Pistill

Sandkornið er Sigmundur Davíð

Í lok síðasta árs lagði ríkisstjórn Íslands fram frumvarp um breytta skattlagningu. Jóhannes Benediktsson rýnir í umræður á Alþingi og segir: „Vangaveltur Frosta um hvort „Tortóla-lið“ leynist á meðal kröfuhafanna verða súrrealískar þegar kemur í ljós að „Tortóla-liðið“ sat í næsta stól.“

Í lok síðasta árs lagði ríkisstjórn Íslands fram frumvarp um breytta skattlagningu. Tilgangurinn var að liðka fyrir samningum við slitabú föllnu bankanna, en hliðarafurð frumvarpsins kemur sér óþægilega vel fyrir þá kröfuhafa sem voru með félög sín skráð á Tortóla-eyju. Enginn græðir jafnmikið og þeir á þessari nýju tilhögun.

Frumvarpið er nokkuð flókið og fjármálaráðuneytið gerir grein fyrir því á minnisblaði sínu. Við skulum hins vegar demba okkur út í umræðurnar á Alþingi til þess að fá tilfinningu fyrir málinu og þeim atriðum sem þykja vafasöm. Frumvarpið er ættað frá efnahags- og viðskiptanefnd þar sem Frosti Sigurjónsson er í forsvari.

Umræður 5. október 2015

Bjarni Benediktsson (ræða 1): „Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lögð til breyting vegna skattlagningar vaxta af skuldabréfum sem slitabúin gefa út í eigin nafni sem lið í fullnustu nauðasamnings við kröfuhafa sína. Nánar tiltekið er lagt til að allir vextir af slíkum skuldabréfum, þar með talið afföll, verði undanþegnir tekjuskatti í hendi raunverulegs eiganda skuldabréfs sem ekki ber ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi. “

Ásta Guðrún Helgadóttir (ræða 6): „Er búið að finna út hversu miklum tekjum ríkissjóður verður af?“

Bjarni Benediktsson (ræða 7): „... áhrif þess á ríkissjóð óveruleg. [...]Þetta mál hérna er í sjálfu sér eins og sandkorn í stóran haug af sandi þegar kemur að því að meta áhrifin af þessu öllu saman.“

Össur Skarphéðinsson (ræða 20): „Vegna tvísköttunarsamninga munu kröfuhafar sem hafa heimili sitt í Bandaríkjunum og Evrópu ekkert þurfa á þessu að halda. Þetta er fyrir Tortólaliðið. Þetta er fyrir þá sem eiga peninga í skattaskjólum. Eigum við að hjálpa því fólki? Mér finnst það ákaflega erfitt.“

„Þetta er fyrir Tortólaliðið. Þetta er fyrir þá sem eiga peninga í skattaskjólum. Eigum við að hjálpa því fólki? Mér finnst það ákaflega erfitt.“

Bjarni Benediktsson (ræða 21): „Ég tel að þegar menn skoða þetta í þessu samhengi [...] þá sé það, sem við erum að ræða um hér, þ.e. skattlagningin á þeirri útgáfu skuldabréfa, eins og nokkur sandkorn í stórri sandfjöru. Þetta er lítið mál.“

Kristján L. Möller (ræða 26): „Ef eitthvað af þessum kröfuhöfum eru í skattaskjólum, sem eru mörg í heiminum, t.d. á Tortóla, og þá er spurningu minni beint til fjármálaráðherra: Er þá verið að gefa afslátt líka til þeirra sem eru í skattaskjólum?“

Bjarni Benediktsson (ræða 27): „Ég hef ekki tekið afstöðu í þessu máli með tilliti til þess að einhverjir kunni að vera á einhverjum af þessum eyjum sem hv. þingmaður nefnir.“

Kristján L. Möller (ræða 28): „Þá höfum við það. Vilji einhverjir kröfuhafar skrá kröfubréf sín í skattaskjólum í heiminum þá mun lýðveldið Ísland gefa þeim afslátt af þeim skatti. Þetta finnst mér dálítið merkilegt og kannski enn þá merkilegra vegna þess að það verður þá ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem heldur betur ætlaði að taka á hrægammasjóðunum, sem framkvæmir þennan gjörning.“

