Undir áhrifum

Sól­ey og Jo­anna New­som

Sóley Stefánsdóttir lenti á vegg í FÍH þar sem hana skorti kvenfyrirmyndir. Hún varð síðan fyrir áhrifum af amerískri tónlistarkonu á svipuðum aldri, sem gaf henni leyfi til þess að gera eitthvað skrítið og kúl.
· Umsjón: Katrín Helga Andrésdóttir

Katrín: Ég ætla að byrja á því að kynna þig aðeins áður en við förum að tala um tónlistarkonuna sem þú valdir að fjalla um. Þú ólst upp í mikilli tónlist, pabbi þinn tónlistarkennari og þú í lúðrasveit og í píanónámi ...

Sóley: Já, ég byrjaði að læra á klassískt píanó og svo fékk ég svona hálfpartinn leiða á því, eins og svo margir á unglingsárunum, og fór þá í FÍH að læra djasspíanó hjá Þóri Baldurssyni. Þetta var einhver braut í átt að tónsmíðum, þessi spuni og improvisasjón, þú veist, hljómsetningar, ég er alveg hljómfræðinörd. Mér fannst gaman í FÍH, en ég lenti líka á vegg þar. Mér fannst vera svolítið mikil samkeppni og að vissu leyti typpakeppni í djassinum. Það eru ekkert svo margar stelpur að læra djass og ef þær eru að læra djass þá eru þær að læra söng. Það er ótrúlegt hvað þetta hefur mikil áhrif á mann.

Katrín: Akkúrat. Ertu ekki líka að vinna með hljóðgervla og svona syntha-tilraunamennsku?

Sóley: Jú, það er nýtilkomið áhugamál. Þegar ég eignaðist barn, hana Úlfhildi, sem er fimm ára núna – ég man að það var dagurinn áður en að hún fæddist og dagurinn eftir að hún fæddist, það eru tvö ólík líf sem ég upplifi og ég man eftir báðum tilfinningum ennþá. Það er það sama með hljóðgervla (hlær), eða það er svona samanburðurinn. Ég hafði engan áhuga á þess konar tónlist í rauninni, ég skildi þetta ekki og hélt þetta væri of flókið, sem ég held að sé svolítið kvenlegt að halda – þar til ég heyrði í stelpu, sem er bara svipað gömul og ég, sem heitir Kaitlyn Aurelia Smith og er frá Ameríku. Hún gaf út plötu 2017 sem hún gerði, held ég, alfarið á Buchla syntha, sem er nánast óspilandi synthi. Hún lærði tónsmíðar og þegar hún kláraði námið fékk hún þennan Buchla syntha lánaðan, fór í einhvern kofa í eitt ár og lærði á hann. Ég heyrði þessa plötu og hugsaði: „Vó, hún er kúl! Ok, ég fíla þetta.“ Það þurfti ekki meira en það. Þetta er mjög algengt með mig, að ég hef verið að hlusta á tónlist sem hefur ekki vakið áhuga minn beint, fyrr en að ég heyri einhvern kvenmann gera það.

Katrín: Og þá hugsarðu að þú getir gert þetta líka?

„Mér finnst hún kúl, og mig langar að vera jafn kúl“

Sóley: Já og það er ekki svona samkeppnis: „Fyrst að hún er að gera það, þá verð ég að gera það“, heldur meira bara: „Mér finnst hún kúl, og mig langar að vera jafn kúl.“ Þannig að ég fór bara að YouTube-a fullt af hljóðgervla vídjóum og er aðeins farin að kafa ofan í það. Það skiptir bara öllu máli að hafa fyrirmyndir.

Katrín: Já, það skiptir öllu máli. En til að fara aðeins aftur í tímann, þú varst að spila með Seabear í nokkur ár.

Sóley: Já. Það er svo margt sem ég er glöð með lífið, ég er svo glöð að hafa á þessum tíma tekið svona heimstúr og ferðast um hverja borg í Ameríku og farið útum allt. Bæði af því að maður er ungur og svona hæfilega vitlaus að fá að upplifa þetta túr umhverfi, og eins og þú segir, góðærið. Við ferðuðumst um í túr-rútum sem er nánast ógerlegt núna. Enda vorum við á túr þegar hrunið var, sælla minninga. Við horfðum öll á Geir H. Haarde og vorum eitthvað svona: „sjitt ... fáum okkur bara rauðvín. Förum á barinn!“

Katrín: Þið voruð hjá útgáfufyritækinu Morr, og í gegnum það nálguðust Morr þig, er það ekki, og spurðu hvort þú ættir eitthvað sóló-efni?

Sóley: Já, Thomas Morr hefur semsagt samband og það er í rauninni þannig að fjórum mánuðum seinna er komin út EP plata, sem heitir Theater Island.

Katrín: Tókstu hana upp að mestu leyti sjálf, eða hvernig var það?

Sóley: Já, ég held ég hafi bara tekið hana alla upp sjálf.

Katrín: Og í kjölfarið á því þá tekur þú upp fyrstu breiðskífuna þína, We Sink. Voru ekki einhver lög af Theater Island á henni?

Sóley: Jú. Það kom nú frá plötufyrirtækinu. Ég vildi ekki hafa þau með, mér fannst það vera verk. Það eru nokkrir svona hlutir í gegnum tíðina sem bransafólkið hefur haft skoðanir á og maður er ekki alveg sammála en maður en samt einhvern veginn ekki í neinni stöðu til að mótmæla, eða þótt maður mótmæli þá er það bara þaggað niður.

Katrín: En fyrir utan þessi lög sem voru tekin af EP plötunni, þá tókstu We Sink upp bæði heima hjá þér og í hljóðveri. Myndirðu segja að EP platan hafi verið ennþá meira heimagerð heldur en hún?

Sóley: Já, ég hef gert þrjár 10 tommu smáskífur, og þær eru allar alveg hrikalega lo-fi. Það er svo fyndið hvað ég er eiginlega ánægðari með þær heldur en margt annað.

Katrín: Það er eitthvað svona sérstakt sánd, hlýja.

Sóley: Já, það er hlýjan og það er líka bara það að maður hafi gert þetta allt sjálfur. Mér finnst hrikalega gaman að taka upp og ég myndi ekki vilja sleppa því í ferlinu, en ég hef líka alveg fundið hvaða sánd ég fíla og ég veit að ef ég myndi vilja meira hi-fi sánd þá myndi ég bara fara í stúdíó. Ég er oft ekki alveg sammála lokaútkomum, þær slípast gjarnan aðeins of mikið til. Og núna fyrir þessa nýju plötu, þá er ég að reyna mitt besta að halda í frumhugmyndina, til að passa að þetta verði ekki of sjæní. Ég veit ekki hvort að fólk heyri það, en maður veit það sjálfur.

Katrín: Akkúrat. Eigum við að segja hlustendum um hvaða konu þú ætlar að tala?

„Þarna heyri ég eitthvað skrítið og tengi við það og fæ allt í einu upplifunina að ég megi kannski líka gera það“

Sóley: Já, ég valdi að tala um tónlistarkonu sem á sérstakan stað í mínu hjarta. Eins og ég talaði um Kaitlyn Aurelia Smith á áðan, þá er þessi svona unglingsást og ég man eftir mómentinu þegar ég heyrði plötuna hennar í fyrsta skipti. Ég ákvað að velja hana, þó að svo þroskist maður og bætir í bankann af uppáhaldskonum, mér finnst ég frekar dugleg að leitast eftir konum í tónlist, þá á þessi alltaf stað í hjarta mínu og hún heitir Joanna Newsom, hörpuleikari, tónskáld, söngkona og bara alls konar.

Katrín: Ég veit ekki hvort að lesendur viti það, en ég var að spila með þér um það leyti sem þú varst að semja Endless Summer. Ég man eitt fyrsta skipti sem við æfðum, þá fórum við  í tónlistarskólann í Hafnarfirði, held við höfum verið að fá lánað hljómborð úr stofunni þar sem pabbi þinn var að kenna þannig að við fórum og heilsuðum upp á hann og hann var að spyrja þig út í þessa nýju plötu og þú sýndir honum eitthvað Joanna Newsom-lag sem referans því þig langaði að gera ústetningarnar með fleiri klassískum hljóðfærum, klarinett og einhverju. Þetta var fyrsta manneskjan sem ég sá að þú varst undir áhrifum af. Þetta var stuttu eftir að Divers kom út.

