Undir áhrifum

Jó­fríð­ur og Laurie And­er­son

Að þessu sinni ræðir Katrín Helga við Jófríði Ákadóttur sem var aðeins fjórtán ára gömul þegar hún hóf ferilinn með Pascal Pinon. Þær settust niður í hótelanddyri í Osaka í Japan, þar sem þær voru að ljúka tónlistarferðalagi.
· Umsjón: Katrín Helga Andrésdóttir

Katrín: Í dag ætlum við að tala um Laurie Anderson. Þetta samtal fer fram í hótelanddyri í Osaka, þar sem við vorum að ljúka við að tékka okkur út. Jófríður, vilt þú segja meira frá því hvað við erum búnar að vera að gera hér í Japan?

Jófríður: Við erum búnar að vera að spila. Vorum með tónleika í Osaka í gær og þar á undan í Hyogo, Nagoya og Tókíó. Þetta eru einmitt lokaklukkustundirnar á þessum túr.

Katrín: Og á þessum túr erum við búnar að tala svolítið um áhrifavald sem Jófríður valdi, Laurie Anderson. En áður en við förum að tala um hana, langar mig að kynna Jófríði. Jófríður, þú ert búin að vera virk í tónlistarsenunni í tíu ár. Þú byrjaðir að gefa út tónlist með Pascal Pinon 2009, þá varstu fjórtán ára, nýfermd.

Jófríður: Um, ég fermdist samt ekki, en á fermingaraldri.

Katrín: Það er mjög flott að fermast ekki. Ég fermdist borgaralega. En já, þú gafst út þrjár plötur með Pascal Pinon. Árið 2011 byrjaðir þú að gefa út tónlist með Samaris, þið unnuð meðal annars Músíktilraunir. Árið 2014 eða þar í kring varstu að spila með Gangly. Þið gáfuð út nokkur vídeó og núna ertu á fullu með sólóverkefnið þitt, JFDR.

Jófríður: Vel munað!

Katrín: Takk! Ég las Wikipedia-greinina þína í morgun. Ég vissi þetta allt sko, en ég var kannski ekki alveg með ártölin á tæru.

Jófríður: Já, þetta var svolítið impressívt.

Katrín: Flott Wikipedia-grein!

Jófríður: Já, ég veit ekki hver er að gera þetta. Það er allavega ekki ég.

Katrín: Ekki? Væri alveg sniðugt að gera Wikipedia-grein fyrir sjálfan sig. Þetta er ákveðin ferilskrá.

Jófríður (ósannfærð) : Já, einmitt.

Katrín: En það er samt ekkert asnalegra en að gera sína eigin Wikipedia-grein.

Jófríður (hlæjandi): Já, einmitt. Þú þarft bara að gera nógu mikið þangað til vonandi tekur einhver annar að sér að gera þetta fyrir þig.

Katrín: Algjörlega. Ég las um daginn Wikipedia-greinina hjá Þorgrími Þráinssyni barnabókarithöfundi. Hún var mjög … ítarleg. Grunsamlega ítarleg.

Jófríður (hlæjandi): Já, þannig að það gæti verið að hann hafi sjálfur verið þarna að verki?

Katrín: Haha, aldrei að vita. En takk fyrir að koma í þetta spjall. Vilt þú byrja á því að kynna aðeins Laurie?

Jófríður: Já. Ég man ekki alveg hvenær ég kynntist henni og hennar verkum fyrst. Laurie Anderson. Hún hefur einhvern veginn alltaf verið á radarnum. Laurie er frá New York og er gjörningalistamaður, tónlistarmaður, myndlistarmaður og rithöfundur líka. Var gift Lou Reed síðustu hvað, tíu, fimmtán árin af hans lífi. Þau unnu mikið saman og saga þeirra hjónabands er falleg. En hún er ekki bara fræg fyrir að vera gift honum. Ég kynntist henni þegar ég flutti til New York og fólkið sem ég vann mikið með og eyddi tíma með, annaðhvort þekkti Laurie eða var undir miklum áhrifum af henni. Það smitaðist yfir á mig, það er ýmislegt sem maður tengir við. Hún nær að vera mjög falleg, kvenleg fígúra en samt kynlaus, karlmannleg, svona hvorki né, bæði og. Maður setur hana ekki í neinn kassa, hún er bara algjörlega það sem hún er sjálf. Og það er það sem ég er svo rosalega hrifin af.

Katrín: Algjörlega sammála. Hún gerir bara nákvæmlega það sem hún vill. Hún er ekki að elta neina staðla, henni er alveg sama hvað fólki finnst. Hún bara fylgir sínum eigin takti. Eins og við vorum að tala um er hún rosalega falleg kona, en hún spilar alls ekki inn á það. Það er frekar eins og hún trappi það niður ef eitthvað er. Kemur eiginlega alltaf fram í jakkafötum, alls konar mismunandi jakkafötum.

Jófríður: Stórum jakkafötum …

Katrín: Stórum jakkafötum, stundum er hún með bindi, jakkafötum sem eru glansandi eins og þau séu úr satíni og minna mig dálítið á lúkkið sem Weyes Blood er að vinna með núna, með sín fölgrænu jakkaföt. Og svo er hárgreiðslan líka mjög einkennandi fyrir hana. Hún er með drengjakoll og hárið allt upp í loft eins og klikkaður vísindamaður. Enda er hún dálítið tengd inn í vísindaheiminn, finnst mér. Fjallar mjög mikið um tækni og notar mikið tækni. Hún fann upp á nokkrum hljóðfærum, er uppfinningamaður ofan á allt annað.

Jófríður: Einmitt, hún er svona klikkaður vísindamaður. Hún kallar sig líka multimedia artist. Það er svo ótrúlegt að vera á þessum aldri og í fyrsta lagi að vera ennþá að, og að vera alltaf að taka inn þessar nýjungar! Eins og núna er hún að gera VR sýningu, Chalkroom, sem er ótrúlega fallegt verk. Hún er ekkert að festast í neinum tímabilum, hún heldur bara áfram, flæðir með. Hún er alltaf að taka inn þetta nýja og ég ber mikla virðingu fyrir því.

Katrín: Greinilega mjög óhrædd við að prófa hluti, eins og þetta að búa til hljóðfæri. Hún bjó meðal annars til segulbandsfiðlu. Þá er boginn úr segulbandi og svo er receptor í fiðlunni. Hún bjó líka til eitthvað sem hún kallar „Talking stick“, einhvers konar midi prik sem hún gerir performans-dans með og það býr til einhver hljóð. Og svo hefur hún búið til alls konar radd-effecta og vinnur mikið með þá.

Jófríður: Eins og hennar frægasta lag, O Superman, þar sem hún er með Eventide Harmoniser og Vocoder að gera músík sem er algjörlega tímalaus. Það eru svo margir sem eru núna að nota þessi hljóð, nota þessa effekta, nota þessar græjur, þetta hefur lifað svo lengi. En hún gerði þetta verk sem varð óvænt rosalega vinsælt í eightísinu, lag og vídeó, og eins og við vorum að ræða, þetta er eiginlega hennar besta lag, eða svona mesti smellurinn.

Katrín: Þetta er mesti smellurinn, en samt mjög ólíklegur smellur. Eins og hún sagði í einhverju viðtali, þá komst hún í annað sæti á lista í Bretlandi af því að John Peel útvarpsmaður pikkaði þetta upp. Hún sagði að Bandaríkin hefðu aldrei gefið henni sama séns og Bretland. Þetta er alveg experimental þótt þetta sé söluvænt á hennar skala. Flott lag, ljúft og mikil endurtekning í því.

Jófríður: Ég held það hafi verið það sem talaði svona mikið til mín. Ég hef orðið fyrir mjög miklum áhrifum frá mínímalistum eins og Philip Glass, Steve Reich og allri þessari bylgju. Þessi endurtekning, þetta þarna: „ha-ha-ha-ha“, og það allt saman, talaði rosamikið til mín. Eitt sem hreyfði líka mjög við mér er að hún hefur ekkert mikið spilað þetta lag á tónleikum, eða bara held ég ekki neitt, en síðan fékk það annað líf eftir 9/11 árið 2001. Þá tók hún þetta lag á nokkrum tónleikum. Ef fólk hefur verið að rýna í textann, held ég að það hafi breytt því rosalega mikið hvernig fólk heyrði lagið. Það hreyfði mig allavega rosalega mikið þegar ég hlustaði á textann og las hann yfir og hugsaði um þetta í því samhengi. Hún er að tala um flugvélar, flugvélar frá Ameríku og „This is the hand, the hand that takes“. Hún er í símanum að hringja í einhvern æðri mátt eða móður sína, þessa móðurfígúru sem er svo sterk. Og hún er með tilvitnun í Tao Te Ching, sem talar um að ef þú týnir Tao, þá er alltaf goodness eða kærleikur og ef þú týnir því þá er alltaf þetta og þetta. Svo fer hún yfir í dómarann og helgiathafnir, og þetta verður svo hápólitískt verk, allt í einu, í þessu samhengi, bætir við öðrum layer sem varð til eftir langan tíma. Rosalega fallegt.

Katrín: Einmitt. Fyrst þegar ég heyrði þetta lag, þá spáði ég í textann, en ég túlkaði hann öðruvísi. Ég var bara í spá í þetta með móðurímyndina, hún er að segja eitthvað svona: „take me in your arms, your electronic arms, your automatic arms“, eða eitthvað í þá áttina og ég var bara að spá í þessa ósjálfráðu móðurást einhvern veginn.

Jófríður: Ég fór að sjá Laurie, það voru ekki beinlínis tónleikar, heldur frekar kynning á bókinni hennar: All The Things I Lost In The Flood, eða allir hlutirnir sem ég tapaði í flóðinu. Þar er hún að fjalla um það þegar Hurricane Sandy olli flóði í götunni hennar og allri New York og öll geymslan hennar rústaðist. Allt sem hún hafði lagt til hliðar og allt sem hún ætlaði að geyma og allt þetta archive og allt saman. Allt bara gjörsamlega ónýtt. Þannig að hún fór að gera þetta verk og var með þessa kynningu. Og það fyrsta sem hún gerði á þessum tónleikum eða kynningu, var að láta allan salinn öskra. Hún var með skjávarpa og taldi niður eina mínútu og allir í salnum, 2000 manns eða eitthvað, öskruðu eins hátt of þeir gátu. Og hún sagði að hún hefði gert þetta þegar Trump var valinn forseti eða eitthvað svona stórt augnablik í bandarískri sögu þegar allt virtist vera að hrynja, þá hafi hún bara öskrað í eina mínútu. Og það var alveg geðveikt. Þetta var það fyrsta sem hún gerði, þannig að strax voru allir algjörlega búnir að skipta um gír. Allir voru byrjaðir að setjast niður, rosa settlegir, ætluðu að koma að hlusta á Laurie Anderson tala og spila og svo allt í einu voru allir farnir að opna svona mikið. Þetta var svo flott, þetta var svo ótilgerðarlegt, að gera þetta í staðinn fyrir að biðja fólk um að sitja saman og gráta, eða ég veit það ekki. Þetta var bæði svo hressandi en líka svo aggressívt og miklar tilfinningar á stuttum tíma. Það var það fyrsta sem hún gerði, svo var hún bara að spjalla. Hún er svo góður sögumaður. Hún er svo góð í að tala og ég dáist að því. Að skoða þessa list sögumannsins, hvað einkennir góðan sögumann og hvernig hún nær að nota röddina og orðin til þess að stjórna algjörlega upplifun okkar. Stjórna ferðalaginu.

„Ég er listamaður því ég vil vera frjáls. Það er heila markmiðið. Og ég þoli ekki þegar fólk segir mér fyrir verkum“

- Laurie Anderson

Katrín: Ef ég myndi nota eitt orð til að lýsa henni sem listamanni, þá myndi ég segja sögumaður.

Jófríður: Ég mæli líka með að hlusta á plötuna sem hún gerði með Kronos Quartet. Þar er Kronos að spila og hún er mest bara að tala, segja sögur. Og platan hennar, The Heart Of A Dog, er líka mikið þannig. Það er líka bíómynd sem hún gerði, eiginlega bara hálfgerð hugleiðsla að horfa og hlusta.

Katrín: Talandi um bíómyndir, þá gerði hún svona live-performans kvikmynd sem heitir Home of the Brave, sem er í rauninni kvikmyndun á tónleikum, eða þetta var frekar einhvers konar sviðs-myndlistar-tónlistar-verk. Kom út ‘86 og þegar ég horfði á þetta þá minnti þetta mig á Stop Making Sense með Talking Heads. Mér finnst vera einhver linkur þeirra á milli.

Jófríður: Já, þegar þú sýndir mér þetta þá hafði ég séð hvorugt, en þetta minnti mig á Michael Jackson. Dansinn, taktarnir, sándið, dramatíkin, lúkkið. Laurie var algjörlega að taka Michael Jackson á þetta, fannst mér. Rosalegur dansari. En það var líka áhugaverð umræða sem skapaðist hjá okkur í kjölfarið. Hvað er hún að reyna að setja fram? Hvað er hún að reyna að tjá með þessum dansi? Og þinn vinkill var að þetta væri einhvers konar freak show. Að hún væri bara að reyna að vera freak.

Katrín: Já, mér finnst hún bara vera að sleppa sér. Eitt sem ég dýrka við hana, hún er 

alltaf hálfglottandi í viðtölum, alltaf eins og hún viti brandara, glettin og grallaraleg, alltaf eitthvað að leika sér og prakkarast. Ég sá tvo flutninga hjá henni í sjónvarpi. Annað var í mjög bandarískum þætti og það var geggjað! Hún kom inn á svið í jakkafötunum sínum, með galopin augu og hárið allt upp í loft, með fiðlu. Hún sest niður og byrjar að spila á fiðluna eins og gítar, heldur á henni í fanginu, byrjar að strömma á fullu, frekar aggressívt og byrjar svo að syngja með effekt á röddinni þannig að hún hljómar mjög skrækróma, svona: „ííííííí”, þvílík óhljóð og ég held að enginn hafi verið að búast við þessu. Og í þýskum sjónvarpsþætti fer hún með mónólóg á þýsku með effekt á röddinni þannig að hún hljómar eins og karlmaður. Og gerir svo þennan dans sem hún gerir líka í Home of the Brave þar sem hún er með kontaktmæka í höndunum og gerir slagverk á sjálfa sig með dansi. Hún er bara að grilla í fólki.

Jófríður: Það er rosagott. Rosagott að taka sig ekki of alvarlega.

Katrín: Það er sjarminn hennar. Hún hefur unnið með fullt af fólki. Lou Reed, Philip Glass, Brian Eno, og hún gaf út lag með Peter Gabriel sem heitir This is the Picture (Excellent Birds). Myndbandið er alveg geggjað! Þau eru bæði í hvítum jakkafötum, sitja á plastgarðstólum inni í svona low quality green screen-heimi, í tölvuvídd með griddi og einhverjum tölvufuglum að gera skrítnar hreyfingar. Þetta hefði alveg getað verið gert í gær.

Jófríður: Það er það sem einkennir þetta svo mikið. Hún er alltaf að fylgja þessari sannfæringu, þessari rödd, og sleppir þar af leiðandi við svo mikið af þessum klisjum sem eldast illa. Það er alltaf þessi kjarni. Það eru sumir listamenn sem eiga það og mér finnst hún alveg sérstaklega mikið eiga þetta. Að vera með sína eigin rödd og halda í hana.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
The Teachers’ Lounge
Paradísarheimt #8

The Teachers’ Lounge

Falsfréttir og rangar upplýsingar um stríðið
Úkraínuskýrslan #1

Fals­frétt­ir og rang­ar upp­lýs­ing­ar um stríð­ið

Mesta listaverkarán sögunnar
Eitt og annað

Mesta lista­verkarán sög­unn­ar

Sif #10: Ægivald hinna þekktu og voldugu
Sif #10

Sif #10: Ægi­vald hinna þekktu og vold­ugu

Loka auglýsingu