Flækjusagan

Varaforseti, morðingi, landráðamaður

Svo ykkur finnst Donald Trump skrýtið forsetaefni vestanhafs? Þá þurfið þið að kynnast Aaron Burr, segir Illugi Jökulsson sem rifjar upp furðulega flækjusögu þessa bandaríska stjórnmálamanns.

Það var á mildum haustdegi í New York þann 14. september árið 1836 að áttræður maður lá banaleguna á miðlungs snotru gistiheimili í heldur hráslagalegu hverfi við Richmond-höfn á Staten Island. Hann bar með sér aldurinn; sköllóttur fyrir utan fáeinar hvítar lýjur hér og þar, tannlaus, miklir lifrarblettir á höfði og höndum, hann var silalegur í hreyfingum og ögn utangátta á svipinn eins og maður sem hefur fyrir fáum misserum fengið slag; samt hafði lengst af verið blik í augum hans og þegar hann tók sig á mátti sjá að hann hafði einhvern tíma haft heilmikla persónutöfra til að bera.

En lífið var að fjara úr líkama hans, hann lá fyrir þarna á gistiheimilinu, eigur hans helst til fátæklegar í kofforti og fataskáp og stóru skattholi, nokkrar bækur á náttborði, hann fálmaði eftir einni þeirra, það var skáldsagan um Tristram Shandy eftir enska rithöfundinn Laurence Sterne, sprúðlandi fjörug og fyndin bók með frumlegum frásagnarhætti; bók sem gamli maðurinn hafði alltaf metið mikils og fengið hann til að hlæja. En nú var sjónin að bresta svo hann gat ekki lesið svo hann ýtti bókinni aftur frá sér, hún féll niður á gólf og lenti á annarri álíka marglesinni, það var úrval úr verkum hins litríka en deilugjarna franska heimspekings Voltaire.

Þetta voru uppáhaldsbækurnar hans en hvoruga gat hann lesið þarna á banasænginni, sjónin að bresta eins og annað, það var með naumindum að hann hafði getað lesið virðulegt bréf sem honum hafði borist þá um morguninn, þó var það opinbert bréf, skýrt og skorinort með stóru letri, það var pappír upp á að konan hans væri nú skilin við hann, hún hafði verið rík ekkja þegar þau giftust nokkru áður en svo hafði hún uppgötvað fyrir fjórum mánuðum að hann hafði eytt góðum hluta eigna hennar í ráðleysislegt brask með fasteignir, þá vísaði hún honum á dyr og hann leitaði auralítill hælis á þessu gistiheimili og nú voru þau formlega skilin að lögum og hann alveg að deyja.

Þessi gamli maður hét Aaron Burr og ég sagði frá honum hér í flækjusögu fyrir viku. Þá tók hann þátt í að verja mann sem sakaður var um morð í New York árið 1800 og var í frásögur fært að við vörnina tóku þeir höndum saman, Burr og Alexander Hamilton, en þeir þóttu í hópi flottustu og flinkustu lögfræðinga borgarinnar á þessum árdögum Bandaríkjanna, sem voru þá rétt um aldarfjórðungsgömul. Og í tilefni þess að nú er raunveruleg hætta á að sannkallað skrípi verði forseti Bandaríkjanna í fyrsta sinn – þar sem er Donald Trump – þá er ekki úr vegi að segja nánar söguna af Burr, sem var vissulega einn róstusamasti og skrýtnasti persónuleiki, fram að Trump, sem komist hefur í námunda við Hvíta húsið. Og dugir að taka fram að ekki aðeins munaði árið 1800 að Burr yrði forseti, heldur drap hann með eigin hendi mann sem flestir töldu að yrði síðar helsti keppinautur um forsetaembættið, og svo var hann að lokum handtekinn og ákærður fyrir landráð, þar á meðal fyrir að hafa ætlað að steypa forseta af stóli og leggja höfuðborgina Washington undir sig með hervaldi.

Burr hafði verið í ameríska frelsishernum í sjálfsbaráttunni gegn Bretum og þótti mjög vel liðtækur, en ævinlega var hann þó grunaður um græsku, og talinn óhóflega metnaðargjarn. Eftir að Bandaríkin unnu sjálfstæði sitt varð Burr öldungadeildarþingmaður New York en allir vissu að hann ætlaði sér lengra. Hann barst mikið á, bjó í einu glæsilegasta húsi New York og naut kvenhylli. Mjög svipaða sögu mátti segja um Alexander Hamilton sem var um tíma fjármálaráðherra í fyrstu ríkisstjórn Bandaríkjanna. Hann var fæddur á eyjunni Nevis í Karíbahafi, faðir hans Skoti en móðirin af frönskum Húgenottaættum og hann var kominn á unglingsár þegar hann flutti til hinna verðandi Bandaríkja. Þeir Burr og Hamilton þóttu svo líkir að fasi, hátterni og metnaði að aðeins tvennt kom til mála: Annaðhvort hlutu þeir að verða perluvinir eða algjörir hatursmenn.

Og það seinna varð ofan á. Þeir þoldu ekki hvor annan.

Þó unnu þeir stundum saman sem lögmenn, líkt og þegar þeir vörðu hinn meinta morðingja í byrjun árs 1800, og með frábærum árangri: Sakborningurinn var sýknaður þótt hann væri næstum áreiðanlega sekur. En síðar á því ári skarst illa í odda. Þá bauð Burr sig fram til forseta, en framboðið var reyndar fyrirfram vonlaust og í reynd gerði Burr sér aðeins vonir um að verða varaforseti Thomasar Jeffersons. Það gekk eftir en þó ekki fyrr en andstæðingar Jeffersons höfðu beitt Burr fyrir sig og voru komnir langleiðina að gera hann að forseta, þegar Hamilton skarst í leikinn og kom í veg fyrir frekari frama Burrs í það sinn.

Hamilton var í raun á móti Jefferson en mun hafa látið svo um mælt að skárra væri að fá forseta sem hefði slæmt siðferði (Jefferson) en ekkert – sem var þá Aaron Burr.

Burr gramdist framferði Hamiltons mjög og hugsaði honum þegjandi þörfina. Hann varð eftir sem áður varaforseti Jeffersons en hinn nýi forseti treysti honum engan veginn eftir að Burr hafði nærri verið búinn að hafa af honum embætti. Því fékk Burr lítið að gera sem varaforseti og bjó ekki einu sinni í höfuðborginni Washington, heldur hélt áfram til í New York og hafði mikið umleikis en metnaði hans var þó engan veginn fullnægt. Og þar hélt togstreita þeirra Hamiltons og Burr áfram sem aldrei fyrr og kom fram í stóru sem smáu.

Sem forseti fulltrúadeildar þótti varaforsetinn Burr hins vegar gegna störfum sínum af mikilli samviskusemi og sanngirni. „Hann var hlutlaus sem engill en strangur sem andskotinn,“ var sagt.

Theodosia BurrDóttir Aarons Burr fékk góða menntun.

Hér ber líka að geta þess að þótt Aaron Burr hafi að sumu leyti verið ógeðfelldur maður, einkum út af hans taumlausa metnaði, þá átti hann sínar skárri hliðar. Með fyrri konu sinni átti hann eina dóttur og við uppeldi hennar kom í ljós að Burr var langt á undan sinni samtíð í jafnréttismálum. Hann tók sem sé ekki í mál að dóttirin Theodosia byggi við verri réttindi eða menntun en sonur hefði gert.

Árið 1804 stóðu forsetakosningar aftur fyrir dyrum. Þá var ljóst að Jefferson ætlaði að losa sig við Burr sem varaforseta. Burr bauð sig þá fram til ríkisstjóra í New York en beið háðulegan ósigur, ekki síst fyrir atbeina Hamiltons sem barðist gegn honum af mikilli hörku og lýsti honum á einum stað sem „hættulegum“. Burr gramdist mjög við Hamilton og ákvað að nú skyldi nóg komið.

Hann skoraði því Hamilton á hólm og skyldu þeir berjast með pístólum þar til annar lægi dauður eftir, nema Hamilton bæðist afsökunar á orðum sínum.

Einvígi höfðu áður verið fullkomlega lögleg í nýlendunum í Ameríku en nú var nánast búið að banna þau. Lögin voru þó misvísandi og ekki alls staðar þau sömu svo einvígi voru enn háð reglulega. Árið 1801 hafði 19 ára sonur Hamiltons verið felldur í einvígi sem hann háði við mann sem syninum fannst hafa farið niðrandi orðum um Hamilton eldri. Einvígið var háð í smáþorpi við Hudson-fljót í New Jersey, en handan fljótsins var sá hluti Manhattan-eyju sem nú kallast Hell’s Kitchen.

Hamilton svaraði Burr og reyndi að sleppa við einvígi án þess að biðjast almennilega afsökunar og Burr taldi það ekki nægjanlegt. Einvígið var því háð 11. júlí 1804 á nákvæmlega þeim sama stað og þar sem Philip Hamilton hafði dáið fyrir þrem árum.

Reglur einvígis kváðu á um að þátttakendur skutu til skiptis og Alexander Hamilton skaut fyrst. Hann hitti ekki og flestar heimildir telja að hann hafi skotið viljandi upp í loftið. Það var oft gert í einvígjum á þessum tíma. Þá töldust deiluaðilar hafa fengið uppreisn æru með einvígi en reyndu samt ekki að drepa hvor annan. Það kann þó að vera að Hamilton hafi einfaldlega ekki hitt Burr.

Varaforsetinn – því Burr gegndi ennþá því starfi – hitti Hamilton hins vegar í magann. Hann mun hafa stokkið til og horft skelfingu lostinn á Hamilton sem engdist sárkvalinn á jörðinni, en þó var Burr ekki meira um en svo að næst fór hann heim í sitt glæsta setur og fékk sér ærlegan morgunverð. Hamilton lá hins vegar í tvo sólarhringa og dó þá eftir miklar þjáningar.

Burr flúði nú til dóttur sinnar, sem bjó í Suður-Karólínu. Hann var ákærður fyrir morð, fyrstur þeirra sem drápu andstæðing í einvígi, en ákæran var síðar felld niður og Burr fékk óáreittur að klára varaforsetatíð sína.

En Hamiltons var sárt saknað og í amerískri sögu er vinsælt að hugleiða hvort það hefði breytt gangi mála þar ef Hamilton hefði lifað og orðið forseti í fyllingu tímans eins og telja mátti nokkuð víst.

En með því að drepa Hamilton má segja að Burr hafi í raun gert út af við sjálfan sig í leiðinni. Honum fannst sér ekki vært í New York lengur og 1805 og 1806 fór hann í ferðalög vestur á bóginn og hafði mikil plön á prjónum. Opinberlega var hann að undirbúa að stofna búgarð þar sem nú er ríkið Louisiana en í reynd var hann uppfullur af furðulegum hugmyndum.

Það er flest á huldu um hvað Burr ætlaðist í raun fyrir, en sumir héldu því fram að hann hefði beinlínis ætlað að stofna einkaher og koma síðan og leggja Washington-borg og öll Bandaríkin undir sig. Aðrir héldu því fram að hann hefði ætlað að stofna sitt eigið konungsríki á því svæði þar sem nú eru miðríki Bandaríkjanna.

Helst er þó talið að hann hafi verið að brugga áætlanir um að gera innrás í Texas sem heyrði þá undir Mexíkó, og fyrir það var hann að lokum handtekinn og leiddur fyrir rétt 1807 sakaður um landráð. Það var að sjálfsögðu ekki í verkahring óbreyttra borgara, ekki einu sinni fyrrverandi varaforseta, að fara með stríði á hendur nágrannaríkjum.

Þrátt fyrir að Jefferson forseti beitti sér af fullum krafti gegn Burr var hann að lokum sýknaður. Jefferson hafði ekki þótt mjög vandur að meðulum þegar hann reyndi að tryggja sakfellingu fyrrum varaforseta síns, og réttarhöldin yfir Burr þykja enn í dag mjög merkileg fyrir þá sök að dómarinn hafnaði algjörlega afskiptum forsetans og setti með þá mikilvægu meginreglu að ekki einu sinni forsetinn væri yfir lögin hafinn.

Þótt Burr væri sýknaður hafði hann í raun eytt aleigunni við að verja sig og orðstír hans var í rústum. Hann hélt til Evrópu og bjó þar í fjögur ár og dvaldi meðal annars í Danmörku um tíma. Einnig hélt hann til Parísar og reyndi að fá stuðning Napóleons keisara við áform um að ráðast inn í Mexíkó, en Napóleon neitaði að hitta hann.

Þegar Burr sneri heim 1812 varð hann enn fyrir ægilegum áföllum. Fyrst dó dóttursonur hans tíu ára gamall úr hitasótt og síðan hvarf hin heittelskaða dóttir Theodosia í hafið þegar hún tók sér far með skipi frá Suður-Karólínu til New York.

Burr var nú svo úr heimi hallur, fyrirlitinn og auralaus að hann gekk undir dulnefni um skeið til að forðast skuldunauta sína. Að lokum komst einhvers konar ró á líf hans, hann var að verða gamall og heilsulaus. Hann fékk slag en var þó nógu brattur til að ganga aftur í hjónaband, en konan skildi sem sé við hann.

Og þarna lá hann hinn síðasta dag í gistiheimilinu við Richmond-höfn, og reyndi að handleika bækurnar sínar. Öll sú glæsta framtíð sem við honum hafði blasað orðin að engu og einvígið við Hamilton varð sá örlagavaldur sem öllu breytti. Bara af því Burr hafði fylgt því boðorði Voltaires sem sagði einhvers staðar að svara skyldi öllum móðgunum af hörku. Eftirfarandi er haft fyrir satt:

Að á síðustu stundu hafi honum orðið hugsað til kafla í skáldsögunni um Tristram Shandy eftir Laurence Sterne, þar sem söguhetjan ætlar að kremja flugu en hættir svo við og hjálpar flugunni að komast út um glugga. Og Burr stundi við persónu sem var að stumra yfir honum síðustu andvörpin:

„Ef ég hefði bara lesið meira í Sterne en minna í Voltaire, þá hefði ég kannski áttað mig á því að heimurinn væri nógu stór fyrir bæði Hamilton og mig.“

Svo dó hann.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Fréttir

Þrýsti á fjölmiðlaeiganda vegna umfjöllunar um Vafningsmálið en segist aldrei hafa reynt að stöðva fréttaflutning

Pistill

Áfengi er frábært!

Leiðari

Óvinir valdsins

Fréttir

Sýslumaður kvartar undan „ótæpilegri“ umræðu um starfsmenn embættisins

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Fréttir

Faðir Bjarna Benediktssonar greiddi upp skuldir hans vegna áhættuviðskipta

Afhjúpun

Bjarni losnaði við 50 milljóna kúlulánaskuld í aðdraganda hrunsins

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Blogg

„Getur ekki einhver þaggað niðri í Stundinni?“