Umræður 3. nóvember 2015

Össur Skarphéðinsson (ræða 6): „Það er bara einn hópur manna sem græðir á því [að fella niður afdráttarskattinn] og það eru þeir sem eru með fé sitt fólgið á einhverjum skattsniðgöngueyjum, skattaparadísum eins og Cayman-eyjum eða Tortóla. Hvers vegna á að vera að nota þetta ferðalag til að koma í gegn einhverju smyglgóssi handa Tortólaliðinu? Ég spyr hv. framsögumann [Sigríði Á. Anderssen]: Hvers vegna er nauðsynlegt að grípa til þeirra ráðstafana í frumvarpinu?“

„Varðandi seinni hluta spurningarinnar er mér ekki kunnugt um hvort eitthvert Tortóla-lið er meðal eigenda að kröfum í slitabúin.“ 

Sigríður Á. Andersen (ræða 7): „Varðandi afdráttarskattinn og þá undanþágu sem hér er lögð til er rétt að árétta að nú þegar er til staðar í lögum undanþága frá afdráttarskatti. [...] Sú undanþága kom til á sínum tíma vegna þess að þau skuldabréf sem gefin eru út af t.d. íslenskum orkufyrirtækjum, íslenskum bönkum og fjármálastofnunum eru tekin til viðskipta á markaðstorgum erlendis. Þessi markaðstorg taka ekki til viðskipta skuldabréfa sem bera vexti sem á hvílir skattur inn í framtíðina.“

Oddný G. Harðardóttir (ræða 51): „Telur hv. þingmaður [Frosti Sigurjónsson] að ákvæðið um afdráttarskattinn muni nýtast Tortóla-liði? Í öðru lagi: Er breytingin nægileg til þess að svo verði ekki?“

Frosti Sigurjónsson (ræða 52): „Breytingin sem nefndin gerði á ákvæði frumvarpsins sneri ekki að neinu Tortóla-liði. [...]Varðandi seinni hluta spurningarinnar er mér ekki kunnugt um hvort eitthvert Tortóla-lið er meðal eigenda að kröfum í slitabúin. Við spurðum ráðuneytið hvort ríkissjóður færi á mis við einhverjar tekjur með þessari undanþágu. Svörin voru á þá leið að ekki væri gert ráð fyrir því, það væri kannski ekki hægt að útiloka það gjörsamlega. [...]Þegar upp er staðið þá var ekki tilefni til þess að leggja stein í götu þessara slitabúa við að gefa út skuldabréfin vegna þess að það væri einhver möguleiki á því að 0,1% þessara kröfuhafa væri á Tortóla-eyju, heldur er reynt að liðka fyrir því að þeir geti fengið þessi bréf og þau geti gengið kaupum og sölum. Þannig geta þeir hugsanlega líka sýnt okkur meiri sveigjanleika í samningum við okkur, eða það sem kallað er lifandi samtal.“

Oddný G. Harðardóttir (ræða 53): „Ég skil það svo að ákvæði um afdráttarskattinn sé gert sérstaklega að kröfu kröfuhafanna og sniðið að þörfum þeirra. Ég skildi hann þannig. Hann staðfesti það.“

 

Öll þessi umræða horfir nú öðruvísi við. Sigmundur Davíð átti beina hagsmuni í málinu og þau hjón mögulega þeir einu sem græddu á því. Hann fékk fjölmörg tækifæri til þess að gera grein fyrir stöðu sinni en kaus að þegja.

Vangaveltur Frosta um hvort „Tortóla-lið“ leynist á meðal kröfuhafanna verða súrrealískar þegar kemur í ljós að „Tortóla-liðið“ sat í næsta stól. Og sama gildir um orð Bjarna Benediktssonar þegar hann líkir þeim sem hagnast á frumvarpinu við sandkorn á stórri sandfjöru. Þau fá allt annan blæ þegar kemur í ljós að sandkornið er Sigmundur Davíð.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Viðtal

Frá fíkli til flóttamanns

Fréttir

Isavia þarf að afhenda Aðalheiði yfirstrikaðar upplýsingar: „Svo mér endist ævin til að reka þetta mál“

Fréttir

Gagnrýnir prófíl-mynd þingkonu sem kvartar undan áreitni

Fréttir

Þrjú hundruð stjórnmálakonur skora á stjórnvöld: „Hótað nauðgun vegna skoðana minna“

Fréttir

Óttast að trúfélagsapp safni persónuupplýsingum

Mest lesið í vikunni

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Aðsent

VG – in memoriam

Fréttir

Selur bílinn sinn til að borga ríkinu fyrir eigin brottflutning

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Fréttir

Berjast fyrir betra LÍN