Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Grunnskólamál: Svör Bjartrar framtíðar

Grunnskólamál: Svör Bjartrar framtíðar

Leita þarf allra leiða til að stækka og/eða auka við tekjustofna sveitarfélaga til að þau geti staðið undir því að bjóða upp á boðlegar vinnuaðstæður kennara, mannsæmandi laun og búa til námsaðstæður sem samfélagið getur verið stolt af

 

Mér hafa nú borist svör frá: 

Pírötum, Bjartri Framtíð og Framsóknarflokki (birti næst á eftir þessum). Viðreisn og Samfylking hafa boðað svör. Enn hefur ekkert heyrst í Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum. Ég læt vita ef það breytist. 

Í svörum Bjartrar framtíðar kemur fram að flokkurinn sé meðvitaður um vanda skólanna og telji þörf á róttækum aðgerðum og þar á meðal verulega auknu fjármagni. Athygli vekur að hér er aftur talað um Finnland sem fyrirmynd (eins og hjá Pírötum). Þær hugmyndir væri gott að rannsaka nánar á næstu mánuðum. Kennarar í Finnlandi eru alls ekki mjög hátt launaðir (eru eiginlega akkúrat í meðaltali OECD) en ýmsir þættir valda því að eftirspurn eftir kennarastöðum er mikil og árangur einnig.

En hér koma sum sé svör Bjartrar framtíðar 

(til svara var Helga Sigrún Harðardóttir kosningastjóri):

1. Hefur flokkurinn sett sér stefnu sem komið getur að gagni við að afstýra hinu alvarlega ástandi sem ríkir í kjaramálum kennara og atgervisflótta úr kennarastétt? Hver er hún? Ef ekki, hvers vegna ekki?

Gott og faglegt skólastarf er fjárfesting í framtíðinni. Eitt þeirra verkefna sem Björt framtíð vill beita sér fyrir er að hlúa að kennurum sem bera hitann og þungann af skólastarfi. Við erum meðvituð um að gríðarlegt álag hefur skapast af stórum nemendahópum og fjölbreyttum og nýjum vinnuskilyrðum í störfum kennara. Í grunnályktun flokksins er það álitin kjarnastarfsemi í þjóðfélaginu að koma börnum til manns. Í því felst m.a. að þjónusta við börn, unglinga og fjölskyldur þeirra sé ætíð sem best. Hið alvarlega ástand sem skapast hefur í grunnskólunum vegna hins mikla álags er með öllu óviðunandi og í andstöðu við þá stefnu. Þegar til lengri tíma er litið vill Björt framtíð beita sér fyrir því að ríkið, sveitarfélögin, háskólarnir, stéttarfélögin og starfandi kennarar myndi stefnumótunar- og viðbragðsteymi sem mótar heildarstefnu í málefnum leik- og grunnskóla í þeim tilgangi að til langrar framtíðar verði örugglega boðið upp á nám, vinnuaðstöðu og umgjörð utan um skólastarf sem stenst kröfur nútímans um góðan grunn fyrir frekara nám og lífið. Kjaramál kennara eru þar ekki undanskilin. Frambjóðendur flokksins hafa talað fyrir finnsku leiðinni í málflutningi sínum enda fátt mikilvægara en að tryggja grunnmenntun barna og unglinga. Í henni felst að búa betur að kennurum og innviðum skólasamfélagsins með verulegri aukningu á fjármagni til málaflokksins.

2. Mun flokkurinn beita sér fyrir eða samþykkja lög þess efnis að tekjustofnar sveitarfélaga verði styrktir í því skyni að bæta megi kjör kennara? 

Björt framtíð telur nauðsynlegt að ríkið leggi sveitarfélögunum til nýja eða aukna tekjustofna til að standa undir lögbundnum skyldum sínum og síauknum verkefnum. Í því felst m.a. að tryggja þarf fjármögnun, rekstur og þróun grunnskólana að fullu. Leita þarf allra leiða til að stækka og/eða auka við tekjustofna sveitarfélaga til að þau geti staðið undir því að bjóða upp á boðlegar vinnuaðstæður kennara, mannsæmandi laun og búa til námsaðstæður sem samfélagið getur verið stolt af.

3. Fari svo að sveitarfélög telji sig ekki geta boðið ásættanleg kjör kemur til greina af ykkar hálfu að setja lög á kjarabaráttu kennara og munuð þið veita slíkum lögum stuðning?

4. Fari svo að ríkisstjórn setji lög á kjarabaráttu kennara, munuð þið samþykkja slík lög innihaldi þau sérstaka fyrirvara sem ætlað er að halda kjörum kennara áfram hlutfallslega lágum, t.d. í því skyni að viðhalda stöðugleika á vinnumarkaði. 

 

Björt framtíð hyggst ekki samþykkja eða setja lög sem koma í veg fyrir viðhald og þróun á grunninnviðum samfélagsins, þ.m.t. skólakerfinu.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni