Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Pistill

Topp 10 listi – Allar breiðskífur Metallica

Svarta platan svokallaða. Hann var aldrei svona ofboðslega hrifinn af henni. Snæbjörn Ragnarsson raðar plötum Metallica upp eftir gæðum.

Metallica er sér á báti. Ekki uppáhald hljómsveitin mín en sennilega sú sem hefur haft mest áhrif á mig. Ég hef elskað, hatað, elskað að hata og hatað að elska. Það sem á eftir fer er meira virðingarvottur en gagnrýni.

10. Load (1996)

Hún er lélegust af þeim öllum, en aðeins sjónarmuni á eftir níunda sætinu, enda eru þær að sögn meðlima samhangandi verk. Að því sögðu er hvorug platan alslæm, þótt þessi fari reyndar ansi nærri því. Andlaus og kántrískotinn töffaraskapur í bland við hugmyndasnauð riff í 78 mínútur. Það gengur ekki. 

Hápunktur:  Wasting My Hate (kannski af því að það er styst). 

9. Reload (1997)

Þessi seinni helmingur er aðeins skárri. En magnið af fillerum er með ólíkindum. Margir hafa velt því fyrir sér hvort hægt hefði verið að sjóða þessar tvær plötur niður í þokkalega, klukkutíma útgáfu. Mögulega. En mig grunar samt að sú plata hefði samt sem áður endað í neðsta sæti þessa lista. Eða nei, ég hefði orðið að gera topp 10 lista (ekki topp 9) og þá hefði ég talið Lulu, samvinnuverkefni Metallica og Lou Reed, með. Sú plata vermir sjálfkrafa neðsta sæti á öllum listum veraldar. 

Hápunktur: The Memory Remains (vegna þess að innkoma Marienne Faithful gengur fullkomlega upp). 

8.  St. Anger (2003)

Ég man að ég reyndi að fíla þessa plötu þegar hún kom út. En hún er ekkert mjög góð. Hún er búin til á stórundarlegu tímabili meðlima þar sem allir virtust vera í einhverju uppgjöri við lífið. Það sem bjargar því sem bjargað verður er sú staðreynd að þeir eru að reyna. Þarna er baráttuvilja að finna, öfugt við á Load-tvíleiknum þar sem menn greinilega héldu að þeir gætu leyft sér allt. Bestu lögin eru líka bara skratti góð og títtrætt snerilsánd hefur aldrei pirrað mig jafn mikið og aðra. 

Hápunktur: St. Anger (sem er fullt af skrýtnum tilraunum sem falla réttum megin, öfugt við mörg önnur lög plötunnar). 

7. Death Magnetic (2008)

Tökum nú upp léttara tal. Þessi plata er skítgóð og í fyrsta sinn síðan 1996 sem maður fékk ekki á tilfinninguna að þeim fyndist í lagi að keyra á 1–3 almennilegum lögum og fylla upp í rest með kíttispaða. Ekkert sérlega eftirminnileg kannski, nema þá kannski fyrir þær sakir að manni fannst heimurinn hafa endurheimt bandið eftir dimma tíma. 

Hápunktur: The Unforgiven III (þrátt fyrir að vera hluti af svona hallærislegri lagaseríu, því þetta er þetta bara svo djöfull glúrin smíð og á þessum tíma þeirra besta lag í 17 ár). 

6. Metallica (1991)

Svarta platan svokallaða. Ég var aldrei svona ofboðslega hrifinn af henni. Hún er frábær sko, en bauð upp á hljóm sem síðar varð að Load-sorpinu og kannski hef ég bara ekki náð að fyrirgefa það. Hún er líka fyrsta platan sem kom út eftir að ég byrjaði að fylgjast með bandinu og þar eru oft skörp skil í hlustunarferlinu. Og ég var unglingur með dólg. En já, hún er frábær, sem gefur okkur að 6 af 10 plötum Metallica eru frábærar. 

Hápunktur: Through The Never (en þetta er í fyrsta sinn á þessum lista sem ég þurfti að velta þessu vali fyrir mér – þetta lag vísar meira í það sem á undan fór en í það sem á eftir kom).

5. Hardwired ... to Self-Destruct (2016)

Nýjasta afurðin. Alveg ógeðslega góð. Og hver hefði trúað því? Svo góð að ég er logandi spenntur að sjá hvað þeir gera næst. Það hefur ekki gerst í bráðum 30 ár. Bravó! 

Hápunktur: Spit Out The Bone (sem er grjóthart og allt það góða sem Metallica stendur fyrir). 

4. Ride the Lightning (1984)

Nú fer þetta að verða erfitt. Fyrstu fjórar plöturnar á ferlinum eftir og þær gætu næstum því verið í hvaða röð sem er. Ride er fullkomin plata en fer í síðasta sætið af þessum fjórum. Það segir sitt. Tvö lög sem draga hana niður en góðu lögin eru ekki minna en ódauðleg. Stysta plata Metallica, 47 mínútur. Það er nóg.

Hápunktur: Ride the Lightning (sem mögulega inniheldur besta gítarsóló í heimi). 

Fullkomlega frábær, frumkraftur táningshormónanna allsráðandi og engir gíslar teknir.

3. Kill ‘Em All (1983)

Fyrsta platan og frábrugðin öllu öðru. Fullkomlega frábær, frumkraftur táningshormónanna allsráðandi og engir gíslar teknir. Platan sem breytti leiknum. Riffin dásamlega einföld en samt svo stórkostleg og allt er kjaftshögg. Eldri menn hefðu mögulega sleppt því að hafa þetta bassasóló samt.

Hápunktur: The Four Horsemen (sem ég set í dag framfyrir Hit The Lights og Seek & Destroy).

2. .. .And Justice For All (1988)

Þessi plata breytti því hvernig ég hlustaði á tónlist, svo einfalt er það. Yfirgengilegur og ósvikinn töffaragangur og þessi ótrúlegi hæfileiki að geta látið flókið hljóma einfalt. Hún var lengi vel efst á þessum lista mínum en í gegnum árin hef ég orðið að viðurkenna hversu skelfilega illa hún sándar. Í fullkomnu mixi væri þetta besta plata allra tíma.

Hápunktur: Blackened (sem er upphafslag plötunnar og setur mig alltaf í ákveðnar stellingar og færir mig til í tíma og rúmi).

1. Master Of Puppets (1986)

Hin fullkomna plata. Hvert einasta riff er frábært, lagasmíðarnar úthugsaðar en þó lífrænar, sándið algerlega dásamlegt og spilamennskan óaðfinnanleg. Átta lög alls, þrjú yfir átta mínútum og ekkert undir fimm, en öll líða þau hjá á augabragði. Hættu að lesa og hlustaðu núna, frá upphafi til enda.

Hápunktur: Battery (sem gæti gert tilkall sem besta lag Metallica fyrr og síðar).

 

Svo mörg voru þau orð. Hér eru allir hápunktarnir í einum lista: http://spoti.fi/2rco8Cv

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Gagnrýnir prófíl-mynd þingkonu sem kvartar undan áreitni

Fréttir

Isavia þarf að afhenda Aðalheiði yfirstrikaðar upplýsingar: „Svo mér endist ævin til að reka þetta mál“

Fréttir

Þrjú hundruð stjórnmálakonur skora á stjórnvöld: „Hótað nauðgun vegna skoðana minna“

Fréttir

Geir tapar fyrir Mannréttindadómstólnum: Engin mannréttindi brotin í Landsdómsmálinu og málsmeðferð í samræmi við lög

Fréttir

Óttast að trúfélagsapp safni persónuupplýsingum

Fréttir

Undanfarin ár sýnt að sjálfstæð peningastefna geti virkað á Íslandi

Mest lesið í vikunni

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Aðsent

VG – in memoriam

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Fréttir

Selur bílinn sinn til að borga ríkinu fyrir eigin brottflutning

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“

Fréttir

Gagnrýnir prófíl-mynd þingkonu sem kvartar undan áreitni