Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Klámið í sætabrauðshúsinu

Klámið í sætabrauðshúsinu

Ætli þeir séu ekki margir af minni kynslóð sem drukku í sig ævintýrin í framsetningu Gylfa Ægissonar á sínum tíma. Ef ég man rétt lék Gylfi sjálfur nornina í Hans og Grétu með tilheyrandi skrækjum, smjatti og fretum. 

Í dag telur Gylfi sig vera að glíma við aðra sælgætisnorn. Hræðilega kerlingu sem lokkar til sín börn með litadýrð og gleði en hrellir þau svo með rasslausum buxum og tippasleikjóum. Gylfi er nefnilega þeirrar skoðunar að kossar og rasskinnar skaði börn fyrir lífstíð.

Minnið um sætabrauðshúsið er eitthvert það magnaðasta í barnabókhistoríunni allri. Að lokka börn með góðgæti og gleði í dauðagildrur er klassískt stef sem allir frá Grimmbræðrum til Gaimans hafa nýtt sér til að galdra fram stórkostlegan óhugnað. 

Það er því kannski ekki skrítið þótt þetta klassíska stef hafi orðið að dulitlu þrástefi í hausnum á Gylfa. 

Raunin er þó sú að það er Gylfi en ekki hinir gei sem er nornin í sætabrauðshúsinu. Hér er ég ekki að tala um neina hástemmda yfirfærða merkingu þess að skoðanir Gylfa eða framganga sé skaðleg börnum. Ég er einfaldlega að benda á það að vefsetur Gylfa er eitthvert það skýrasta dæmi um að börn séu ginnt til að skoða klám með því að nota barnaefni sem agn.

Á síðunni sinni selur Gylfi nokkrar ævintýraplötur. Börn sem rata inn á vefinn hans geta skoðað plöturnar þar. Þau geta líka skemmt sér lengi yfir hreyfimyndum sem Gylfi hefur límt út um allt. Þarna eru hlaupandi hundar, flugeldar, blöðrur og stjörnur svo eitthvað sé nefnt.

En, ef börnunum verður það á, að smella á rangan hlekk eiga þau aldeilis von á vondu.

Ef þau smella á Perlur Gylfa Ægissonar poppar upp berbrjósta hafmeyja sem breimar í átt að síkátum Gylfa klæddum hlébarðabol.

Annar hlekkur sendir mann á plötuumslag þar sem hafmeyjan (að vísu betur klædd) liggur flöt á öxlinni á skælbrosandi Gylfa og yfir því trónir dauðadrukkinn ungur maður sem hringar sig um rommflösku. Á enn annarri síðu er Gylfi – hálfur maður, hálfur teiknimynd – skellihlæjandi og allsber við hliðinni á nakinni konu sem hann virðist hafa tælt til sín með því að ljúga til um reðurstærð sína. Einn hlekkur er sagður sýna málverk en það fyrsta sem blasir við er glitrandi mynd af fáklæddri konu sem ríður kústskafti undir blaktandi, íslenskum fána.

Svona er nú umhorfs í sætabrauðshúsi Gylfa Ægissonar. Barnaefni liggur eins og hráviði innan um ber brjóst og kynferðislegar tilvísanir og yfir allt saman er búið að strá glitrandi stjörnum, fánum og perlugliti. 

Ef þetta er svo sett í samhengi við það að eitt allra þekktasta lag Gylfa hnitast um konugrey sem gerir þau mistök að gerast kokkur á vélbátnum Flosa Ólafs og þarf þar að þola það að sjómaðurinn í næstu koju rúnki sér yfir henni á hverju kvöldi og láti það eitt stoppa sig í að skríða upp í til hennar að þá þyrftu allir sjómennirnir að fá að taka hana líka – þá er nokkuð ljóst að þegar Gylfi vappar fram á völlinn til að fullyrða að hann amist við gleðigöngunni vegna þess að rasslausar buxur eða kossar á almannafæri skemmi börn – þá er það tvískinnungur á stjörnufræðilegum skala.

Skammir Gylfa út í gleðigönguna eru ekkert annað en það að kasta nöguðum barnabeinum úr sætabrauðshúsi.

 

Mynd með færslu: GettysGirl4260

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni