Alþjóðlegi baráttudagur kvenna hefur verið haldinn hátíðlegur þann áttunda mars í meira en heila öld. Upphaflega sneru kröfur kvenna að kosningarétti og samstöðu verkakvenna en í dag hefur hvert ár sitt þema. Í ár er þemað „Choose To Challenge“, sem vekur máls á kynjahlutdrægni og kynbundnu ójafnrétti en er jafnframt hannað til að fagna vinnu og afrekum kvenna - líkt og Karolinu Polak (mynd). Karolina er pólsk verkakona sem hefur búið og starfað hér í tíu ár, unnið sig upp, og er nýlega orðin aðstoðarverslunarstjóri í stórri matvöruverslun vestur í bæ.
Mynd dagsins
7
Haninn Hreggviður IV við Dillonshús, musteri ástarinnar
Fimm málsmetandi einstaklingar rituðu í morgun langa grein í Fréttablaðið um að flytja Dillonshús, sem staðsett er á Árbæjarsafni aftur heim. „Heim“ er hornið á Suðurgötu og Túngötu, en þar er nú smekklaust bílastæði. Húsið byggði Dillon lávarður, Sire Ottesen ástkonu sinni og barni þeirra, árið 1853. Húsið stóð þar þangað til það var flutt upp á Árbæjarsafn árið 1961. Húsið hýsir kaffihús safnsins og er helsta matarhola hanans Hreggviðs IV. Hann er líklega einn af fáum sem er mótfallinn flutningum á þessu fína húsi niður í Kvos.
Mynd dagsins
28
Hjartans kveðja frá Reykjanesi
Þessi ferðalangur á Bleikhóli, við suðurenda Kleifarvatns, ætlaði að finna fyrir honum stóra sem kom svo ekki. Það voru fáir á ferli, enda hafa Almannavarnir beint því til fólks að vera ekki að þvælast að óþörfu um miðbik Reykjanesskagans. Krýsuvíkurkerfið er undir sérstöku eftirliti vísindamanna, því það teygir anga sína inn á höfuðborgarsvæðið. Síðdegis í gær mældust litlir skjálftar óþægilega nálægt Krýsuvíkursvæðinu, sem er áhyggjuefni vísindamanna.
Mynd dagsins
28
Tæpir tuttugu milljarðar
Hann virkar ekki stór, hjólreiðamaðurinn sem dáist að Venusi frá Vopnafirði landa loðnu hjá Brim í Akraneshöfn nú í morgun. Íslensk uppsjávarskip mega í ár, eftir tvær dauðar vertíðir, veiða tæp sjötíu þúsund tonn af loðnu, sem gerir um 20 milljarða í útflutningsverðmæti. Verðmætust eru loðnuhrognin, en á seinni myndinni má sjá hvernig þau eru unnin fyrir frystingu á Japansmarkað. Kílóverðið á hrognunum er um 1.650 krónur, sem er met.
Mynd dagsins
122
Þá var kátt í höllinni
Í morgun var byrjað að bólusetja með 4.600 skömmtum frá Pfizer, aldurshópinn 80 ára og eldri í Laugardalshöllinni. Hér er Arnþrúður Arnórsdóttir fædd 1932 að fá sinn fyrsta skammt. Alls hafa nú 12.644 einstaklingar verið full bólusettir gegn Covid-19, frá 29. desember, þegar þeir fyrstu fengu sprautuna. Ísland er í fjórða neðsta sæti í Evrópu með 1.694 smit á hverja 100 þúsund íbúa, Finnar eru lægstir með einungis 981 smit á hverja 100 þúsund íbúa. Andorra er með flest smit á heimsvísu, eða 14.116 smit á hverja 100 þúsund íbúa.
Mynd dagsins
114
Skjálfandi jörð
Síðan skjálftahrinan byrjaði síðastliðinn miðvikudag hafa rúmlega 11.500 skjálftar mælst á Reykjanesinu. Og heldur er að bæta í því á fyrstu tólf tímum dagsins í dag (1. mars) hafa mælst yfir 1500 skjálftar, þar af 18 af stærðinni 3.0 eða stærri. Virknin í dag er staðbundin en flestir skjálftana eiga upptök sín við Keili og Trölladyngju, sem er skammt frá Sandfellsklofa þar sem er mynd dagsins er tekin.
Mynd dagsins
19
Glæsilegt hjá Grænlendingum
Ferðamenn sem koma hingað frá Grænlandi eru nú, einir þjóða, undanþegnir aðgerðum á landamærum og þurfa því hvorki að fara í skimun, sóttkví eða framvísa neikvæðu PCR-prófi. „Það hefur gengið vel, einungis 30 Covid-19 smit verið í öllu landinu." segir Jacob Isbosethsen (mynd) sendiherra Grænlands á Íslandi. Ef jafnmargir hefðu smitast hér og og á Grænlandi hefðu 195 manns fengið Covid-19. Í morgun var talan örlítið hærri, 6049 einstaklingar hafa fengið farsóttina hér heima.
Mynd dagsins
15
Allir á tánum
Það var mikið um að vera við veg 42, vestan Kleifarvatns nú í morgun. Vegagerðin var að kanna aðstæður, starfsmenn á Jarðvársviði Veðurstofu Íslands (mynd) voru að mæla gas á hverasvæðinu í Seltúni, sem og grjóthrun. Þarna voru líka ferðalangar að vonast eftir hinum stóra, kvikmyndagerðarmaður að festa augnablik á filmu, enda höfðu mælst yfir 1000 jarðskjálftar á svæðinu fyrstu tíu tímana í dag. Þar af tveir yfir 3 að stærð, sá stærri átti upptök sín rétt norðan við Seltún, klukkan 03:26 í morgun.
