Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Pistill

Við þurfum meiri sósíalisma, ekki minni

Illugi Jökulsson fagnar því að væntanlegur stjórnmálaflokkur Gunnars Smára Egilssonar sé ekki smeykur við hugtakið sósíalismi.

Gunnar Smári Egilsson ætlar að stofna sósíalistaflokk sem á meira að segja að heita Sósíalistaflokkurinn og það er gott.

Eins og sjálfsagt margir fleiri, þá var ég þó framan af ekki viss um að hann ætti endilega að flagga hugtakinu „sósíalismi“ þótt ég sæi alveg þörfina á að stofna býsna herskáan jafnaðarmannaflokk. Hefur „sósíalismi“ ekki hræðilegt orð á sér? Kvikna ekki undir eins hugrenningatengsl við Gúlagið í Sovétríkjunum, gott ef ekki blóðvellina í Kambódíu undir stjórn Pol Pots? Eða í besta falli við óreiðuna í Venesúela eftir daga Hugo Chavez? Er ekki sósíalismi bæði úreltur og hættulegur?

Í sem skemmstu máli: Nei.

Sósíalisminn er einfaldlega nafn yfir annan meginþáttinn í sál manneskjunnar – hjálpsemi og þörfina fyrir samvinnu, samhjálp og samábyrgð.

Hinn þáttinn má kalla ýmsum nöfnum, til dæmis einstaklingshyggju, frelsisþrá og einkafrumkvæði. En líka síngirni, eiginhagsmunahyggju og frekju.

Best hefur manninum vegnað þegar þokkalegt jafnvægi er milli þessara tveggja þátta í skapgerð hans og samfélagi.

Sósíalisti er ekki og á ekki að vera skammaryrði, þótt vissulega hafi hræðilegir glæpir verið framdir í nafni hans.

Og þá dúkkar til dæmis Stalín alltaf upp með Gúlagið sitt. Vissulega voru Sovétríkin í orði byggð upp á ýmsum grundvallaratriðum sósíalisma. En var Stalín sósíalisti?

Ég á allt í einu erfitt með að sjá það. Ef sósíalisti er sá sem vill samfélag sem einkennist af samhjálp og samvinnu og samábyrgð, þá var Stalín enginn sósíalisti. Hann notaði samfélagið í eigin þágu til að raka að sér völdum og hikaði ekki við að drepa milljónir manna til að viðhalda völdum sínum.

Það mætti kannski frekar kalla Stalín einhvern purkunnarlausasta einstaklingshyggjumann sögunnar en sannan sósíalista.

Og Sovétríkin voru samfélag sem byggðist á misrétti, stéttaskiptingu og kúgun. Nómenklatúran og allt það. Nema hvað alþýðan fékk ekki að skyggnast inn á „falleg heimili“ yfirstéttarinnar.

Er hægt að kalla slíkt samfélag undir járnhæl hinnar freku eiginhagsmunahyggju sósíalisma þótt hin valdagíruga yfirstétt hafi skreytt sig því nafni?

Nei, enginn á að vera hræddur við orðið sósíalismi og það er bara gott að hinn væntanlegi flokkur sé ekki smeykur við það hugtak. Eins og margir hafa bent á: Þegar forsetaframbjóðandi í Bandaríkjunum, sem vel hefði getað náð kjöri, segist stoltur vera sósíalisti, þá þurfa aðrir ekki mikið að óttast þennan merkimiða á skoðanir sínar og lífsafstöðu.

Og sósíalisma þarf alls ekki að fylgja forsjárhyggja yfir einkalífi fólks, þótt hún sé vissulega það sem sósíalistar þurfa að gæta sín á – rétt eins og þokkalega vel innréttaðir einstaklingshyggjumenn þurfa alltaf að gæta sín á að sleppa ekki lausri skefjalausri græðgi og yfirgangi.

En í veröld nútímans hefur slíkri græðgi einmitt verið sleppt lausri, og hún leikur þar lausum hala undir merkjum „frelsis“ sem ruddafrekja hinna síngjörnu hefur tekið sér einkarétt á.

Jahá?

Ríkir frelsi í veröld þar sem litli puttinn á Warren Buffett er meira virði en heil þjóð í Afríku? Ríkir frelsi í veröld þar sem lítill hópur manna er á góðri leið með að skapa róttækara eftirlitsþjóðfélag en George Orwell hafði nokkru sinni órað fyrir í bókinni 1984?

Og einmitt þessir menn raða sér allir inn á listann yfir ríkustu menn heims. Eigum við að lofsyngja veröld þeirra og leka niður af aðdáun þegar við fáum að gægjast inn um gættina á þeirra „fallegu heimilum“ – en fýla um leið voða mikið grön yfir hræðilegri forsjárhyggju eða „góða fólkinu“ ef einhver vogar sér að kalla sig sósíalista og vill berjast fyrir betra lífi fyrir aðra en sjálfan sig?

Nei, ef það á ekki að verða of seint að snúa við blaðinu áður en hið nýja samfélag ofsaríku verður orðið ósigrandi, þá þurfum við meiri sósíalisma, ekki minni.

Svo vertu velkominn, Sósíalistaflokkur.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Leiðari

Óvinir valdsins

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“

Pistill

Þorum við að vera við?

Fréttir

Fékk nóg af hagræðingartali ráðherra: „Við erum hér alla daga að reyna gera okkar besta“

Fréttir

Sagðist sjálfur hafa greitt skuldirnar sem faðir hans yfirtók

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Fréttir

Faðir Bjarna Benediktssonar greiddi upp skuldir hans vegna áhættuviðskipta

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Leiðari

Óvinir valdsins