Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Pistill

Undarleg leið til að ná fram umbótamálum

Hugleiðingar um myndun ríkisstjórnar og val Bjartrar framtíðar.

Formaður Bjartrar framtíðar segist leggja höfuðáherslu á að koma stefnumálum flokksins í framkvæmd. Þess vegna hafi hann gengið til formlegra stjórnarmyndunarviðræðna við Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn.

Eftir að að tilkynnt var um viðræðurnar tilgreindi Óttarr Proppé fjögur lykilmál sem flokkurinn vill ná fram: sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál, peningamál og Evrópumál. 

Prófum að bera stefnu Bjartrar framtíðar í umræddum málum saman við stefnumál hinna sex flokkanna sem eiga sæti á Alþingi:

1. Sjávarútvegsmál

Í sjávarútvegsmálum leggur Björt framtíð áherslu á sjálfbæra nýtingu og góð rekstrarskilyrði sjávarútvegsfyrirtækja og vill beita markaðslausnum til að tryggja að sjávarútvegurinn greiði sanngjarnt gjald fyrir nýtingu auðlindarinnar. Flokkurinn vill bæði notast við veiðigjöld og bjóða upp aflaheimildir á markaði.

Þetta fellur í meginatriðum vel að áherslum Samfylkingarinnar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna. Einungis tveir stjórnmálaflokkar af sjö hafa tekið afgerandi afstöðu gegn uppboðsleið í sjávarútvegi. Þetta eru Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn (flokkar sem eru svo mótfallnir uppboðsleiðinni að þeir víla ekki fyrir sér að fara með rangt mál þegar rætt er um kosti hennar og galla).

Af þessu má álykta að Björt framtíð eigi miklu frekar möguleika á að koma sjávarútvegsstefnu sinni í framkvæmd án mikilla málamiðlana í samstarfi við miðju- og vinstriflokka heldur en í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Það sama á reyndar við um Viðreisn. 

2. Landbúnaðarmál

Í landbúnaðarmálum leggur Björt framtíð áherslu á aukna samkeppni, innflutning og útflutning landbúnaðarafurða og vill „styrkja bændur fremur til þess að gera það sem þeir telja hagkvæmast að gera á sínu landi“. Fyrir liggur að Björt framtíð greiddi einn flokka atkvæði gegn búvörusamningum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Úr þessu gerði flokkurinn mikið í kosningabaráttu sinni og má raunar leiða líkum að því að afstaðan hafi bjargað Bjartri framtíð frá afhroði í síðustu þingkosningum. 

Í landbúnaðarmálum fer stefna Bjartrar framtíðar vel saman við stefnu Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata. Vinstri græn hafa lagt áherslu á stuðning við íslenskan landbúnað og hafa beitt sér fyrir því, rétt eins og Björt framtíð, að umhverfis- og dýraverndarsjónarmið fá i aukið vægi í landbúnaði.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eru þeir flokkar sem stóðu að búvörusamningunum sem Björt framtíð barðist gegn, en þeir voru undirritaðir fyrr á árinu af Bjarna Benediktssyni og Sigurði Inga Jóhannssyni. Sjálfstæðisþingmennirnir Jón Gunnarsson og Haraldur Benediktsson, fyrrverandi formaður Bændasamtakanna, voru í lykilhlutverki þegar samningarnir voru lögfestir á Alþingi. Björt framtíð gerir miklar kröfur um breytingar á starfsumhverfi íslensks landbúnaðar og vill endurskoða umrædda samninga frá grunni. 

Stefna Sjálfstæðisflokksins í landbúnaðarmálum er mótuð af atvinnuveganefnd flokksins á landsfundi. Formaður nefndarinnar er Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar. Á síðasta landsfundi fengu Ari og Bjarni Benediktsson því framgengt, eftir heitar umræður, að fyrirheit um afnám allra tolla á fjögurra ára tímabili – þ.m.t. afnám tolla á landbúnaðarvörur – voru felld út úr ályktun efnahags- og viðskiptanefndar flokksins. Þrátt fyrir orðræðu Sjálfstæðisflokksins um markaðslausnir og frjálsa samkeppni hefur flokkurinn reynst tregur til að hrófla við íslensku landbúnaðarkerfi, en meðal yngri flokksmanna og ákveðinna þingmanna er meiri breytingavilji. Það hvort Björt framtíð, Viðreisn og Sjálfstæðisflokkurinn eigi eftir að ná saman um breytingar á landbúnaðarkerfinu kann að velta á því hvaða sjónarmið ná yfirhöndinni meðal sjálfstæðismanna, en líklegasta niðurstaðan er sú að allir þrír flokkarnir þurfi að gefa talsvert eftir.

3. Peningamál

Björt framtíð vill leita leiða til að koma á stöðugum gjaldmiðli sem tryggir lágt vaxtastig og góð tengsl við alþjóðaviðskiptaumhverfið og telur vænlegast að ljúka aðildaviðræðum við Evrópusambandið og opna þannig leið til gjaldmiðilssamstarfs við Evrópska seðlabankann. Þau líta ekki á íslensku krónuna sem framtíðargjaldmiðil og vilja leita leiða til taka upp aðra mynt eða tengja krónuna við evru.

Samfylkingin og Viðreisn hafa líka skýra stefnu um að stefnt verði að upptöku evru eða að krónan verði tengd við hana. Vinstri græn hafa ekki útilokað neina kosti hvað varðar gjaldmiðlamál. Píratar eru óskrifað blað í þeim efnum en hafa sýnt vilja til breytinga.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur hins vegar, ásamt Framsóknarflokki, lagt ríka áherslu á að treyst verði á íslensku krónuna sem framtíðargjaldmiðil. Það virðist því blasa við að Björt framtíð, og einnig Viðreisn, eigi frekar möguleika á að ná stefnu sinni í peningamálum fram með samstarfi til vinstri en hægri.

4. Evrópumál

Björt framtíð vill klára aðildarviðræður við Evrópusambandið og landa góðum samningi sem landsmenn geti tekið afstöðu til í þjóðaratkvæðagreiðslu. Píratar, Samfylkingin og Vinstri græn hafa einnig lýst vilja til að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna.

Öðru máli gegnir um Sjálfstæðisflokkinn sem hefur lagst eindregið gegn slíku og virðist líta á það sem „pólitískan ómöguleika“ að sitja í ríkisstjórn þar sem viðræðum er fram haldið. Viðreisn er flokkur sem var beinlínis stofnaður eftir að gríðarleg óánægja gaus upp vegna slita Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins á aðildarviðræðunum við ESB.

Mun auðveldara er að sjá fyrir sér fjölflokka ríkisstjórn boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald ESB-viðræðna heldur en ríkisstjórn skipaða Sjálfstæðisflokknum. Það liggur líka fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki sitja í ríkisstjórn ef niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna verður honum ekki þóknanleg. Hvað varðar Evrópumál eiga hvorki Björt framtíð né Viðreisn samleið með Sjálfstæðisflokknum.

En það voru fleiri mál til umræðu í aðdraganda kosninga. 

Heilbrigðis- og skólamál

Í heilbrigðismálum hefur Björt framtíð lagt áherslu á hóflega aukningu fjárframlaga til kerfisins, lágmörkun greiðsluþátttöku sjúklinga og fjölbreytt rekstrarform. Í þessu fara áherslur Bjartrar framtíðar betur saman við áherslur Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar en annarra flokka sem allir töluðu fyrir stórauknum útgjöldum til heilbrigðismála með áherslu á endurreisn opinbera geirans. Í menntamálum hefur Björt framtíð einnig, rétt eins og Sjálfstæðisflokkurinn og Viðreisn, talað fyrir fjölbreyttu rekstrarformi. Flokkurinn beitti sér hins vegar eindregið gegn LÍN-frumvarpi sjálfstæðismanna. Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, lýsti því sem „Thatcherisma“ í sinni verstu mynd og „kristaltæru dæmi um ótrúlega vont pólitískt hjartalag“. Þetta bendir ekki til þess að námslánastefna Bjartrar framtíðar sé í anda þess sem Sjálfstæðisflokkurinn boðar.

Innviðir og opinber fjárfesting

Björt framtíð hefur gagnrýnt fyrri ríkisstjórn fyrir að hlúa ekki nægilega að innviðum, svo sem í vegakerfinu og á ferðamannastöðum, og hvatt til aukinnar opinberrar fjárfestingar. Þetta er í takt við stefnumál flestra annarra flokka en á skjön við gildandi ríkisfjármálaáætlun og málflutning Bjarna Benediktssonar um að það sé „mjög lítið svigrúm fyrir stóraukna opinbera fjárfestingu“. Í fjármálaáætlunin fyrri stjórnar, sem samþykkt var af 29 þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins þann 18. ágúst síðastliðinn, er gert ráð fyrir að fjárfestingarstig ríkisins verði álíka lágt og á tímum kreppunnar næstu fimm árin. Þetta fellur varla að stefnu Bjartrar framtíðar um aukningu opinberrar fjárfestingar.

Kjör aldraðra og öryrkja

Björt framtíð lagði ásamt Vinstri grænum, Samfylkingu og Pírötum fram tillögu við afgreiðslu fjárlaga ársins 2016 um að lágmarkslífeyrir aldraðra öryrkja yrði miðaður við lágmarkslaun. Viðreisn tók undir þetta sjónarmið í kosningabaráttunni. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn voru hins vegar mótfallnir tillögunni og felldu hana. Björt framtíð sýndi það ítrekað á síðasta kjörtímabili að flokkurinn leggur mun meiri áherslu á velferðarmál en Sjálfstæðisflokkurinn. Í þessum málaflokki virðist Björt framtíð eiga meiri samleið með vinstrivængnum en hægrinu.

Umhverfismál

Björt framtíð talar fyrir umhverfisvernd og hefur tekið harða afstöðu gegn stóriðjustefnu. Hvað þetta varðar eru áherslur flokksins nær stefnu Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Pírata en Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sem hafa verið mjög á öndverðum meiði við hina flokkana í umhverfismálum undanfarin ár.

„Við verðum að fara vel með [auðlindir] fyrir komandi kynslóðir og í því sambandi eigum við að hætta öllum stóriðjurekstri,“ sagði Björt Ólafsdóttir, oddviti Bjartrar framtíðar í Reykjavíkurkjördæmi norður og líklega ráðherraefni flokksins, í sjónvarpskappræðum á RÚV þann 11. október síðastliðinn og bætti við: „Þessu er ekkert lokið nema við segjum stopp og það þarf að gera það og það ætlum við í Bjartri framtíð að gera.“ 

Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf verið hallur undir stóriðju og á síðasta kjörtímabili beitti hann sér harkalega fyrir því að miklu fleiri virkjanakostir yrðu settir í nýtingarflokk en verkefnisstjórn rammaáætlunar hafði mælt fyrir um. Það fæst ekki séð að Björt framtíð eigi meiri samleið með Sjálfstæðisflokknum í umhverfismálum heldur en með hinum flokkunum.

Stjórnarskrármál

Björt framtíð hefur lagt áherslu á að vinnu við nýja stjórnarskrá á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs verði lokið. Vinstri græn, Samfylkingin og Píratar hafa sams konar stefnu, Píratar hafa lagt mesta áherslu á málið. Viðreisn hefur talað fyrir hófsömum breytingum á stjórnarskrá og sömuleiðis Framsóknarflokkurinn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur aftur á móti lagst eindregið gegn stórtækum breytingum á stjórnarskránni. Þarna er Björt framtíð nær vinstrivængnum en Sjálfstæðisflokknum.

Allt í allt virðist Björt framtíð eiga miklu meiri samleið með vinstri- og miðjuflokkum heldur en hægrinu, bæði hvað varðar lykilmál flokksins og mál sem voru fyrirferðamikil í umræðunni fyrir þingkosningar. Hægribeygja flokksins hlýtur því að eiga sér einhverjar aðrar skýringar. 

Það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr þeim formlegu stjórnarmyndunarviðræðum sem nú eru hafnar. Ef Björt framtíð neyðist til að gefa mikið eftir gæti orðið erfitt fyrir flokkinn að sannfæra kjósendur sína um að myndun ríkisstjórnar með Sjálfstæðisflokknum og Viðreisn – veikrar stjórnar með stuðning aðeins 32 þingmanna – hafi verið hið rétta í stöðunni. Fyrir þann sem fylgist með úr fjarlægð virðist sú ákvörðun ekki vera sérlega líkleg til að tryggja helstu umbótamálum flokksins brautargengi, heldur frekar að gelda þau.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Leiðari

Óvinir valdsins

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“

Pistill

Þorum við að vera við?

Fréttir

Fékk nóg af hagræðingartali ráðherra: „Við erum hér alla daga að reyna gera okkar besta“

Fréttir

Sagðist sjálfur hafa greitt skuldirnar sem faðir hans yfirtók

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Fréttir

Faðir Bjarna Benediktssonar greiddi upp skuldir hans vegna áhættuviðskipta

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Leiðari

Óvinir valdsins