Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Pistill

Við vorum ekki ein

Illugi Jökulsson vonaðist eftir nýjum uppgötvunum. Og þær skiluðu sér.

Ég man eftir því að einhvern tíma þegar ég var strákur og lá yfir mannkynssögubók, þá fór ég að hugsa um hvað það væri leiðinlegt að vera uppi núna (það er að segja á ofanverðri 20. öld) því það væri búið að uppgötva alla söguna.

Ég gæti ekki gert mér vonir um að á minni ævi myndu allt í einu koma fram einhver alveg ný tíðindi – nýtt og alveg óþekkt menningarríki myndi óforvarandis vera grafið upp úr mold einhvers staðar – eða áður ókunn saga af einhverjum miklum keisara eða drottningu yrði skyndilega dregin fram af týndu bókasafni.

Þá voru reyndar aðeins fáeinir áratugir síðan einmitt þetta hafði gerst – þegar menningarríkið í Indus-dal uppgötvaðist öllum að óvörum. En eftir það virtist ekki von á neinum sérstökum nýjum tíðindum.

Því miður, hugsaði ég – þar sem ég lá yfir mannkynssögubókinni.

Ég var greinilega ekki einn um að fá nýjar og alveg byltingarkenndar uppgötvanir. Einmitt um það leyti sem ég gruflaði stráklingur í mannkynssögubókunum, þá voru gefnar út hér á landi nokkrar bækur eftir svissneskan hótelhaldara (og dæmdan svikahrapp). 

Hann hét (og heitir, því hann lifir enn góðu lífi) Erich von Däniken, og með bókunum sínum leitaðist hann við að gerbylta öllu sem við töldum okkur vita um mannkynssöguna í fornöld. Upphaf menningar á Jörðinni mætti nefnilega rekja til komu fljúgandi diska frá öðrum hnöttum.

Mér er alls ekki ljóst hvort Von Däniken trúir sjálfur kenningum sínum, en fyrir mig sem strákling voru þessar kenningar bæði spennandi og inspírerandi að ýmsu leyti. En þegar öllu var á botninn hvolft, þá vissi ég þó auðvitað alltaf að þetta var bara skemmtilegt bull.

Og ég hélt áfram að reyna að sætta mig við að ég lifði á einstaklega óspennandi tímum – að minnsta kosti hvað snerti uppgötvanir á áður óþekktum afkimum mannkynssögunnar.

„Svei mér þá, allt í einu er komið í ljós að við verðum sannarlega að endurskrifa heilan kafla í mannkynssögunni, og það þann allra fyrsta.

En svei mér þá, allt í einu er komið í ljós að við verðum sannarlega að endurskrifa heilan kafla í mannkynssögunni, og það þann allra fyrsta.

Því á minni mannsævi og einkum nú á allra síðustu árum hefur það gerst að við höfum öðlast alveg byltingarkennda nýja þekkingu á sjálfu upphafi mannsins og byrjun mannkynssögunnar.

Það er nefnilega komið í ljós að tegundin okkar var ekki endilega kóróna sköpunarverksins, og það sem öll þróun prímata, mannapa og fornmanna stefndi að.

Í mannkynssögu- og vísindabókunum sem ég las sem strákur kom fram að api hefði tekið að þróast og svo hefði hann þróast og þróast í beinni óslitinni línu uns niðurstaðan varð homo sapiens. Þetta hefur nú reynst vera rangt. Margar tegundir manna voru uppi á svipuðum tíma fyrir nokkrum tugum árþúsunda.

Við vorum orðin til. Neanderdalsmenn voru til, ekki sem frumstæð frumútgáfa af okkur, heldur bara sjálfstæð manntegund, sem að lokum dó samt út. Og til voru Denisovarnir dularfullu, sem aðeins eru kunnir af örfáum beinum í helli í miðri Síberíu. Litla fólkið á eyjunni Flores lifði þar til fyrir 10 þúsund árum; sumir telja teyndar að lítið fólk af þeirri tegund kunni enn að leynast einhvers staðar. Og DNA-spekúlantar hafa fundið út að að minnsta kosti ein tegund enn hafi þá verið á dögum. Við sjáum ummerki hennar í genamengi homo sapiens á fáeinum stöðum í Asíu en vitum annars ekkert um hana.

Nú síðast í morgun las ég svo á BBC að hæfileiki Tíbeta til að lifa góðu lífi í meira en fjögurra kílómetra hæð stafaði sennilega af því að hinir upphaflegu íbúar í Tíbet hefðu blandast ókunnri tegund sem hefði haft hæfileika til að nýta þunna loftið.

En nei, það var ekki snjómaðurinn hræðilegi. Það voru sennilega Denisovar. Eða kannski einhverjir aðrir. Það sem ég hefði verið spenntur yfir þessu þar sem ég lá yfir bókunum forðum!

Allar þessar systkinategundir okkar dóu út – af ýmsum ástæðum ugglaust. En við fengum að lifa. Mikið væri nú gaman ef sú staðreynd kenndi okkur svolitla hógværð og jafnvel þakklæti í garð lífsins og Jarðarinnar.

En ég á síður von á því.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Fréttir

Gagnrýnir prófíl-mynd þingkonu sem kvartar undan áreitni

Fréttir

Isavia þarf að afhenda Aðalheiði yfirstrikaðar upplýsingar: „Svo mér endist ævin til að reka þetta mál“

Viðtal

Frá fíkli til flóttamanns

Fréttir

Þrjú hundruð stjórnmálakonur skora á stjórnvöld: „Hótað nauðgun vegna skoðana minna“

Fréttir

Óttast að trúfélagsapp safni persónuupplýsingum

Mest lesið í vikunni

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Aðsent

VG – in memoriam

Fréttir

Selur bílinn sinn til að borga ríkinu fyrir eigin brottflutning

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“

Fréttir

Súr Sigmundur kallar Bjarna farþega og segir að hann hljóti að hætta í stjórnmálum