Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Flækjusagan

Þegar múslimar héldu Washington DC í heljargreipum

Illugi Jökulsson rifjar upp 40 ára gamla sögu

Í Washington er nú í dag minnst óvenjulegs atburðar sem gerðist fyrir réttum 40 árum. Tólf byssumenn tóku þá þrjár byggingar í höfuðborg Bandaríkjanna herskildi og höfðu alls 130 gísla í haldi í 39 klukkutíma.

Betur þótti fara en á horfðist en einn maður lét þó lífið í atgangi þessum og lögreglumaður sem særðist lést nokkru síðar af hjartaáfalli á sjúkrahúsi.

Maður hét Ernst McGhee, svartur á hörund og fæddist í Indiana-ríki árið 1921.

Jabbar

Á heimsstyrjaldarárunum síðari var hann um tíma í bandaríska hernum en var að lokum vísað þar á dyr því hann þótti ekki hafa þá miklu hugarró sem bandarískum hermönnum væri nauðsynleg.

Það var hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem sú hugmynd hvarflaði að þeim, er áttu við samskiptum við McGhee, að hann væri svo óstöðugur í lund að stundum væri hann ekki alveg með réttu ráði.

Nema hvað, McGhee gerðist trommari í jazz-hljómsveitum í höfuðborginni. Hann tók og þátt í mannréttindabaráttu svartra sem aukinn kraftur var þá að færast í.

Á sjötta áratugnum gerðist hann múslimi en þá var nokkuð algengt að svartir baráttumenn yfirgæfu kristindóm og gengju til liðs við íslam. Þeir vildu ekki vera í sama trúfélagi og þeir samviskulausu þrjótar sem höfðu hneppt formæður þeirra og -feður í þrældóm á sínum tíma.

Að sönnu gleymdu þá hinir svörtu baráttumenn - eða kusu að líta framhjá - að arabískir múslimar höfðu ekki verið síður stórtækir en kristnir menn í að hneppa Afríkumenn í þrældóm á sínum tíma, en það er önnur saga.

Ernst McGhee tók sér nú nafnið Hamaas Abdul Khaalis og hann komst til frama innan Þjóðar Íslams, sem voru samtök svartra múslima. Var hinn nýnefndi Khaalis um tíma ritari samtakanna. Árið 1958 sagði hann hins vegar skilið við Þjóð Íslams og stofnaði sín eigin trúarsamtök sem gengu síðan undir nafninu Hanafi hreyfingin.

Þótt Khaalis væri eftir sem áður nokkuð vanstilltur, og stundum harla geggjaður, svo það sé nú sagt hreint út, þá hafði hann persónutöfra og laðaði heilmikið af fólki til liðs við hreyfingu sína.

Langþekktastur þeirra var sérlega hávaxinn og flinkur körfuboltamaður frá New York að nafni Ferndinand Alcindor. Árið 1971 gerðist Alcindor múslimi og tók upp arabíska nafnið Kareem Abdul Jabbar. Hann var löngum viðloðandi hreyfingu Khaalis en ekki áhrifamaður þar.

Árið 1972 birti Khaalis opið bréf þar sem hann réðist harkalega á Þjóð Íslams og urðu þá full vinslit með honum og þeim sem þar voru í forsvari. 

Ári seinna varð skelfilegur atburður þegar nokkrir menn réðust inn á heimili Khaalis og drápu fimm börn hans, einn nýfætt barnabarn og einn mann til viðbótar. Mennirnir náðust og voru dæmdir í lífstíðarfangelsi. Khaalis var mjög ósáttur við réttarhöldin yfir mönnunum og taldi að dómarinn hefði bælt niður vísbendingar um að morðingjarnir hefðu verið á snærum Þjóðar Íslams.

Tæpum fjórum árum eftir morðin eða þann 9. mars 1977 réðust Khaalis og menn hans svo inn í þrjár byggingar í Washington, tóku fjölda gísla og drápu í leiðinni einn blaðamann. Hann lét lífið þegar árásarmenn skutu út í loftið eftir að þeir töldu sig ranglega hafa orðið fyrir árás lögreglu. Þá varð borgarfulltrúinn Marion Barry fyrir hagli úr byssu eins árásarmanna, en hann varð síðar borgarstjóri í Washington og raunar kunnastur fyrir eiturlyfjaneyslu.

Morgunblaðið birti þessa mynd af Khaalis á heimili sínu rétt eftir að hann hafði verið látinn laus, en einhver hafði hótað að sprengja upp heimili hans.

Byggingarnar sem Khaalis og menn hans tóku voru aðalstöðvar samtaka Gyðinga í Washington, Miðstöð Íslams og svo ein borgarstjórnarbygging.

Lögreglu- og borgaryfirvöld í Washington tóku strax þann pól í hæðina að ráðast ekki strax til inngöngu í húsin þrjú, heldur vildu þau reyna að leysa málið með þolinmæði.

Þau hlýddu því á kröfur Khaalis sem voru ýmsar.

Aðallega skyldu morðingjarnir frá 1973 afhentir honum. 

Einnig skyldi kvikmyndin Muhammed: Messanger of God tekin úr dreifingu þar eð um guðlast væri að ræða. Þótt þessi kvikmynd væri gerð af djúpri virðingu fyrir spámanni íslams töldu Khaalis og menn hans í sjálfu sér goðgá að gera bíómynd þar sem spámaðurinn sæist, með hvaða hætti sem það væri. Þeir héldu að Anthony Quinn, aðalleikari myndarinnar, færi þar með hlutverk Múhameðs.

Svo var þó ekki. Raunar mun spámaðurinn alls ekki sjá í þessari mynd.

Fleiri kröfur setti Khaalis fram, svo sem að fá endurgreidda 750 dollara sem hann hafði einu sinni verið dæmdur til að greiða að ósekju - að því er honum sjálfum fannst - auk þess sem Khaalis heimtaði að fá að fá ræða við æðsta mann Þjóðar Íslams, og einnig Múhameð Alí fyrrum heimsmeistara í boxi.

Í 39 klukkustundir var Washington-borg undirlögð vegna umsáturs lögreglunnar um byggingarnar þrjár. Sendiherrar Egiftalands, Pakistans og Írans - sem allir voru að sjálfsögðu múslimar - buðust til að leggja lið við að leysa málið og mættu á þriggja tíma fund með Khaalis í aðalstöðvum Gyðingafélagsins, og lásu fyrir hann og menn hans ritningarstaði úr Kóraninum þar sem hvatt var til miskunnsemi og umburðarlyndis.

Að lokum féllst Khaalis á að gefast upp. Gíslunum var sleppt og menn hans handteknir. Hann sjálfur fékk þó að ganga laus nokkurn tíma sem vakti reiði almennings en hann var fljótlega handtekinn og talinn hafa brotið skilmála lausagöngu sinnar. Að lokum hlaut Khaalis langan fangelsisdóm. Hann dó í fangelsi árið 2003.

Þá um kvöldið var heimaleikur hjá körfuboltaliðinu Los Angeles Lakers í 4.500 kílómetra fjarlægð frá Washington. Gífurlegt lögreglulið mætti á leikinn til að tryggja öryggi Kareem Abdul Jabbars sem spilaði með Lakers. Tengsl hans við Hanadi hreyfinguna voru talin geta valdið úlfúð þótt ljóst væri að hann hefði ekkert vitað um árásina og væri satt að segja ekki ekki innsti koppur í búri Khaalis.

 Allt fór friðsamlega fram þótt liðið sem Lakers væri að spila við væri Washington Bullets.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Fréttir

Gagnrýnir prófíl-mynd þingkonu sem kvartar undan áreitni

Fréttir

Isavia þarf að afhenda Aðalheiði yfirstrikaðar upplýsingar: „Svo mér endist ævin til að reka þetta mál“

Viðtal

Frá fíkli til flóttamanns

Fréttir

Þrjú hundruð stjórnmálakonur skora á stjórnvöld: „Hótað nauðgun vegna skoðana minna“

Fréttir

Óttast að trúfélagsapp safni persónuupplýsingum

Mest lesið í vikunni

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Aðsent

VG – in memoriam

Fréttir

Selur bílinn sinn til að borga ríkinu fyrir eigin brottflutning

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“

Fréttir

Súr Sigmundur kallar Bjarna farþega og segir að hann hljóti að hætta í stjórnmálum