Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Kjaramálin - stefnir í uppgjör

Kjaramálin - stefnir í uppgjör

Undanfarna daga hafa komið fram allmargar greiningar því hvers vegna Trump vann. Úrslitin eru nær ætíð rakin til óánægju launamanna í Bandaríkjunum. Mikill hluti atkvæða Trump eru tilkomin vegna andmæla launamanna gegn yfirstéttinni/valdastéttinni og kröfu um efnahagslegar breytingar. Trump tókst að telja fólki í trú um að hann væri rétti maðurinn til þess gera þetta. Clinton væri búinn að vera fulltrúi yfirstéttarinnar og hefði aldrei gert neinar athugasemdir við þróunina.

Fólk er hrætt við framtíðina og er sannfært um að yfirstéttin hafi engar áhyggjur af þessari þróun. Yfirstéttin hefur ekki reynt að ala upp fjölskyldu á 7,25$ (820 kr.) á klukkustund, sem með 50 vikna vinnuári skapar um 14.500$ (1.6 millj.kr.) á ári. Á sama tíma og fátæktarmörk bandarísku Tryggingarstofnunarinnar er 24.250$ (2.7 millj. kr.) fyrir fjölskyldu. Fátæktarmörkin eru að auki talinn vera um það bil helmingur af því sem þurfi til að standa undir sjálfbærum einföldum lífsstíl.

Vaxandi fjöldi launamanna á vestrænum vinnumarkaði hefur búið við versnandi fjárhagslega stöðu síðustu áratugi, sem endaði með hörmungum í upphafi nýrrar aldar. Þetta blasir við ef tekin eru saman efnahagsleg gögn um raunlaun frá stríðslokum. Hagkerfi heimsins hafa breyst mikið síðustu áratugi. Vanþróuðum þjóðum hefur tekist að draga aðeins á stöðuna í samkeppninni við þróuðu löndin.

Fyrirtæki hafa vaxið í þróunarlöndunum og bandarískir starfsmenn eru að tapa. Atvinnutækifæri hafa færst til erlendra samkeppnisaðila, sem eru reyndar oft vestræn fjölþjóðafyrirtæki. Ofaná þetta eru launamenn um allan heim að tapa sífellt fleiri störfum til vélmenna og tölvustýrðra véla. Allt þetta hefur þau áhrif að launasumma starfsmanna og hlunnindi fer sífellt lækkandi.

Í umfjöllum um launakjör er oft greint á milli „efra stigs“ og „lægra stigs“ á vinnumarkaði. Í þeirri mynd er efsta 5% lagið ekki með sakir þess að það eru til svo takmarkaðar upplýsingar um það lag í samfélaginu í opinberum gögnum. Efra stig vinnuaflsins hefur liðið mest fyrir þær breytingar sem átt hafa sér stað undanfarna áratugi, en hefur ekki haft mikil áhrif á stöðu lægra stigsins.

Ef skoðað er það sem gerðist í launamálum í Bandaríkjunum á tímabilinu frá árinu 1973 til 2001 hefur efsta lagið á vinnumarkaðnum fengið langmestu launahækkanirnar. Það er einungis efsta lagið sem hefur fengið raunhækkun á launum það sem af er þessari öld, hin 80% launamanna hafa mátt þola að jafnaði lækkun á raunlaunum og þá langmest millistéttin.

Stór hluti launamanna í efra stiginu var í góðum stöðum með ákveðin forréttindi, há laun ásamt góðum starfsskilyrðum og stöðugri atvinnu. Þessi hópur hefur í vaxandi mæli upplifað óstöðuga efnahagslega tilveru með brothættum atvinnumöguleikum, lækkandi launum og töluvert verri vinnuskilyrðum.

Eigendur fyrirtækjanna hafa í gegnum fjölþjóðafyrirtæki leitað inn á svæði þar sem stéttarfélög eru veik eða starfsmönnum er einfaldlega meinuð þátttaka í stéttarfélagi. Fjölmargir úr efra stiginu eru í dag ekki svo heppnir að hafa lakar launað starf. Þeir eru oft atvinnulausir eða eru komnir niður á neðra stigið.

Í þeim greiningum sem birst hafa undafarna daga blasir við manni margt sem á við hér á landi. Gremjan hér á sér sömu rætur og staðan er í mörgu svipuð. Þau stjórnmálaöfl sem hafa verið við völd hér meir og minna frá lýðveldisstofnun berjast með öllum ráðum gegn breytingum. Þessi stjórnmálaöfl hafa nokkrum sinnum keyrt íslenskt samfélag í þrot, voru t.d. við völd þegar krónan hrundi og Seðlabankinn varð gjaldþrota.

Í dag blasir við uppgjör á íslenskum launamarkaði. Kaupmáttur hefur ekki hrapað vegna lakra kjarasamninga, heldur vegna rangrar efnahagsstjórnar framangreindra stjórnmálaafla. Þau hafa ítrekað nýtt krónuna til þess að leiðrétta eigin efnahagsmistök með skelfilegum afleiðingum fyrir almenning og stórkostlegum eignatilfærslum til hinna efnameiri.

Þjóðmálaumræða stjórnnálamanna hefur einkennst af lýðskrumi, upphrópunum, sleggjudómum og falsi. Umræðan á Alþingi einkennist af aulabröndurum, útúrsnúningum og átakastjórnmálum og ekkert miðar. Kröfur um launahækkanir eru háværar ásamt því að tekið verði með festu á efnahagstjórn og gjaldmiðilsmálum til framtíðar.

Allt frá Hruninu hefur blasað við að endurskoða þurfi lögum um vinnustöðvanir og fá þar inn sambærileg ákvæði og tíðkast í nágrannalöndum okkar um pólitíska mótstöðu launamanna, ef stjórnvöld sýna andvaraleysi í veigamiklum málum. Verkalýðshreyfingin hefur á undanförnum árum einbeitt sér að fagpólitík án stjórnmálatengsla, en hefur ekki náð ásættanlegum árangri í deilum í mikilvægum málaflokkum.

Það kallar á breytta vinnuhætti innan verkalýðshreyfingarinnar og virkari þátttöku í mótun samfélagsins. Stjórnmálaöflin hafa sýnt þar getuleysi, fylgispekt við yfirstéttina með varðstöðu um óbreytt samfélag. Við erum á margan hátt á sama stað og bandarískir félagar okkar.

 

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni