sóað. 

Nú kosta brotnir kennarar milljónir og milljónatugi í hverjum mánuði. Nokkuð sem sveitarfélögin munu ekki sleppa við að borga.

Og hér liggur hundurinn grafinn. Af hálfu sveitarfélaga lofuðu þau aldrei að kennarar fengju að fylgja launum annarra hópa (og hafa verður í huga að árið 2013 höfðu laun þeirra rýrnað um rúm 10% á átta árum og voru því þegar byrjuð að dragast aftur úr). Þau lofuðu aðeins að útgjöld þeirra myndu aukast jafn mikið og annarra. Þess vegna kemur hver einasta króna sem fer í að greiða fyrir langtímaveikindi til frádráttar launahækkunum þeirra sem eftir eru.

Sem skapar auðvitað vítahring. Þegar einn brotnar lenda verkefni hans á öðrum af fullum þunga en um leið skerðast kjör þess sem við þeim tekur.

Og þannig skapar maður skólakerfi sem tortímir sjálfu sér á örfáum árum.

Kennarar munu semsagt halda áfram að bogna og brotna undan álagi vegna þess að lokaorrusta sveitarfélaga snýst um að leika tapað spil til enda. 

Þrátt fyrir þetta allt er öllum skítsama um skólakerfið nú í aðdraganda kosninga. Og það þótt eina björgin sé líklega sú að efla tekjumöguleika sveitarfélaga svo þau geti raunverulega staðið undir sjálfbæru skólakerfi. það gerist ekki án aðkomu ríkisins – og það gerist svo sannarlega ekki þegar stjórnmálaflokkarnir hafa ekki minnsta áhuga á málefninu.

En ætli þjóðin endi ekki bara með það menntakerfi sem hún á skilið.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni