Pistill

Vandamálið við barnabókabrennur

Þórarinn Leifsson veltir fyrir sér málsvörum góðra barnabókmennta.

 Um daginn datt fullorðinni manneskju allt í einu í hug að opna barnabækur eftir Helga nokkurn Jónsson og komst þannig að raun um að þær innihalda argasta klám. Ég veit ekki hversu oft ég hef rekið augun í þessar slímgrænu bækur í auglýsingabæklingum svo fyrstu viðbrögð mín voru að furða mig á því að eftir allan þennan tíma, allar þessar auglýsingar, allar þessar jólagjafir, þá uppgötvi einhver – alveg óvart – að gæsahúðarbækurnar eru vondur texti.

Málsvarar góðra bókmennta geystust fram á ritvöllinn til að taka dónann niður. Einhver skrifaði pistil þar sem höfundurinn var vændur um lélega stafsetningu en pistlahöfundur gerðist sjálfur sekur um skort á máltilfinningu í fyrstu málsgrein: „Helgi Jónsson er ekki þó vandamálið.“ Ég brosti út í annað. Gott og vel, þessi Helgi er kannski vondur textahöfundur en pistlahöfundurinn er það líka. Haltur ætlar að hrinda blindum fram af brúninni og kveikja í bókasafninu? Er það gott fyrir okkur hin?

Öll skrifum við einhvern tímann vonda texta. Fyrir rúmu ári síðan sat ég inni í skólabekk í Mílanó ásamt tuttugu yndislegum börnum og hlustaði á túlk lesa upp úr bók eftir mig. Á meðan fletti ég rogginn í gegnum íslenska frumritið sem ég hafði ekki skoðað í nokkur ár. Strax í fyrstu málsgrein rakst ég á tvær setningar sem hefði mátt orða betur.

Spænskukunnátta gerir það að verkum að ég get auðveldlega stautað mig í gegnum setningar á ítölsku. Og viti menn. Ítalska þýðingin virtist vera mun betri en frumtextinn. Ítölsku börnin horfðu opinmynnt á vindblásinn útlendinginn án þess að hafa hugmynd um að hroðvirknislegur textinn hafði farið í gegnum nákvæma þvottavél Silvíu Cosimini þýðanda áður en hann bergmálaði í hvítri skólastofunni. Mér var borgið. Allavega um sinn.

Því ef við byrjum þessi réttarhöld yfir bókum þá verðum við aldrei södd og alveg ljóst hvað verður ritað í minn bautastein: Fyrst komu þau að ná í dónakarlana, en ég var ekki mikið í því að klæmast sjálfur svo ég sagði ekkert. Þá tóku þau rithöfunda sem rugga bátum og ögra, en ég var á öndverðum meiði við ólátabelgina og gerði því ekkert. Svo komu þau og sóttu fúskarana, en ég var sjálfur með prófarkalesara svo ég gerði ekkert. Svo sóttu þau rithöfunda sem þóttu einfaldlega vondir, en ég gat státað af verðlaunum og glæstum dómum og lét það afskiptalaust.

Og þegar þau sóttu mig, þá var enginn eftir sem gat talað máli mínu.

Fyrir nokkrum árum síðan tók sænskur bókasafnsfræðingur upp á því að fjarlægja Tinna í Kongó úr hillum bókasafns í Stokkhólmi vegna þess að honum líkaði ekki hvernig Hergé gerði lítið úr hörundsdökku fólki. Fjölmiðlar gengu berserksgang og bókavörðurinn varð fljótlega að setja Tinna aftur á sinn stað og fara í ólaunað frí. Ég hef lesið hluta af þessari Tinnabók fyrir son minn. Þetta er ein af slakari bókum Hergé og hörundsdökkt fólk er vissulega steríótýpískt og ljótt í henni. En ef við fjarlægjum hana úr hillum þá verðum við að fara alla leið og fjarlægja mun fleiri bækur.

„Forlagið hikaði ekki nema í nokkrar klukkustundir áður en allt upplagið var fjarlægt úr sænskum bókabúðum“

Ein af fyrstu bókunum sem ég las sem barn var Sjóræningjaeyjan eftir Robert Louis Stevenson og framarlega í bókinni – ekki spyrja hvar því það eru liðin rúmlega 40 ár – leggur einn karakterinn fæð á annan fyrir að vera í tygjum við svarta konu. Þetta sat af einhverjum ástæðum í mér í mörg ár vegna þess að ég skildi ekki hvernig „góðu“ karakterarnir í bókinni gátu haft svona „vondar“ skoðanir að mér fannst. Það var ekki fyrr en löngu síðar að ég áttaði mig á því að höfundurinn væri sennilega rasisti. En það breytir því ekki að bókin var í heildina góð og sjálfur hef ég aldrei trúað því eitt andartak að einn kynþáttur sé öðrum æðri. Við verðum að treysta börnum til að lesa og dæma sjálf!

Eitt skelfilegasta dæmið um fordæmingu á bók á okkar tímum var þegar samfélagsmiðlar komu barnabók eftir Martin Strid úr sænskum bókahillum. Margir Íslendingar þekkja „Í búðinni hans Mústafa“ af góðu. Fjörutíu síðna ljóðabók myndskreytt stórskemmtilegum teikningum höfundar. Kvæði um froska sem fremja bankarán, grænmetissala sem fá nýja og óvenjulega vinnu og margt fleira. Í einni opnu í bókinni er ljóð um Mústafa sem stendur keikur í búð sinni með stóra sveðju og segir sögur af því þegar hann var sultan í landi langt í burtu og hafði þá fyrir sið að hálshöggva mann og annan. Það var einmitt þessi Mústafa sem skóp neistann sem kveikti bálið. Karakterinn þótti draga upp steríótýpíska mynd af múslima, þetta væri hreinn og klár rasismi. Sænskir samfélagsmiðlar trylltust og forlagið hikaði ekki nema í nokkrar klukkustundir áður en allt upplagið var fjarlægt úr sænskum bókabúðum, þrátt fyrir að bókin hefði selst í bílförmum í nokkur ár. Allt gerðist þetta á örfáum tímum.

Upphlaupið í kringum karakter Mústafa snart mig persónulega vegna þess að ég hafði verið nágranni Martin tíu árum áður og þekkti afar vel hverfið sem hann sótti innblásturinn í. Við Blågardsplads á Norðurbrú búa mjög margar fjölskyldur ættaðar frá Austurlöndum nær og eins frá Austur-Afríku. Það var í þessu hverfi sem ég og konan mín leigðum íbúð fyrir ofan hassklúbb og það var þarna sem ég gekk beint í flasið á fjöldamótmælum gegn teikningum af spámanninum þegar ég var á leiðinni í bakarí sunnudagsmorgun einn árið 2005. Fyrir mér var deginum ljósara að myndskreytt barnabók Martin Strid væri ástaryfirlýsing til fjölmenningar á Norðurbrú, til lifandi andstæðna daglegs lífs, til þess að fólk geti staðið hnarreist þrátt fyrir fátækt og erfiðleika og til mannlífsins í allri sinni dýrð.

Ef við kveikjum í bókum getur reynst erfitt að slökkva bálið.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Fréttir

Þrýsti á fjölmiðlaeiganda vegna umfjöllunar um Vafningsmálið en segist aldrei hafa reynt að stöðva fréttaflutning

Pistill

Áfengi er frábært!

Leiðari

Óvinir valdsins

Fréttir

Sýslumaður kvartar undan „ótæpilegri“ umræðu um starfsmenn embættisins

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Fréttir

Faðir Bjarna Benediktssonar greiddi upp skuldir hans vegna áhættuviðskipta

Afhjúpun

Bjarni losnaði við 50 milljóna kúlulánaskuld í aðdraganda hrunsins

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Blogg

„Getur ekki einhver þaggað niðri í Stundinni?“