Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Hefur hugsun áhrif á heilsu?

Hefur hugsun áhrif á heilsu?

Heilsan er hátt skrifuð í hugum Íslendinga og er jafnan nefnd sem höfuðgildi í lífinu. Læknisfræðin lítur gjarnan á huga og líkama sem aðskilin fyrirbæri en hvað segja önnur vísindi og heimspekin? Getur til að mynda vonglaður hugur haft heilsusamleg áhrif á starfsemi líkamans? Spáum í það:

Hryggðarefnin eru óendanlega mörg og áhyggjur hafa tilhneigingu til að vaxa – en það er þó ekki næg ástæða til að útiloka gleðina.

Lífið getur verið eilífur táradalur sé þess óskað. En hvernig líður þeim sem rækta ekki gleðina? Stórir hópar fólks missa af henni því þeir hleypa henni ekki um líkama sinn, huga eða hjarta. Margar leiðir eru til að sneiða hjá gleðinni og safna fremur áhyggjum og hrukkum.

Gleðin er vanmetinn mælikvarði í lífinu, hún leynist í mörgu, kúnstin er bara að njóta hennar. Líkaminn þarfnast einfaldlega gleði, gleði áreynslunnar, matar og drykkjar, hvíldar og starfs. Gleðin kemur fjörefnum af stað í taugakerfinu svo þeir glöðustu lyfta höndum, hrópa upp yfir sig og dansa af kæti. Aðrir hlæja sig magndofa og hníga niður. Hvílík gleði! Aukaverkanir? Hún er smitandi og breiðist út til annarra. Það albesta við gleðina er löngunin til að vilja deila henni með öðrum, að gefa með gleði.

Von og gleði eru gott par.

Um leið og vonin vaknar verða sporin léttari og viljinn sterkari. Þrauka má jafnvel án ástar og gleði – en ef vonin slokknar þá er voðinn vís. Von felur í sér ósk og þrá. Hún hverfist um bjartsýni og hughreysti og sá sem missir hana fer á andlegan vonarvöl. Von er sláttur hjartans, þrá sálarinnar og ósk hugans – sem getur ræst. Vonin ljær lífsbaráttunni þindarleysi og göngunni þrótt.

Hvað er heilsa? Getur hugsun haft áhrif á hjartað? Geta viðhorf haft áhrif á líðan? Getur gleðin og það að deila gleðinni með öðrum lengt lífið? Lára G. Sigðurðardóttir læknir og doktor í lýðheilsuvísindum og Gunnar Hersveinn rithöfundur ætla að eiga samtal um samband hugar og heilsu á heimspekikaffi í Gerðubergi í Breiðholti miðvikudaginn 20. janúar klukkan 20:00. Allir velkomnir - enginn aðgangseyrir. Allt fyrir heilsuna!

Tengill

Melda sig á viðburð hér

Upplýsingar um viðburðinn

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu