Pistill

Velkominn í gapastokkinn!

Þórarinn Leifsson veltir fyrir sér dómstól samfélagsmiðla.

Fyrir rúmum áratug var ég nýbyrjaður að blogga og lét ýmislegt gossa til að vekja á mér athygli. Þannig bar það til ég skrifaði að Hannes Hólmsteinn prófessor væri „rífandi graður hommi“ og annað miður fallegt í þeim dúr. Konan mín grátbað mig um að birta þetta ekki en ég spurði hortugur á móti hvort hún ætlaði að ritskoða eiginmanninn – og birti bloggið. Prófessorinn tók auðvitað skjáskot af öllu heila klabbinu og hélt því til haga í frægum málaferlum. DV komst í þetta og ég komst á forsíðuna sem blóðhundur Laxness-fjölskyldunnar, þó að mér væri í raun slétt sama um þau, vildi bara hnekkja á Hólmsteini. Öldruð móðir mín, á fyrsta stigi Alzheimer, var látin svara fyrir mig í dálkinum „Hvað segir mamma?“ Sagði hún meðal annars að það væri nú oft með svona heiðarlega menn eins og son hennar að þeir gætu verið svolítið barnalegir.

Þegar ég les þessi skrif mín í dag fallast mér nánast hendur.  Á einni nóttu varð ég frægur fyrir að drulla yfir meinta kynhneigð fólks úti í bæ. Hómófóbían líkust einhverju sem Snorri í Betel hefði látið út úr sér á vondum degi. Ég þurfti að gera svo vel að biðja Samtökin 78 fyrirgefningar og skrifast síðan nokkrum sinnum á við prófessorinn ógurlega, ég man ekki hvort ég bað hann afsökunar eða reif kjaft, en verð þó að telja honum til tekna að hann skyldi vaða beint í mig.

Þegar allt kemur til alls þá slapp ég ósköp billega þarna um vorið 2005. Ég var í raun heppinn að þetta gerðist á tíma þegar samfélagsmiðlarnir höfðu ekki slitið barnsskónum og klukkuna vantaði ennþá kortér í Facebook. Ef ég skrifaði svona mannhatursblogg í dag myndi ég festast í gapastokki endalausrar háðungar á samfélagmiðlunum mánuðum saman.

Nú kann einhver að spyrja hvort ég hafi í raun og veru átt skilið að vera settur á forsíðu fjölmiðils þarna um árið. Svarið er í stuttu máli já. Ef maður lætur út úr sér aðra eins vitleysu á opinberum vettvangi þá á maður svo sannarlega skilið að vera tekinn í bakaríið. Þá skiptir engu hvort þar stendur að einhver sé „sígraður hommi“ eða „Epalhommi“. Svona skrif eru særandi, jafnvel þótt sá sem fyrir þeim verði láti eins og ekkert sé. Síðan lærum við af fenginni reynslu og höldum áfram.

En að þessu sögðu má velta nútímaumræðu fyrir sér. Að taka þátt í henni er endalaus jafnvægislist á milli þess að komast hjá því að særa fólk og því að eiga á hættu að vera svo grandvar að maður hafi ekkert að segja lengur, orðinn bitlausari en smjörhnífur.  

Í dag má varla anda á verstu slúbberta samfélagsins, þá ana menn út í meiðyrðamál, jafnvel með arfavondan málstað í farteskinu. Rifrildið er orðið takmark í sjálfu sér, heiftin besta víman.

„Netverjar eru komnir í samkeppni við hefðbundna dómstóla og fólk er smánað opinberlega fyrir litlar sakir.“

Það er vissulega alveg rétt sem íslenskur dósent við lagadeild Háskóla Íslands og gamall lærisveinn prófessorsins ógurlega hélt fram í nýlegum fyrirlestri. Netverjar eru komnir í samkeppni við hefðbundna dómstóla og fólk er smánað opinberlega fyrir litlar sakir. Réttarsalir samfélagsmiðla eru eins og snjókorn sem finna ekki fyrir ábyrgð á snjóflóðinu. Fórnarlömb smánunar missa vinnuna og eiga erfitt með að ná sér í maka, verandi á fávitalistanum á gúglinu.

Íslenskir fjölmiðlar taka þessari umræðu auðvitað fagnandi því nú er allt í einu búið að finna hið fullkomna illmenni í snjókorni, dósentinn mætir í viðtöl og blaðamenn súpa hveljur yfir illsku pöpulsins með heykvíslarnar. 

Helsta biblía dósentsins góða um refsivönd samfélagsmiðla er So You’ve Been Publicly Shamed eftir Bandaríkjamanninn Jon Ronson. Bókin er vissulega safarík aflestrar og tekur til ótal dæmi um opinbera smán fyrir litlar sakir. Ég verð þó að viðurkenna að það hlakkaði örlítið í mér þegar almannatengill missti vinnuna fyrir að gera lítið úr alnæmissjúkum börnum á Twitter, svo djúpstæð er óþreyja mín gagnvart markaðsfólki. 

Jújú, við verðum öll að vanda okkur betur þegar við skrifum á netið og lækum til hægri og vinstri. En við verðum líka að passa okkur á því að fara ekki of langt í hina áttina. Bók Jon Ronsons má ekki verða skálkaskjól sem hindrar okkur í að leiðrétta Ingó Veðurguð næst þegar hann lýsir skoðunum sínum á brjóstum kvenna eða hvað það nú er sem blessaður maðurinn lætur út úr sér á Facebook.

Og eins og blaðamaður Guardian benti á í gagnrýni um þessa frægu bók Jon Ronsons þá þurfum við ekki öll að vera á Twitter allan sólarhringinn. Internetið er fyrst og fremst risastórt herbergi þar sem fólk með svipuð gildi hlustar á bergmálið frá sjálfu sér. Slökum bara aðeins á. Slökkvum á snjallsímanum, knúsum börnin, förum í bíó.

Þegar upp er staðið berum við sjálf ábyrgð á því sem við látum frá okkur og verðum að taka afleiðingunum. Mörg okkar njótum þess að dansa á línunni nálægt eldinum. Það er einmitt þessi áhætta á gráa svæðinu sem er svo heillandi. Orðin eru lifandi og færa okkur nýjan skilning á heiminn. Stundum göngum við of langt og þá verðum við bara að taka því ef við lendum í gapastokknum og fáum aldrei aftur að sofa hjá.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Fréttir

Þrýsti á fjölmiðlaeiganda vegna umfjöllunar um Vafningsmálið en segist aldrei hafa reynt að stöðva fréttaflutning

Pistill

Áfengi er frábært!

Leiðari

Óvinir valdsins

Fréttir

Sýslumaður kvartar undan „ótæpilegri“ umræðu um starfsmenn embættisins

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Fréttir

Faðir Bjarna Benediktssonar greiddi upp skuldir hans vegna áhættuviðskipta

Afhjúpun

Bjarni losnaði við 50 milljóna kúlulánaskuld í aðdraganda hrunsins

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Blogg

„Getur ekki einhver þaggað niðri í Stundinni?“