Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Flækjusagan

Síðasti frjálsi villihesturinn eltur uppi: Sorgarsaga úr Úkraínu

Illugi Jökulsson segir frá örlögum hrossategundarinnar tarpan.

Menn hafa reynt að „endurskapa“ hin útdauðu tarpan-hross með því að rækta upp þá eiginleika sem einkenna lýsingar og ljósmyndir af hinum raunverulegu tarpan-hestum. Ætla má að tarpan-hrossin hafi litið nokkurn veginn svona út en myndin er tekin á hrossabúgarði í Hollandi. Þetta eru þó auðvitað ekki sannir tarpan-hestar í neinum skilningi.

Það var einhvern tíma laust fyrir 1890 að vinnumenn á búgarði einum í suðurhluta Úkraínu - ekki allfjarri borginni Kherson - veittu því athygli að ókunnug hryssa var farin að halda sig í námunda við hrossastóð búgarðsins, sem gekk laust á sléttunni þar í kring.

Þetta vakti athygli vinnumannanna af því þeir sáu að hryssan var enginn venjulegur hestur. Hún var af sérstakri tegund villihesta, sem hafði búið á sléttunum þarna frá örófi alda, og kallaðist tarpan

Menn tóku að temja hesta fyrir um 6.000 árum. Það gerðist í Mið-Asíu þar sem ein hrossategund af mörgum, sem þá reikuðu um sléttur, reyndist meðfærileg.

Hinar ýmsu hrossategundir voru svo skyldar að þær áttu flestar ekki í miklum erfiðleikum með að maka sig saman en það var þó aðeins ein hrossategundin, sem menn tömdu - og af henni eru öll hross nú á dögum komin, jafnt tröllvaxnir enskir dráttarklárar sem rennilegir arabískir gæðingar sem hin smávöxnu Íslandshross.

Aðrar hrossategundir, til dæmis tarpan, gengu áfram lausar en smátt og smátt fóru búsvæði þeirra minnkandi og tegundirnar dóu út hver af annarri.

Og vinnumennirnir á búgarðinum við Kherson urðu undrandi á að sjá tarpan-hryssuna af því þeir vissu ekki betur en tarpan-hestarnir væru útdauðir. Þá skrimtu enn örfáir í dýragörðum, en úti í náttúrunni var tegundin talin gufuð að fullu upp.

En þessi hryssa var svo sannarlega sprelllifandi.

Hún var afar stygg en hafði þó ótvíræðan áhuga á hrossastóði búgarðsins og þar kom að hún stóðst ekki töfra þess volduga graðhests sem stjórnaði stóðinu.

Tvö foldöld eignaðist hún með honum næstu misserin.

Vinnumennirnir gættu þess að skipta sér ekki mikið af henni, og það dró smátt og smátt úr tortryggni hennar.

Eitt haustið var hún orðin svo grandalaus að hún fylgdi hrossastóðinu inn í girðingu við hesthús á búgarðinum.

Þá stukku vinnumennirnir til, komu á hana böndum og drógu hana inn í hesthúsið og náðu um síðir að binda hryssuna niður á bás.

Þeir voru ýmsu vanir en þeir sögðu svo frá að aldrei hefðu þeir vitað hest berjast um af þvílíka ofsa sem þessi hryssa þegar hún reyndi að koma í veg fyrir að vera bundin.

Hún var frjáls líkt og Stjörnufákur Jóhannesar úr Kötlum og vildi á sér engin bönd.

Hún gafst ekki upp fyrr en hún hafði verið svo illa leikin að hún hafði misst annað augað í slagsmálum við vinnumennina.

Um veturinn var hún í hesthúsinu. Graðhesturinn knái skaust á básinn þar sem hún var bundin og hún eignaðist um vorið þriðja folaldið.

Svo var um sumarið að hún var í girðingu við hesthúsið og sá þá skyndilega óvænt færi á að komast burt. Eins og elding geystist hún út úr girðingunni og lét sig hverfa á harða hlaupum.

Um sumarið og fram á haust sáu vinnumennirnir eineygða hryssuna öðru hvoru. Hún birtist stundum eins og dularfull vofa utan úr hálfrökkri eða dimmviðri, hneggjaði hátt einu sinni eða tvisvar eins og hún væri að kalla á folaldið sem hún hafði yfirgefið, en hvarf svo umsvifalaust á braut ef menn reyndu að nálgast hana.

Í vetrarbyrjun ákváðu vinnumenn búgarðsins að reyna að ná henni.

Það vakti ekkert sérstakt fyrir þeim, þeir vildu bara athuga hvort þeir gætu það.

Þeir bjuggu sig vandlega út á sínum allra bestu hrossum og aðra tvenna höfðu þeir til reiðar.

Svo hófst eftirförin.

Skemmst er frá því að segja að hryssan hljóp alla þeirra hesta af sér. Það var sama hvað þeir þöndu gæðinga sína, alltaf varð frelsisást hryssunnar þeim ögn fótfrárri.

Þeir ætluðu þó ekki að láta sig, það var orðið þeirra helsta metnaðarmál að ná þessi stærilátu hryssu.

Loks gerðist það að á hlaupunum gætti hryssan sín ekki á því að undir nýlegum snjóskafli leyndist geil sem hún hentist oní.

Kannski misreiknaði hún sig svo illa af því hana vantaði annað augað.

Alla vega fótbrotnaði hún svo illa að hún gat ekki staðið upp aftur.

Vinnumennirnir hrósuðu happi, en drösluðu svo hryssunni heim á búgarðinn.

Þar ætluðu þeir að smíða gervilöpp handa henni, svo hún gæti staðið í fæturna.

En hryssan - sem vissi að hún yrði aldrei framar frjáls - dó nokkrum dögum seinna.

Ekki vissu menn af hverju. Kannski bara af harmi, eða ófullnægðri frelsisþrá.

Þarna hvarf úr heiminum og sögunni síðasti frjálsi villihesturinn af tegund tarpana. Um tuttugu árum seinna dó líka sá síðasti sem bjó í dýragarði.

Veröldin var orðin heldur fátækari. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Gagnrýnir prófíl-mynd þingkonu sem kvartar undan áreitni

Fréttir

Isavia þarf að afhenda Aðalheiði yfirstrikaðar upplýsingar: „Svo mér endist ævin til að reka þetta mál“

Fréttir

Þrjú hundruð stjórnmálakonur skora á stjórnvöld: „Hótað nauðgun vegna skoðana minna“

Fréttir

Geir tapar fyrir Mannréttindadómstólnum: Engin mannréttindi brotin í Landsdómsmálinu og málsmeðferð í samræmi við lög

Fréttir

Óttast að trúfélagsapp safni persónuupplýsingum

Fréttir

Undanfarin ár sýnt að sjálfstæð peningastefna geti virkað á Íslandi

Mest lesið í vikunni

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Aðsent

VG – in memoriam

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Fréttir

Selur bílinn sinn til að borga ríkinu fyrir eigin brottflutning

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“

Fréttir

Gagnrýnir prófíl-mynd þingkonu sem kvartar undan áreitni