Sóley: Það getur passað. Já, ég veit ekki hvar ég á að byrja. En mér finnst dáldið skemmtileg sagan af því þegar ég heyrði í henni fyrst. Þegar ég var unglingur var ég (og er svo sem enn) alveg svakalegur hippi í hjarta mínu og vann á Kaffi Hljómalind. Þar var vegan matur, fyrir tíð veganæðisins og þetta var svo pólitískt fallegt, þenkjandi kaffihús. Þar varð ég ástfangin af Svía, sem heitir David, og ég man að hann sýndi mér þessa plötu. Hann átti fyrstu plötuna hennar, Milk Eyed Mender, á skrifuðum diski.

Katrín: Á skrifuðum diski? Það er mjög flott.

Sóley: Já, það er dáldið kúl, sko. Ég man að ég heyrði röddina hennar, sem var náttúrlega dáldið sérstök, og ég heyrði hörpuna sem mér fannst frekar áhugavert, ég hafði aldrei heyrt neinn spila á hörpu og syngja áður, mér fannst tónsmíðarnar, æ, þetta var allt svo skrítið og skemmtilegt og þetta bara small í hausnum á mér og ég bara: „Vá! Ég verð að fara að semja tónlist!“ Þarna ákvað ég að sækja um í Listaháskólanum, bara út af henni. Þetta er aftur það sama og með Kaitlyn, að þarna heyri ég eitthvað, og ég heyri ekki samkeppni, eins og maður heyrir svo oft frá fólki að konur séu alltaf í einhverri drottningasamkeppni um hver sé best, þarna er ég bara eitthvað: „Þarna er einhver kúl gella að gera eitthvað og mig langar að gera, ekkert eins, en mig langar að gera líka!“ Þarna heyri ég eitthvað skrítið og tengi við það og fæ allt í einu upplifunina að ég megi kannski líka gera það.

Katrín: Akkúrat. Ég tók nýlega sessjón þar sem ég horfði á fullt af live-myndböndum af Joönnu Newsom að spila á YouTube. Ég var mjög innblásin. Ég tók aldrei almennilegt æði fyrir henni þegar ég var yngri, en þarna – það er svo flott að horfa á hana spila og syngja á sama tíma!

Sóley: Hún er ógeðslega góð!

Katrín: Hún er svo fær! Hún er að gera svo flókna hluti, bæði með röddinni og á hörpunni. Ég tengdi hljómborðið mitt og fór bara strax að semja, innblásin.

Sóley: Maður er innblásinn og maður fær ekki þessa tilfinningu að maður vilji ekki gera eitthvað því maður eigi aldrei eftir að geta gert það, meira í hina áttina. Það skín bara af henni ... músíkin er einhvern veginn þannig að maður vill ekki gera eins, en maður vill bara gera. Maður vill bara búa eitthvað til þegar maður heyrir svona.

Katrín: Og kannski er það líka af því að hún er að spila á hörpu og maður getur ekki gert eins af því að maður spilar ekki á hörpu, en maður getur notað sitt hljóðfæri til þess að ögra sér á svipaðan hátt og hún er að gera. Mér finnst svo ótrúlega aðdáunarvert hvað hún er að gera flókinn hryn og hvað hendurnar hennar eru að gera ólíka hluti. Bara við að horfa á það, þá langaði mig að fara að gera þannig.

Sóley: Algjörlega. Og á meðan hún syngur líka, bara úti um allt. Ég man ekki alveg hvenær Milk Eyed Mender kom út, í kringum 2004, og ég varð bara strax aðdáandi og hlustaði á þessa plötu þangað til að geisladiskurinn eyddist bara upp, fuðraði upp einhvern veginn (nei, ég held ég eigi hann reyndar ennþá). En allavega, svo fer ég til Gvatemala 2006. Kemur hún ekki, helvítið á henni, til Íslands og spilar tónleika í Fríkirkjunni. Ég hef aldrei verið jafn leið á ævi minni. Hún hefur all tíð ekkert túrað neitt svakalega mikið, hún bara eitthvað að njóta lífsins með, f****** Andy.

Katrín: Já, eigum við að ræða það aðeins? Hún er náttúrlega gift kona. Og engum meðalJóni. Þegar ég hef undanfarið verið að skoða vídeó af henni á YouTube, þá stendur iðulega í kommentunum: „Ég kom hingað til að sjá hver væri nógu heppin til að vera með Andy Samberg, komst að því að hann er sá heppni.“

Sóley: Ég veit það. Ég held að það séu margir sem hugsa þannig. Að hún sé heppin, en í rauninni, eða já, þau eru bara heppin með hvort annað.

Katrín: Þau eru heppin með hvort annað, þau eru svaka flott par. Andy er semsagt grínisti, stjarnan í Brooklyn 99 og ýmsu öðru, þarna Hot Rod ...

Sóley: Bíddu, ég lét þig horfa á hana.

Katrín: Við horfðum á hana á túr.

Sóley: Í Japan.

Katrín: Það var það fyrsta sem ég sá af honum.

Báðar: Hann er ógeðslega fyndinn.

Katrín: Hann er mjög sjarmerandi, ég er líka mjög skotin í honum. Ég er mjög skotin í því að þau séu saman.

Sóley: Já. Og þau eiga stelpu saman sem fæddist 2017. Ein sem veit allt (hlátur). En já, ég missti af henni þegar hún spilaði í Fríkirkjunni. Og þar frétti ég að hún hafi mætt með hörpuna sína og ákveðið að spila nýtt efni. Og þá spilar hún alla plötuna sem kemur á eftir, sem heitir Ys og er fimm laga plata, öll korters löng eða eitthvað svoleiðis ... Og það sitja allir bara úr kjálkalið, bara gapandi. Þessu missti ég af.

Katrín: En kannski er þetta bara ennþá mikilfenglegra í ímyndunaraflinu.

Sóley: Já, ég vil helst ekki hitta idolin mín, því ég held að þau gætu orðið leiðinleg og þá hætti ég að fíla þau. Þannig að ég kannski fíla bara að sjá hana ekki.

Katrín: Ég held þið gætuð orðið góðar vinkonur.

Sóley: Lífið bara sér um þetta. Kannski sé ég hana einhvern tímann, kannski ekki. En þá á ég eflaust bara eftir að eiga jafn vandræðalegt móment og þegar ég hitti Connan Mockasin, þannig að kannski ætti ég bara að sleppa því. Það er erfitt að hitta stjörnurnar sínar.

Katrín: Maður verður óhjákvæmilega asnalegur. En áttu þér einhverja uppáhaldsplötu með henni, hún hefur gefið út fjórar breiðskífur – þær eru allar dáldið mismunandi.

Sóley: Já, þær eru allar dáldið mismunandi, þriðja platan, sem heitir Have One On Me, er þreföld! Sem er svakalegt, hún er tveir tímar eða eitthvað.

Katrín: Það er rosalegur metnaður í konunni.

„Með fullri virðingu fyrir popplögum, þá er þetta bara háalvarleg músík!“

Sóley: Þetta eru engar smá tónsmíðar! Með fullri virðingu fyrir popplögum, þá er þetta bara háalvarleg músík! Og útsetningarnar eru algjörlega sturlaðar. Ég sótti rosalega mikið í Ys plötuna þegar ég var að semja, ekkert endilega að ég væri að gera eins, en ég var rosa innblásin af þessum útsetningum og hef alla tíð verið. Sko, fyrsta platan er einföldust, eða hún er svona harpa og rödd í rauninni.

Katrín: Öll lögin catchy.

Sóley: Og dáldið svona (gerir smellandi hljóð).

Katrín: Hvell?

Sóley: Já, hvell.

Katrín: Svolítið svona spiladósaleg. Allt hittarar finnst mér, allt mjög grípandi og eftirminnilegt.

Sóley: Já, þau eru eftirminnileg því þau hljóma líka bara svo skringilega. Og á þriðju plötunni, þá syngur hún allt öðruvísi. Þá hafði hún fengið hnúta á raddböndin. Þannig að í fyrsta lagi þá syngur hún öðruvísi á seinni tveimur plötunum sínum, syngur svona eðlilegra eða hvað á maður að segja? Mýkra, en ennþá með þessa sópran rödd og rosa mikið víbrató og er að flakka mikið í tónsviði, mörg stökk. En það sem líka er áhugavert á þriðju plötunni er að hún fer meira á píanóið. Hún er náttúrlega ekki á Spotify. Ég held að Drag City hafi verið að gefa hana út og ég held að þau séu á móti Spotify:

Katrín: Joanna á að hafa sagt að Spotify sé að blóðmjólka tónlistarmenn.

Sóley: Nei, ég meina það er þannig og ég held það sé ákveðið steitment hjá útgáfufyrirtækinu að vera ekki þarna. En já, hún er aðeins öðruvísi þriðja platan, kannski aðeins meira djassvæb, eða ég veit það ekki. Svo er fjórða platan sem er líka rosa flott. En ég held að svona first impression af fyrstu plötunni, ég set hana svona oftast á. Ég fæ bara tár í augun.

Katrín: Það er svo magnað að þetta sé fyrsta platan hennar, hún er bara um tuttugu og tveggja þegar hún er að gera þessa plötu, svakalega ung og þetta eru allt ótrúlega áhugaverðar lagasmíðar! Allar plöturnar hafa einhvern veginn sinn sjarma.

Sóley: Já og það er svo gaman hvernig hún nær því, svolítið eins og Björk gerir, að ná að gera nýtt en heldur alltaf sínu elementi og sínu sándi.

Katrín: Það er ekki hægt að rugla henni saman við neinn annan tónlistarmann.

Sóley: Nei! Og það er svo geðveikt! Það er alveg svona takmark, finnst mér, að vera það júník að þú getur ekki verið „sounds like …“

Katrín: Hún er líka að taka áhrif frá svo ótrúlega mörgum mismunandi stöðum. Hún er að taka þennan pólýrythma frá Afríku og svo er hún undir áhrifum frá Appalache indíanum, eitt lagið á fyrstu plötunni, Three Little Babes, er Native American þjóðlag. Og svo eru barokk áhrif og eitt sem við erum ekki búin að snerta neitt mikið á og það eru textarnir. Ég er ekki alveg búin að ná að dulkóða textana hennar.

Sóley: Nei, mér finnst þeir kannski auð-crack-anlegastir á fyrstu plötunni. Eins og á nýju plötunni þá er ég stundum bara ... maður þarf bara að fara á www.songmeaning.com og bara „what the hell does this song mean?“ Hvað er hún að tala um? Já, er hún að tala um stríð? Ó, ok. Ég gerði það við fyrsta lagið af Divers plötunni, mjög flókin tunga, hún notar orð sem eru mjög flókin og maður þarf að fletta þeim upp.

Katrín: Ég hugsaði einmitt að ég væri ekki nógu góð í ensku til þess að skilja þessa texta.

Sóley: Svo hefur mér þótt bara gaman að skilja þá á minn hátt.

Katrín: Já, ég held að hún vilji það líka.

Sóley: Annars yrði maður líka bara sturlaður. Það væri rosa gaman, eins og þú segir, að taka bara heila plötu og reyna að dulkóða. En það eru mjög margir sem eru bara „veit einhver um hvað þetta lag er?“ Ég veit ég er ekkert frábær í ensku, en ok, það eru fleiri þannig. Hún segir í einhverju lagi á fyrstu plötunni sem sat rosa mikið í mér: „I killed my dinner with karate, kicked them in the face, taste the body, shallow work is the work that I do.“ Þetta situr í mér endalaust, að sjá hana fyrir sér gera þetta. Það setti tóninn fyrir það hvað mér fannst gaman að skrifa eitthvað sem meikaði engan sens. Að sjá hana fyrir sér í einhverjum ninja búning.

Katrín: Þetta nær strax athyglinni manns, þessi setning: „I killed my dinner“ og maður bara „vó, hvað er að koma næst?“ og svo kemur bara „with karate“! Enginn að búast við því.

Sóley: Ég held að mamma hennar og pabbi hafi sent hana í einhvern svona skrítinn skóla.

Katrín: Já, hún var í Waldorf-skóla sem barn. Foreldrar hennar voru hippar, en læknar. Þau voru aðeins að reyna að vernda hana fyrir umhverfi sínu, leyfðu henni ekki mikið að horfa á sjónvarp og svona. Þau bæði spiluðu á hljóðfæri. Mamma hennar spilaði á alls kyns hippahljóðfæri, kongatrommur og svona hörpu sem maður slær á með kjuðum. Svo fór hún í háskóla að læra tónsmíðar og skapandi skrif, en hætti, þegar hún byrjaði að semja sína eigin tónlist, flutti aftur heim til foreldra sinna og einbeitti sér að því að taka upp. Ævintýri eru sterkt þema í textunum hennar og stíl. Hún er alltaf í einhverjum miðaldalegum kjólum og coverið á Ys plötunni er eins og endurreisnarmálverk með fullt af táknmyndum. Hvernig finnst þér það cover? Mér finnst það svolítið ljótt ef ég á að segja alveg eins og er.

Sóley: Ég hef svosem aldrei myndað mér neina skoðun á því, ég veit það ekki alveg.

Katrín: Mér finnst einhvern veginn pósan sem hún er í vera svo þrúgandi, hún er með hendurnar einhvern veginn út frá líkamanum. Mér finnst þetta eiginlega ljótasta plötucoverið hennar, en eitt íkonískasta! Og mér finnst yfir höfuð stíllinn hennar áhugaverður. Það jaðrar stundum við smá smekkleysu, svona klassík eitthvað. Í einni myndatökunni sem ég sá af henni, þar er hún í satínkjól með páfagauk á öxlinni og bakgrunnurinn er án gríns stjörnuþoka. Þetta lítur út eins og kaldhæðið post-internet grín, en þetta er ekki grín. Ég held ekki allavega.

Sóley: Ég er sammála. Vitandi alveg hvað hún vill í tónlistinni, þá hefur visjúal elementið ekki alveg náð jafn rauðum þræði, það er þarna, en hefði mátt fara alla leið þar líka.

Katrín: Það er kannski ekki alveg hennar þægindarammi. Ég reyndar las það að henni finnist óþægilegt að vera í myndatökum og þegar ég sé myndir af henni og Andy Samberg á rauða dreglinum, þá virkar hún oft hálf flóttaleg.

Sóley: En ef tónlistin er góð …

Katrín: Mér finnst þetta jafnvel bara sjarmerandi.

Sóley: Þessir kjólar eru einmitt svona blóma-síðkjólar, eitthvað sem mamma manns hefði pínt mann til að vera í á burtfarartónleikum eða eitthvað.

Katrín: Svo er hún náttúrlega idolíseruð af mörgum sem einhvers konar yfirnáttúruleg vera, einhver álfur, sem henni sjálfri finnst ekkert sérstaklega gaman.

Sóley: Ég held að manni líki alltaf illa við það ef einhver segir að maður sé það.

Katrín: Allir alltaf að segja að hún sé svo öðruvísi og skrítin, en mér finnst hún alltaf virka mjög jarðbundin í viðtölum. En kannski er það vegna þess að röddin var svo ólík því sem fólk hafði heyrt áður.

Sóley: Það er líka bara rosalega leiðinlegt að vera alltaf kallaður skrítinn. Þó að maður geri sér alveg grein fyrir því að maður sé aðeins öðruvísi, held ég að það sé ekki endilega hvetjandi að vera alltaf að heyra það.

Katrín: Nei. Á ég að segja þér nokkra skemmtilega fróðleiksmola sem ég las á Wikipedia?

Sóley: Já!

Katrín: Hún leikur í myndbandinu við lagið Kids með MGMT, leikur mömmu pínulítils barns, ca  eins og hálfs árs, sem grætur af hræðslu við skrímsli sem eru allt í kringum það. Smá siðferðislega vafasamt. Svo er hún sögumaður í kvikmyndinni Inherent Vice með Joaquin Phoenix og fleiri stórstjörnum. En já, hún er svakalega flottur og metnaðarfullur tónlistarmaður.

Sóley: Og svo mikil fyrirmynd í að fara bara sína eigin leið og finna sitt sánd frá byrjun og halda því til streitu. Ég held að hún sé mjög virtur tónlistarmaður, ekki svona disposable einnota tónlistarmaður. Hún er á ákveðnum stalli og maður treystir því sem hún gerir og maður treystir því að það sé það sem hún vill. Mér finnst það dáldið mikilvægt, að þetta sé að koma frá henni og að hún sé stjórnandinn á bak við allt og maður heyrir það. Hún er bara ógeðslega klár.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Svona virka loftárásir Rússa
Úkraínuskýrslan #2

Svona virka loft­árás­ir Rússa

Barist í bökkum velferðarsamfélags
Pressa #20

Bar­ist í bökk­um vel­ferð­ar­sam­fé­lags

Leiðari: Handbók um leiðir til að þykjast siðlegur ráðherra
Leiðarar #51

Leið­ari: Hand­bók um leið­ir til að þykj­ast sið­leg­ur ráð­herra

The Teachers’ Lounge
Paradísarheimt #8

The Teachers’ Lounge