Pistill

Það geta allir orðið hamingjusamir

Valgeir Magnússon vill að við byggjum upp samfélag hamingjunnar.

Af hverju snýst pólitík bara um efnahags- og félagsmál? Í hverju felast þessi mál? Sumir halda að bættur efnahagur geri okkur hamingjusamari. Aðrir halda að betra menntakerfi og betra heilbrigðiskerfi geri okkur hamingjusamari. En hvað gerir okkur hamingjusamari, ætti það ekki að vera spurningin?

Jú, við þurfum að hafa efnahaginn í lagi og félagsmála- og heilbrigðiskerfið þarf að vera í lagi. En er fleira sem skiptir máli? Frelsi? Erum við frjáls eða erum við þrælar efnahagskerfisins sem við pumpum og pumpum í? Erum við búin að skapa leik þar sem sá sem á mest af dóti, sem hann kemur hvergi fyrir, á flest stig?

Ekki það að ég sé betri en aðrir. Ég bý í allt of stóru húsi, á allt of mörg leikföng, eyði of miklu og er hégómagjarn. En hvað veldur því? Er ég fastur í leik sem ég get ekki unnið, skil ekki reglurnar en spila bara með? Ættum við að endurskoða leikinn og leikreglurnar? Stigin byggjast á almenningsáliti og stöðu okkar á meðal annarra. Við elskum að láta öfunda okkur af öllu dótinu og ferðalögunum. Nýja bílnum og sjálfunni sem við tókum við pýramídana og því hvað börnin okkar standa sig líka vel í því að safna dóti.

Núverandi kerfi er mjög skrýtið og tími fólks er misjafnlega metinn út frá mjög óræðu og ógagnsæju kerfi.“

Einu sinni var ég að tala við Hjalta Úrsus og Andrés Guðmundsson kraftajötna. Þeir voru með hugmynd um að fólk fengi laun út frá því hvað það tæki í bekkpressu. Þannig myndum við skapa okkur sérstöðu og sterkustu þjóð í heimi. Þetta þótti mér fáránleg hugmynd en er hún eitthvað fáránlegri en hvað annað? Núverandi kerfi er mjög skrýtið og tími fólks er misjafnlega metinn út frá mjög óræðu og ógagnsæju kerfi. Sumir fá hundraðföld árslaun annarra fyrir að fórna jafn miklum tíma, og hvor er hamingjusamari? Það er ekki einu sinni víst.

Hvað veldur hamingju og hvað veldur óhamingju? Ef við gætum sameinast um að kryfja það þá gætum við sameiginlega unnið grunnkerfin okkar þannig að þau séu hamingjuaukandi. Og það er hægt. Peningar eru ekki eina leiðin til að halda fólki við efnið. Skemmtileg nálgun var í Black Mirror-þætti um daginn þar sem fólk gat valið um betra húsnæði út frá því hversu háa einkunn fólk gaf þeim á samfélagsmiðli fyrir samskipti. Góð samskipti leiddu að betra húsnæði. Er það eitthvað vitlausara en annað?

Við gátum komið reykingum úr tísku. Það að reykja var mikilvægt tákn í kringum 1980 og reyktu þá læknar inni á sjúkrahúsi yfir sjúklingunum. Við gátum komið rasisma úr tísku, þótt nokkrir hafi ekki fattað það ennþá, frekar en þeir fáu sem enn reykja. Fyrir örfáum árum voru sagðir niðrandi brandarar um konur og það þótti í lagi, og karlakvöld íþróttafélaga fengu súludansmeyjar sem skemmtiatriði. Nú þætti það mjög hallærislegt og skemmtinefndin þyrfti að segja af sér. Við getum því breytt viðhorfum í samfélaginu. Við gátum breytt mataræði og lífsstíl heillar þjóðar hér á landi samkvæmt niðurstöðum rannsókna. Frá 1981 til 2016 var 80% fækkun á ótímabærum hjarta- og heilaáföllum miðaldra fólks eingöngu vegna breytts lífsstíls. Áhættuþættirnir reykingar, of feitt mataræði og lítil hreyfing, voru að hverfa úr menningunni á þessum tíma. Ástæða áróðurs til þessara breytinga var niðurstaða stærstu hjarta- og æðasjúkdómarannsóknar sem gerð hafði verið í heiminum og var gerð á Íslandi. Svokölluð Reykjavíkurrannsókn. Þetta var rannsókn sem stóð yfir frá 1964 og stendur í raun enn. Uppskeran birtist mörgum árum eftir að rannsóknin hófst og í kjölfarið var farið í ýmiss konar áróður út frá niðurstöðum, sem komu fram í kringum 1980. Þarna var grunnvinnan unnin og framsýni höfð að leiðarljósi til að eyða miklum vanda úr samfélaginu.

Hvaða þættir valda hamingju? Getum við rannsakað það og eins hvaða þættir valda óhamingju? Ættum við að gera sambærilega rannsókn og Hjartavernd gerði á 15.000 Íslendingum um langan tíma með það að markmiði að útrýma hjarta- og heilaáföllum? Er ekki andleg líðan aðalvandamál heilbrigðiskerfisins í framtíðinni? Getum við svo nýtt þá rannsókn til að endurskoða uppbyggingu samfélagsins og breyta normum? Hugsanlega er það ekki eins flókið og það hljómar, bara tímafrekt og krefst framsýni. Við gætum byggt upp fyrirmyndarsamfélag ef við vinnum grunnvinnuna. Án hennar höldum við bara áfram að rífast um efnahagsmál og félagsmál í stað þess að hugsa um framtíðina. Ég hef trú á framtíðinni og vil fjárfesta í henni. Mitt líf mun ekki taka stakkaskiptum úr þessu, en þeir sem á eftir koma gætu búið í fyrirmyndarsamfélagi með hamingjusamasta fólki í heimi.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Fréttir

Faðir Bjarna Benediktssonar greiddi upp skuldir hans vegna áhættuviðskipta

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Blogg

„Getur ekki einhver þaggað niðri í Stundinni?“

Fréttir

Þrýsti á fjölmiðlaeiganda vegna umfjöllunar um Vafningsmálið en segist aldrei hafa reynt að stöðva fréttaflutning

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Mest lesið í vikunni

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um heilbrigðismál

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Fréttir

Faðir Bjarna Benediktssonar greiddi upp skuldir hans vegna áhættuviðskipta

Rannsókn

Engeyingarnir fengu tveggja milljarða kúlulán til að eignast N1

Afhjúpun

Bjarni losnaði við 50 milljóna kúlulánaskuld í aðdraganda hrunsins

Pistill

Einum vísað af lista Sjálfstæðisflokksins