Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Pistill

Ráðherraábyrgð og nýja stjórnarskráin

Í tilefni af orðum Guðna Th. Jóhannessonar um Landsdóm vekur Illugi Jökulsson athygli á ákvæðum stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs um ráðherraábyrgð.

Guðni Th. Jóhannesson talar skýrt og skorinort um andstöðu sína um Landsdóm í viðtali við Tímarit Lögréttu. Það kemur ekki á óvart því hann hafði sagt þetta allt saman áður, og fínt að honum skuli ekki finnast hann þurfa að fara að tala einhverja loðmullu þótt hann sé orðinn forseti.

Það var strax augljóst eftir hrun, þegar kom til álita að láta reyna á ráðherraábyrgð, að ákvæðin um Landsdóm voru í reynd vandræðaleg og úrelt. Þessi ákvæði voru hins vegar óneitanlega fyrir hendi í sjálfri stjórnarskránni og það var spurning hvenær ætti að láta reyna á þessi ákvæði um ráðherraábyrgð ef ekki við algjört hrun eins og varð 2008. 

Vonandi gefst hins vegar tóm til að samþykkja nýja stjórnarskrá áður en næst reynir á ráðherraábyrgð með jafn afgerandi hætti og í hruninu!

Þá mun ekki þurfa að endurtaka vandræðagang eins og þann sem Landsdómsmálið var.

Eins og ég þreytist ekki á að taka fram - í stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs er að sjálfsögðu tekið á þessu máli, og ákvæðin þar miklu betri en í þeirri úreltu stjórnarskrá sem við störfum enn eftir.

Þar kemur einfaldlega fram í 95. grein að komi fram ásakanir um meint embættisbrot ráðherra skuli stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis kanna hvort hefja skuli rannsókn á málinu - og fari um nánari framgangsmáta eftir lögum. Komist nefndin að þeirri niðurstöðu að um hugsanleg embættisbrot hafi verið að ræða skipar nefndin saksóknara.

Og það er hann sem metur hvort gefa skuli út ákæru.

Málið fer svo sína leið fyrir almennum dómstólum.

Og viðkomandi ráðherra stendur þó auðvitað líka frammi fyrir ábyrgð sinni í næstu kosningum, bjóði hann sig fram að nýju.

Þarna eru ákvæðin í nýju stjórnarskránni stjórnlagaráðs mun fremri stjórnarskránni.

Eins og í öllum öðrum tilfellum!

Gjöra svo vel að taka nýju stjórnarskrá upp úr skúffu, ganga frá henni og samþykkja síðan!

Hér eru annars í heild ákvæði stjórnarskrár stjórnlagaráðs um ráðherra:

 

V. KAFLI

Ráðherrar og ríkisstjórn.

 

86. gr.

Ráðherrar.

Ráðherrar eru æðstu handhafar framkvæmdarvalds hver á sínu sviði. Þeir bera hver fyrir sig ábyrgð á málefnum ráðuneyta og stjórnsýslu sem undir þá heyrir.

Geti ráðherra ekki fjallað um mál vegna vanhæfis, fjarveru eða annarra ástæðna felur forsætisráðherra það öðrum ráðherra.

Enginn getur gegnt sama ráðherraembætti lengur en átta ár.

 

87. gr.

Ríkisstjórn.

Ráðherrar sitja í ríkisstjórn. Forsætisráðherra boðar til ríkisstjórnarfunda, stýrir þeim og hefur yfirumsjón með störfum ráðherra.

Ríkisstjórnarfundi skal halda um frumvörp og tillögur til Alþingis, önnur mikilvæg stjórnarmálefni og til samráðs um störf og stefnumál ríkisstjórnarinnar. Þá skal halda ríkisstjórnarfund ef ráðherra óskar þess.

Ríkisstjórn tekur ákvarðanir sameiginlega um mikilvæg eða stefnumarkandi málefni samkvæmt nánari ákvæðum í lögum. Meirihluti ráðherra þarf að vera á fundi þegar slíkar ákvarð­ anir eru teknar.

Stjórnarráð Íslands hefur aðsetur í Reykjavík.

 

88. gr.

Hagsmunaskráning og opinber störf.

Ráðherra er óheimilt að hafa með höndum önnur launuð störf á meðan hann gegnir embætti. Sama gildir um störf í þágu einkafyrirtækja og opinberra stofnana þótt ólaunuð séu.

