Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Félagsbú Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks

Félagsbú Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks

Ég rakst á eftirfarandi tilvitnun í Frjálsri verslun frá 1995: „Finnur og áðurnefndir félagar hans, þeir Sæmundur Runólfsson, Kristján Skarphéðinsson, Ólafur Andrésson, Hrólfur Ölvisson og Rafn Guðmundsson, eiga saman 80% í hlutafélaginu Innri-Kóngsbakka hf. Til fróðleiks má geta þess að Tryggvi Pálsson, bankastjóri Íslandsbanka, af grónum íhaldsættum, á 20% af Innri-Kóngsbakka og er þar í nokkurskonar félagsbúi með Framsókn.“

Tryggvi Pálsson, þessi sem sagður er af „grónum íhaldsættum“, er nú stjórnarformaður Landsbankans og ber sem slíkur ábyrgð á Borgunar-hneykslinu. Tryggvi situr í bankastjórninni fyrir hönd Bankasýslu ríkisins, þeirrar stofnunar sem ríkisstjórnin hefur nýverið hert tökin á með því að skipa yfir hana menn sem eru handgengnir forsætis- og fjármálaráðherra. Annar þeirra var pólitískur aðstoðarmaður Árna Magnússonar þegar hann var ráðherra, en sá sami Árni var áður aðstoðarmaður Finns Ingólfssonar, sambýlings Tryggva á Innri-Kóngsbakka.

Kaupendur að Borgun voru handvaldir af stjórnendum Landsbankans, þeim sem Frjáls verslun sagði vera af „grónum íhaldsættum“. Svo sérkennilega vildi til að hinn handvaldi kaupandi reyndist einnig vera af grónum íhaldsættum, þ.e. föðurbróðir Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins.  

Um leið og viðskiptin með Borgun voru um garð gengin þótti víst að hin gróna íhaldsætt fjármálaráðherra hefði fengið að kaupa fyrirtækið á óeðlilega lágu verði og þannig grætt vel á viðskiptunum. Forsvarsmenn Landsbankans réttlættu hina óeðlilegu og óvönduðu sölu m.a. með því að segja að Samkeppniseftirlitið hefði þrýst á hana. Samkeppniseftirlitið hefur síðan hafnað þessum fullyrðingum og ítrekað að salan hafi algjörlega verið á „forræði og ábyrgð Landsbankans“. Nú í vikunni var síðan upplýst að Borgun var seld ættingjum fjármálaráðherra á allt of lágu verði, svo nemur líklega milljörðum, vegna viðskipta VISA Europe og VISA USA sem innherjar í Borgun virtust vita að stæðu til.  

Til að loka hringnum má svo benda á að ættingjar fjármálaráðherra, þeir sem græddu með þessum óeðlilega hætti á sölu ríkisins í Borgun, hafa verið í sterkum viðskiptatengslum við Finn Ingólfsson og Gunnlaug Sigmundsson, föður forsætisráðherra, m.a. í gegnum Icelandair og N1 á sínum tíma.

Þessum hópi sem stendur saman að félagsbúi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur nú tekist að fremja eina tegund bankaráns í Borgunarmálinu, rétt eins og hann gerði við einkavæðingu bankanna árið 2002 sem síðan leiddi til hruns fjármálakerfisins 2008. Nú veltur á almenningi í landinu hvort hópurinn fái að fullkomna ránið þegar og ef hlutir ríkisins í Landsbanka, Íslandsbanka og Arionbanka verða seldir.

Sjá einnig um sama efni: Finnur, Framsókn og mildin (18.2.2015)

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu