Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Þjóðin á ekki neitt

Þjóðin á ekki neitt

Fyrsta ákvæði laga um fiskveiðar í tillögum Stjórnlagaráðs er : „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.“ Með fiskveiðistjórnunarkerfinu hefur það hins vegar gerst að auðlindin, eða aðgangur að henni, er í rauninni eign sem hægt er að selja og veðsetja.

Þrír fjórðu alls fiskveiðikvóta landsins er í umsjón tuttugu fyrirtækja sem eru í eigu 90 einstaklinga og að óbreyttu munu ganga í erfðir innan þessara fjölskyldna. Við blasir að á þessu kjörtímabili eigi að keyra það endanlega í gegn að þessu verði ekki breytt.

Í hræðsluáróðri Sjálfstæðisflokksins er því t.d. haldið fram að tillögur Stjórnlagaráðs samsvari byltingu sem muni kollavarpa núverandi samfélagi, U-beyja. Það hafi verið mesta framfaraspor íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins þegar heimilað var framsal aflaheimilda.

Þessu fylgja fullyrðingar á borð við að skattar séu ofbeldi. Þjóðin sé ekki lögpersóna og geti ekki átt neitt. Það virðist ekki skipta neinu að í lögum um stjórn fiskveiða er kveðið á um að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar.

Formaður Sjálfstæðisflokksins segir að á þessu kjörtímabili verði ekki miklar breytingar þess vegna geti t.d VG og aðrir flokkar auðveldlega gengið til samstarfs um myndum ríkisstjórnar. Ef Bjarna tekst það má ætla að það takist að koma í veg fyrir breytingar og eyðileggja um leið þá hugsun að um sé að ræða þjóðarauðlind og þeir sem nýti hana verði að greiða sanngjarnt endurgjald.

Við okkur blasir sú staðreynd að þeir sem hafa afnot að þjóðarauðlindinni kaupa upp hvert fyrirtækið af öðru og eiga einnig fyrirtæki sem eru að kaupa upp fasteignir í miklum mæli. Reyndar henda þeir reglulega inn í umræðuna reyksprengjum um að lífeyrissjóðirnir séu óvinur þjóðarinnar.

Staðreyndin er hins vegar sú að lífeyrissjóðirnir eru í eigu landsmanna og standa í vegi fyrir fjárfestingarfyrirtækjum útgerðarmanna. Hér beita þeir fjölmiðlum og áróðursmeisturum sínum til þess að sprengja upp umræðuna, og hefur reyndar tekist það afskaplega vel allt frá Hruni.

Því er ákaft haldið að okkur að Sjálfstæðisflokkurinn hafi unnið stórsigur og þjóðin hafi hafnað byltingu vinstri aflanna. Þrátt fyrir þá staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn sé fjarri sínu fyrra fylgi og amk 70% þjóðarinnar hafi hafna hægri stefnunni.

Við stöndum vígvelli þar sem tekist er á um mestu hagsmuni fyrir íslenskan almenning. Ef hinn mikli arður af útgerðinni rennur áfram til þessara 20 fyrirtækja munu þau kaupa upp restina af Íslandi. Erfingjar útgerðarmanna munu eignast hér öll fyrirtæki hér á landi á grunni þess að hafa fengið þjóðarauðlindina upp í hendurnar.

Ef fram fer sem horfir og Sjálfstæðisflokknum takist að mynda ríkisstjórn er ekki neinna breytinga að vænta í fiskveiðistjórnunarkerfi landsins.

Í ofanskráðu er að finna grundvallarforsenduna fyrir því hvers vegna gríðarlegum fjármunum hefur verið varið í það að telja þjóðinni í trú um að tillögur Stjórnlagaráðs séu varasamt byltingarplagg. Aldrei hafa komið fram málefnaleg rök. Einungis endurteknar órökstuddar upphrópanir.

Í þessu sambandi má einnig benda á að þjarkar (vélmenni) eru að taka yfir sífellt fleiri störf. Ef við ætlum að viðhalda því samfélagi sem við viljum búa í þá verða samfélagslegar tekjur að aukast til muna. Ef við höldum áfram á þeirri braut sem Sjálfstæðisflokkurinn boðar mun brottflutningur ungs fólks halda áfram og við endum upp sem veiðistöð, með vellauðugri yfirstétt og fólk á lágum launum í fiskvinnslu og álverum

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni