Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Efnahagslegt mat náttúrunnar

Efnahagslegt mat náttúrunnar

Hugmyndir að meta náttúruna til efnahagslegra gæða eru upprunnar í Bandaríkjunum seint á fimmta áratugnum. Stjórnendum þjóðgarða í Bandaríkjunum vantaði aðferð til þess að meta verðgildi garðanna á einhvern hátt. Úr þessu þróuðust hugmyndirnar sem eru nú kenndar sem umhverfishagfræði.

Farið var að leggja efnahagslegt mat á náttúruna með því móti sem nú er gert í Bandaríkjunum snemma á áttunda áratugnum og í Evrópu snemma á níunda áratugnum. Það er síðan sú forsenda sem lögð er til grundvallar þegar ákveðið er að setja um Rammaáætlun hér á landi í lok síðustu aldar.

Efnahagslegt gildi náttúruverðmæta grundvallast þannig á reglunni um hve mikið fólk er tilbúið að greiða fyrir að vernda þau náttúruverðmæti sem um ræðir og koma í veg fyrir breytingar eða framkvæmdir. Þessu er skipt í tvo þætti. Annars vegar í notagildi hversu mikið gefur svæðið af ef það er raskað og sett upp virkjun og hins vegar hve mikið fólk er tilbúið að svæðin sé haldið óbreyttu og náttúran verði varðveitt fyrir komandi kynslóðir til útivistar, veiða, íþrótta eða myndatöku.

Þessi aðferð hefur í heild sinni verið gagnrýnd. Það sé ekki hægt að setja verðmiða á náttúruna, hún sé ómetanleg. Ofangreind aðferð var nýtt til það meta Heiðmörk, niðurstaðan varð sú að Íslendingar séu að jafnaði tilbúnir að greiða 15 þús. kr. fyrir að Heiðmörkinni sé haldið óbreyttri, sem samsvarar þá um 5 milljörðum kr.

En það er í þessu eins svo mörgu að afstaða íslenskra stjórnmálamanna er ákaflega mótsagnarkennd. Tökum t.d. mat á fiskistofnum, þar er ávalt farið eftir mati fiskifræðinga. Stjórnmálamönnum kemur ekki til hugar að ganga lengra en tillögur fiskifræðinga ná um vernd. Verndum ræður ákvarðanatökunni.

Allt önnur sjónarmið réðu hjá stjórnmálamönnunum gagnvart náttúrunni við mat á votlendinu. Þeir héldu áfram í mörg ár að styrkja skurðgröft þótt fyrir lægi að engin skortur var á beitilandi, svo ekki sé talað um hin miklu neikvæðu áhrif eyðing votlendis hefði á dýralíf og losun gríðarlegs magns kolefna út í andrúmsloftið.

Margir veltu fyrir sér um síðustu aldamót hversu mikils virði botn Hálslóns væri fyrir útiveru, beit og dýralíf í samanburði við hversu mikils virði það væri að fá lónið og koma Fljótsdalsvirkjun í gang. Á þeim tíma viðhafði umhverfisráðherra eftirminnileg orð sem oft er vísað til. „Það er tilgangslaust að bíða eftir einhverju umhverfismati. Endanleg ákvörðun endar hvort eð er alltaf hjá okkur og ég ber ábyrgð á henni. Ég var kosin af þjóðinni til þess að taka þessar ákvarðanir sem ábyrgur stjórnmálamaður.“

Allt mat er svokallað punktmat. Hversu mikils virði er náttúran þegar matið er framkvæmt. T.d. er öruggt að mat á botni Hálslóns væri mun hærra í dag en það var fyrir 15 árum sakir þess að sjónarmið Íslendinga á frítíma gjörbreyst og stórútvist hefur aukist gríðarlega og hingað koma milljón ferðamenn á ári til þess að skoða íslenska náttúru og skila margfalt hærri fjárhæðum í kassa fjármálaráðherra.

Hér á landi er umhverfisfræðingur valinn með tilliti til þess að hann komist að niðurstöðu sem samræmist skoðun viðkomandi ráðherra. Ef það tekst ekki þá er gripið til annarra úrræða, þekktust er stóra skúffan sem geymir óheppilega skýrslur. Þetta hefur leitt til vanþróaðra samskipta hér á landi milli stjórnmálamanna og þjóðarinnar.

Enn hefur ekki tekist að að fá stjórnmálamenn til þess að leggja ákvörðun um nýtingu fallavatna og jarðvarma undir heildarmat þar sem náttúran er metin. Hér ræður það verðmæti sem viðkomandi virkjun mun framleiða. Ef það tekst ekki þá er niðurstaða umhverfisfræðinga og Rammaáætlunar endurtekið rifin upp þar til sú niðurstaða næst sem fellur að skoðun ráðherranna. Álit 80% þjóðarinnar skiptir hér engu eins og svo mörgu öðru. Allt mat tekur alltaf óvenjulega langan tíma hér á landi vegna afstöðu íslenskra stjórnmálamanna og ráðandi valdakjarna.

Þetta viðhorf ríkir á Íslandi meðal stjórnmálamanna þrátt fyrir að allar nágrannaþjóðir okkar viðhafi þau vinnubrögð að meta virði náttúrunnar en íslenskir ráðherrar slá þetta allt saman út af borðinu. Stjórnmálamenn halda því að okkur að það sé siðferðisleg skylda Íslendinga að virkja íslenska náttúru til þess að framleiða hreina raforku fyrir Evrópu. Þrátt fyrir að þó allt yrði virkjað sem virkjanleg er þá er það ógnarlítið framlag til orkunýtingar Evrópu. Sama eigi við um skyldu okkar til þess að framleiða á matvæli. Það gangi framar en verndun. Hagsmuni hverra er verið að verja?

„Eigum við að láta fallvötnin renna ónýtt til sjávar,“ sagði fjármálaráðherra nýverið, þrátt fyrir að í dag renni um 400 milljarðar árlega í ríkiskassann frá ferðamönnum sem koma hingað til þess að skoða íslenskar náttúrperlur og ósnert víðernin. Náttúran skapar þannig tvöfalt meiri tekjur og störf en stóriðjan.

Tugir milljarða eru látnir renna til þess að skapa undirstöður fyrir stóriðjuna, í virkjunum, höfnum og vegaframkvæmdum. Á sama tíma kalla sprotafyrirtæki eftir fjármögnum og rannsóknarfé. Nýtæknifyrirtækin hafa skapað margfalt fleiri störf en stóriðjan. Grunnstoðir ferðaþjónustunnar er í molum og kallar á stuðning. Ferðaþjónustan hefur skapað á undaförnum árum margfalt fleiri störf en stóriðjan.

 

Við skulum einnig hafa það í huga að ákvörðun um framkvæmdir í náttúrunni eru ávalt óafturkræfar.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni