Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Eggjaskurnin á Bessastöðum

„„Við stöndum nú frammi fyrir nýrri ógn,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands um hryðjuverkin í Belgíu.“

Á þessum orðum hefst frétt Rúv um viðbrögð forsetans við hinum hryllilegu hryðjuverkaárásum í Brussel í morgun.

Ég á dálítið erfitt með að átta mig á Ólafi Ragnari hér. Ekki aðeins er hann doktor í stjórnmálafræði heldur nam hann árum saman í Evrópu. Hann veit því mætavel að fullyrðing eins og þessi: „En kjarni málsins er sá að í fyrsta skipti í sögu Evrópu, á síðari tímum, stöndum við frammi fyrir því að vopnfærar sveitar vilja beita hryðjuverkum og hika ekki við að fórna lífi saklausra borgara til að ráðast að okkar samfélagi.“ – er í besta falli hálfsannleikur ... en líklegast bara hreinræktuð lygi.

Sannleikurinn er sá að árásin í morgun var sú ellefta í röðinni frá 1980. Og þá eru aðeins taldar hryðjuverkaárásir í Belgíu. Frá því um sumar 1980 og fram undir jól 1985 voru níu sinnum framkvæmdar hryðjuverkaárásir í landinu. Árið 1988 sprengdu Lýbíumenn farþegaþotu Pan Am yfir Skotlandi og drápu með því hátt í þrjú hundruð manns. Níundi áratugurinn gekk í garð með sprengjuárás í Bólógna á Ítalíu þar sem 85 voru drepnir og yfir 200 særðir. 

Frá stríðslokum er saga Evrópu ein samfelld saga hryðjuverkaárása. Ef eitthvað er, hefur heldur dregið úr tíðni árása á síðustu árum.

Þegar atburðir eins og þessir eiga sér stað er eðlilegt að ráðamenn stígi fram. Í morgun hafði Ólafur Ragnar val milli þess að boða samúð, sorg eða illsku. Hann kaus það síðastnefnda. 

Líklega vegna þess, að þegar öllu er á botninn hvolft, er Ólafur Ragnar aðeins skurnin af sjálfum sér. Langskólagengin útgáfa af innhringjanda á Útvarpi Sögu. Lítill, hræddur karl í fílabeinslituðu húsi á rokgjörnu, litlu, íslensku nesi. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni