Flækjusagan

Stjórnmálakennari Hitlers dó í fangabúðum Nasista

Illugi Jökulsson segir frá lítt þekktri neðanmálsgrein sögunnar

Karl Mayr - Hann bar „glóandi hatur“ til Sovétríkjanna að sögn vinar hans. Það mikla hatur blindaði honum sýn á örlagastundu og hann taldi að þjóðernisofstæki væri skárra en kommúnismi að hætti Sovétmanna.

Þann 5. febrúar árið 1945 mátti öllum vera ljóst að það var aðeins spurning um örfáa mánuði þangað til Þjóðverjar yrðu að gefast upp í seinni heimsstyrjöldinni, þótt Adolf Hitler héldi enn áfram að boða lokasigur úr neðanjarðarbyrgi sínu í Berlín.

Þennan dag gerðu sprengjuflugvélar Bandamanna loftárás á hergagnaverksmiðju eina rétt hjá borginni Weimar í miðju Þýskalandi. 

Ekki veit ég hve margir féllu eða hve miklar skemmdir urðu á verksmiðjunni, en þar féll alla vega í valinn maður nokkur sem segja má að hafi borið nokkurn hluta ábyrgðarinnar á því hvernig komið var.

Og þekkja þó fáir til hans: Karl Mayr hét hann og var fangi í fangabúðunum í Buchenwald, rétt hjá Weimar, en fangarnir þar voru notaðir sem þrælar í hergagnaverksmiðjunni.

Mayr fæddist árið 1883. Hann var af miðstéttarfólki, gekk í þýska herinn ungur að árum og þótti frábær hermaður. Hann barðist víða í fyrri heimsstyrjöldinni, til dæmis bæði í Ölpunum gegn Ítölum og í Tyrklandi, en Tyrkir voru bandamenn Þjóðverja í stríðinu. Hann var orðinn majór í hernum og mun hafa verið heittelskaður og mikilsvirtur af undirmönnum sínum.

Eftir að Þjóðverjar urðu að gefast upp í nóvember 1918 var flest á hverfanda hveli í Þýskalandi. Mikil reiði var ríkjandi og öfgahópar óðu uppi sem reyndu að hagnýta sér þörf fólks fyrir að finna sökudólga að óförum Þjóðverja.

Kommúnistar virtust um tíma þess albúnir að hrifsa til sín völdin, að minnsta kosti í Bæjaralandi, rétt eins og þeir höfðu rænt völdum í Rússlandi 1917.

Mayr var harður andkommúnisti og gekk í áróðurs- og njósnadeild hersins til að reyna að sporna gegn áhrifum kommúnista. 

Meðal þess sem deildin tók sér fyrir hendur var að halda eins konar námskeið í þjóðernisstefnu fyrir rótlausa hermenn. Þar var dátunum kennt að berjast gegn kommúnismanum með þjóðernisstefnu að vopni.

Mayr hélt því fram síðar að hann hefði í rauninni ekki verið heitur þjóðernissinni á þessum árum, og alls ekki Gyðingahatari - en Gyðingaandúðin kom jafnan í kjölfar þjóðernisofstækisins. Hann hefði einungis litið af stæka þjóðernisstefnu með tæki til að koma í veg fyrir að kommúnistar næðu völdum.

Meðal þeirra sem sóttu námskeið sem Mayr skipulagði var Adolf Hitler. Hann var þá eins og fleiri hermenn rótlaus og beiskur, en hafði ekki tekið þátt í stjórnmálastarfi áður.

Karl Mayr hefur verið kallaður „stjórnmálakennari Hitlers“.

Hitler hafði þegar hneigst til þjóðernisstefnu en alveg óvíst er hvort hann hefði sökkt sér niður í stjórnmál ef ekki komið til námskeið Mayrs - og svo næsta skrefið sem Mayr fékk Hitler til að stíga.

Þýski Verkamannaflokkurinn var örsmár þjóðernisöfgaflokkur. Mayr vildi fylgjast með gangi mála hjá öllum öfgaflokkum, bæði til hægri og vinstri, og hann réði því Hitler til að ganga í flokkinn og gefa sér síðan upplýsingar um það sem það færi fram. Anton Drexler hét formaður flokksins, og Hitler heillaðist af þjóðernisofstæki hans og Gyðingahatri. En hann reyndist líka sjálfur vera eldheitur ræðumaður og áróðursmaður og þar kom að Hitler tók yfir flokkinn, og Drexler var sendur út í kuldann.

Þessi flokkur varð skömmu síðar Þjóðernissósíalistaverkamannaflokkur Þýskalands: Nasistaflokkurinn.  

Hitler gekk sem sagt í Nasistaflokkinn sem launaður útsendari Mayrs.

Mayr var sjálfur eitthvað viðloðandi Nasistaflokkinn í stuttan tíma en sagði svo skilið flokkinn og sömuleiðis við herinn, og fór að taka þátt í starfi þýska Jafnaðarmannaflokksins.

Þegar flokki Hitlers fór að vaxa fiskur um hrygg gerðist Mayr hatrammur andstæðingur hans, og upp úr 1930 sagði hann hverjum sem heyra vildi hvernig háttað væri uppruna Hitlers innan þjóðernishreyfingarinnar - og sagði grínsögur af Hitler sem hann vonaðist til að yrðu til að kjósendur segðu skilið við Nasista.

Það tókst ekki, og þegar Nasistar náðu völdum í upphafi árs 1933 flúði Mayr til Frakklands þar sem hann gerðist kennari. Hann hafði þá lengi reynt að vinna að aukinni samvinnu og vináttu milli Þýskalands og Frakklands. Slíkt var auðvitað fyrir bí þegar Hitler komst til valda.

Þegar Þjóðverjar náðu París sumarið 1940 reyndi Mayr að flýja en náðist á endanum og var fluttur í fangabúðirnar í Buchenwald. Þar var hann látinn þræla í hergagnaverksmiðjunni. Stundum kom fyrir að háttsettir hermenn eða SS-menn - jafnvel hershöfðingjar - komu að skoða aðstæður í verksmiðjunni, og suma þeirra rak í rogastans þegar sáu fangann Mayr.

Þá brást ekki að þeir heilsuðu að hermannasið. Þetta voru gamlir hermenn í liðssveitum Mayrs úr fyrri heimsstyrjöldinni.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Fréttir

VG ekki á móti því að tilteknir Sjálfstæðismenn gegni ráðherraembætti

Viðtal

Frá fíkli til flóttamanns

Fréttir

Óttast að trúfélagsapp safni persónuupplýsingum

Fréttir

Undanfarin ár sýnt að sjálfstæð peningastefna geti virkað á Íslandi

Mest lesið í vikunni

Pistill

Enn meiri spilling af völdum Sjálfstæðisflokksins

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Aðsent

VG – in memoriam

Fréttir

Selur bílinn sinn til að borga ríkinu fyrir eigin brottflutning

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“

Fréttir

Berjast fyrir betra LÍN