Flækjusagan

Þegar mannkynið dó næstum út - þrisvar

Illugi Jökulsson rekur heimsendakenningar úr fortíðinni.

Á útkikki eftir ógnum - Úr kvikmyndinni „Leitin að eldinum“.

Eitt það afdrifaríkasta sem gerst hefur í sögu Jarðarinnar á síðustu milljónum ára er án nokkurs vafa sigurganga mannkynsins. Maðurinn hefur haft svo víðtæk áhrif á umhverfi sitt að fáar tegundir geta státað af öðru eins, nema þá kannski helst bakteríurnar sem byrjuðu að framleiða súrefni hér í árdaga.

En miðað við hvernig nú er komið fyrir manninum, þá er einkennilegt til þess að hugsa að þrisvar í frekar stuttri sögu sinni virðist tilvera mannkynsins hafa staðið mjög tæpt.

Fyrir um 1,2 milljónum ára voru komnar fram á sjónarsviðið manntegundir eins og homo erectus og homo ergaster. Sumir fræðimenn telja raunar að þá þegar hafi „frumstæðar“ gerðir homo sapiens verið komnar til sögu. 

Nema hvað DNA-rannsóknir gefa til kynna að allar manntegundir sem þá voru komnar til sögu hafi á einhverjum tímapúnkti um þetta leyti aðeins talið um 25.000 einstaklinga. 

Sem sé heldur færri en íbúar Hafnarfjarðar.

Fleiri gætu vissulega hafa leynst hér og hvar en þeir náðu ekki að geta af sér afkomendur, heldur dóu út.

Þetta er þeim merkilegra fyrir þá sök að þá voru þessar manntegundir þegar dreifðar um stóra hluta heimsins: Afríku, Asíu og Evrópu.

Hafði eitthvað komið fyrir eða var fjöldinn alltaf svona hættulega lítill á þessum ævafornu tímum? 

Það er hreinlega ekki vitað.

Fyrir 150.000 árum var homo sapiens svo kominn vel og rækilega til sögunnar, en reyndar alls ekki byrjaður að sýna nein sérstök merki þess að hann væri vitund klárari en aðrar manntegundir.

Um það leyti urðu miklar loftslagsbreytingar. Eftir að loftslagið um alla Jörð hafði verið milt og stöðugt um langa hríð gerðist nú þurrt og kalt.

Búsvæði homo sapiens í Austur-Afríku urðu hrjóstrug og fátt þar að hafa.

Líklega hefur stór hluti mannkynsins dáið út, hversu fjölmennt sem það kann þá að hafa verið, en lítill hópur leitaði suður á bóginn og staðnæmdist við sjóinn á strönd Suður-Afríku.

Þar hafði allnokkru áður búið manntegundin homo naledi sem menn eru nú fyrst búnir að finna og rannsaka. Og segir af því síðar.

En þarna komst homo sapiens upp á lag með að éta skelfisk og ýmislegt góðgæti af því tagi. Einnig spruttu á svæðinu margvíslegir rótarávextir sem mikil næring var í og ekki hafði verið að finna norðar í Afríku.

Homo sapiens varð þá svo hress að hann fór að búa sér til skartgripi í fyrsta sinn. 

En það stóð tæpt. Sumir fræðimenn telja að mannkynið hafi verið komið niður í 600 manns þegar verst lét á þessu kuldaskeiði.

Svona nokkurn veginn eins og íbúar Seyðisfjarðar.

En svona fór að skána veðrið og homo sapiens fór aftur að dreifast um Afríku.

En fyrir 70.000 árum hafði nýtt áfall riðið yfir.

Þá er talið að mannkynið - sá hluti homo sapiens sem við erum öll komin af - hafi verið komið niður í einhvers staðar á bilinu 1.000 til 10.000 manns sem hírðust á litlu svæði í Austur-Afríku.

Ef við segjum 3.000, sem ýmsir giska á, þá jafnast það á við íbúafjölda Grindavíkur.

Af hverju var mannkynið aftur orðið svona fámennt - svo fámennt að varla hefði þurft nema eitt áfall til viðbótar til að það þurrkaðist alveg út?

Ástæðurnar eru vafalaust ýmsar. Nýtt kuldaskeið var til dæmis að hefjast. En margir fræðimenn trúa því að eldfjallið Toba á indónesísku eyjunni Súmötru hafi verið hættulegasti morðvargurinn.

Fjallið gaus fyrir um 73.000 árum. Réttara sagt tættist það í sundur. Öskumagnið sem það sendi út í andrúmsloftið nam 28.000 rúmkílómetrum.

Þetta er langstærsta eldgos síðustu 100.000 ára.

Næst á eftir kemur Taupo-fjall á Nýja Sjálandi sem gaus fyrir 27.000 árum og sendi frá sér 1.170 rúmkílómetra af gosefnum.

Til samanburðar má geta þess að í gosinu í Lagagígum, sem er það stærsta á Íslandi á sögulegum tíma, komu upp 15 rúmkílómetrar af hrauni og dugði til að drepa einn fimmta af íbúum Íslands. 

Magn gosefna er raunar ekki fyllilega sambærilegt eftir því hvort um er að ræða ösku eða hraun, en þetta gefur samt til kynna hve ógurlega miklu stærra Toba-gosið var.

Rétt er að geta þess að ekki eru allir vísindamenn sammála um að eldgosið í Toba hafi verið aðalþátturinn í fækkun mannkynsins fyrir 70.000 árum.

En hvað sem olli, þá stóð tæpt að mannkynið skrimti.

En homo sapiens lifði af og rétt í kjölfarið hóf hann útrás frá Afríku og lagði upp í þá langferð sem enn stendur.

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Leiðari

Óvinir valdsins

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“

Pistill

Þorum við að vera við?

Fréttir

Fékk nóg af hagræðingartali ráðherra: „Við erum hér alla daga að reyna gera okkar besta“

Fréttir

Sagðist sjálfur hafa greitt skuldirnar sem faðir hans yfirtók

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Fréttir

Faðir Bjarna Benediktssonar greiddi upp skuldir hans vegna áhættuviðskipta

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Leiðari

Óvinir valdsins