Mynd dagsins
1
Vá... loftlagsvá
Mál málanna í dag er auðvitað jarðskjálftarnir á Reykjanesskaganum, þeirri vá getum við ekki stjórnað. En til lengri tíma eru það auðvitað loftlagsmálin sem taka þarf föstum tökum áður en stefnir í óefni. Og þar getum við haft bein áhrif. Íslensk stjórnvöld hafa sent frá sér uppfærð markmið í loftslagsmálum. Þar kemur fram að Ísland ætlar að minnka losun um...
Mynd dagsins
1
Chelsea týnd í tuttugu tíma
Þriggja mánaða gamla tíkin Chelsea fannst föst í gjótu niðri við höfn eftir að hafa að hafa skroppið út í garð að pissa sl. laugardagskvöld. „Það er ómetanlegt að búa í svona bæ, eins og hér í Vogunum, þar sem hálfur bærinn, ásamt Björgunarsveitinni tók þátt í leitinni,“ segir Viktoría Ólafsdóttir eigandi hvolpsins. Viktoría segir Chelsea hafa tekið á rás í ofsahræðslu, eftir að tvær tertur voru sprengdar í nágrenninu og er þakklát fyrir að hún sé komin heim ósködduð. Chelsea leikur úti við Atlético Madrid í Meistaradeildinni í kvöld, sigurleik fyrir Chelsea í Vogunum.
Mynd dagsins
Hátt yfir hinu háa Alþingi
Svona er útsýnið af efstu hæðinni á nýja hótelinu sem er að rísa á Landsímareitnum milli Austurvallar og Fógetagarðsins. Verklok á Icelandair / Hilton hótelinu eru áætluð þann 1. maí, en hvenær hótelið opnar síðan fyrir gestum og gangandi, fer auðvitað eftir því hvernig tekst að koma böndum á farsóttina. Mest spennandi fyrir okkur heimamenn er endurgerð tónleikasalarins Nasa í sinni upprunalegu mynd.
Mynd dagsins
1
Kristín stýrir vísitölu Willy
Sölumaður Deyr, eftir bandaríska leikskáldið Arthur Miller, verður frumsýnt á morgun (laugardag) á stóra sviði Borgarleikhússins, undir leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur (mynd). Verkið er eitt af stóru leikverkum síðustu aldar og þrátt fyrir að það hafi verið frumsýnt fyrir 72 árum. „Verkið á svo sannarlega við í dag... við horfum upp á tragedíu hins venjulega manns, sem dreymir um að vinna í lotteríinu,“ segir Kristín um höfuðpersónuna Willy Loman, sem leikinn er af Jóhanni Sigurðarsyni.
Mynd dagsins
12
100 milljarða holan við Hringbraut
Hér ganga verkamenn eftir morgunkaffið niður grunninn á nýjum Landspítala, sem mun líklega kosta um 100 milljarða með tækjum og tólum þegar verkefninu líkur einhverntíma á þessari öld. Í dag er Landspítalinn með starfsemi á 17 stöðum í 100 byggingum sem skapar auðvitað mikið óhagræði. Meira en helmingur bygginga spítalans eru yfir hálfrar aldar gamlar. Fyrsti áfanginn, nýr meðferðarkjarni (sjúkrahús), verður tekinn í notkun eftir fimm ár, árið 2026.
Mynd dagsins
239
Prinsessa í einn dag
Síðasta alvöru prinsessa Íslands var Margrethe Alexandrine Þórhildur Ingrid of Schleswig-Holstein-Sonderburg-Glücksburg, sem flestir þekkja betur sem drottningu Danaveldis, Margrét II. En í fjögur ár og þrjá mánuði var hún okkar prinsessa, eða fram að því að við urðum sjálfstæð þjóð í júní 1944. Í hádeginu á öskudag rakst ég á prinsessuna Ölbu, hennar helstu fyrirmyndirnar eru sennilega ævintýraprinsessur H.C. Andersen og Disney - frekar en Margrét Danadrottning í æsku.
Mynd dagsins
3
Sprengidagur með ritu og fýl
Ritan og fýllinn eru komin í Krýsuvíkurbergið nú í miðjum febrúar. Í þessu rúmlega 6 km langa og 50 metra háa bjargi verpa um 60.000 fuglapör, af níu tegundum sjófugla. Langmest er af ritu og langvíu, en auk þeirra eru þarna álka, stuttnefja og fýll. Síðan er minna af lunda, toppskarfi, silfurmáf og teistu. Fara þarf með gát um bjargið núna, en margar sprungur hafa opnast á bjargbrúninni eftir skjálftahrinurnar sem hafa leikið Reykjanesskagann illa síðustu misseri.
Mynd dagsins
8
Þingvallavatn á bolludegi
Myndirnar eru af Nesjaey, ein af þremur eyjum í Þingvallavatni, og teknar af Svínanesi undir Svínahlíð. Hinar eyjarnar eru Sandey sem myndaðist í miklu neðanvatnsgosi fyrir 2.500 árum og síðan Heiðarbæjarhólmi. Þingvallavatn myndaðist við landsig og hraunstíflur fyrir 12.000 árum, enda á miðjum Atlantshafshryggnum, einmitt þar sem mesta gliðnunin fer fram. Í Landnámu heitir þetta 84 km² stóra stöðuvatn, Ölfusvatn.
Almenningur hefur viðhaldið Stundinni með áskriftum og styrkjum frá febrúar 2015. Með því að kaupa áskrift styrkir þú sjálfstæða rannsóknarblaðamennsku.