Í lögum skal kveðið á um skyldu ráðherra til að veita upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni sína.

 

89. gr.

Ráðherrar og Alþingi.

Ráðherrar mæla fyrir frumvörpum og tillögum frá ríkisstjórn, svara fyrirspurnum og taka þátt í umræðum á Alþingi eftir því sem þeir eru til kvaddir, en gæta verða þeir þingskapa.

Ráðherrar hafa ekki atkvæðisrétt á Alþingi.

Sé alþingismaður skipaður ráðherra víkur hann úr þingsæti á meðan hann gegnir embættinu og tekur varamaður þá sæti hans.

 

90. gr.

Stjórnarmyndun.

Alþingi kýs forsætisráðherra. Eftir að hafa ráðfært sig við þingflokka og þingmenn gerir forseti Íslands tillögu til þingsins um forsætisráðherra. Er hann rétt kjörinn ef meirihluti þingmanna samþykkir tillöguna. Að öðrum kosti gerir forseti Íslands nýja tillögu með sama hætti. Verði sú tillaga ekki samþykkt fer fram kosning í þinginu milli þeirra sem fram eru boðnir af þingmönnum, þingflokkum eða forseta Íslands. Sá er flest atkvæði hlýtur er rétt kjörinn forsætisráðherra.

Hafi forsætisráðherra ekki verið kjörinn innan tíu vikna skal Alþingi rofið og boðað til nýrra kosninga.

Forsætisráðherra ákveður skipan ráðuneyta og tölu ráðherra og skiptir störfum með þeim, en ráðherrar skulu ekki vera fleiri en tíu.

Forseti Íslands skipar forsætisráðherra í embætti. Forseti veitir forsætisráðherra lausn frá embætti eftir alþingiskosningar, ef vantraust er samþykkt á hann á Alþingi, eða ef ráðherrann óskar þess. Forsætisráðherra skipar aðra ráðherra og veitir þeim lausn.

Ráðherrar undirrita eiðstaf að stjórnarskránni þegar þeir taka við embætti.

 

91. gr.

Vantraust.

Leggja má fram á Alþingi tillögu um vantraust á ráðherra. Í tillögu um vantraust á forsætisráðherra skal felast tillaga um eftirmann hans.

Ráðherra er veitt lausn úr embætti ef meirihluti þingmanna samþykkir tillögu um vantraust á hann. Ríkisstjórn er veitt lausn ef meirihluti þingmanna samþykkir tillögu um vantraust á forsætisráðherra.

 

 

92. gr.

Starfsstjórn.

Eftir að forsætisráðherra hefur verið veitt lausn ásamt ríkisstjórn sinni situr hún áfram sem starfsstjórn uns ný ríkisstjórn er skipuð. Sama gildir ef þing er rofið. Ráðherrar í starfsstjórn taka aðeins þær ákvarðanir sem nauðsynlegar eru til rækslu starfa þeirra.

 

93. gr.

Upplýsinga- og sannleiksskylda.

Ráðherra er skylt að veita Alþingi eða þingnefnd allar upplýsingar, skjöl og skýrslur um málefni sem undir hann heyra, nema leynt skuli fara samkvæmt lögum.

Þingmenn eiga rétt á upplýsingum frá ráðherra með því að bera fram fyrirspurn um mál eða óska eftir skýrslu, samkvæmt nánari fyrirmælum í lögum.

Upplýsingar sem ráðherra veitir Alþingi, nefndum þess og þingmönnum skulu vera réttar, viðeigandi og fullnægjandi.

 

94. gr.

Skýrsla ríkisstjórnar til Alþingis.

Árlega leggur ríkisstjórn fyrir Alþingi skýrslu um störf sín og framkvæmd ályktana þingsins.

Ráðherra getur gert grein fyrir málefni sem undir hann heyrir með skýrslu til Alþingis.

 

95. gr.

Ráðherraábyrgð.

Ráðherrar bera lagalega ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Bóki ráðherra andstöðu við ákvörðun ríkisstjórnar ber hann þó ekki ábyrgð á henni. Ábyrgð vegna embættisbrota þeirra skal ákveðin með lögum.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis ákveður, að undangenginni könnun, hvort hefja skuli rannsókn á meintum embættisbrotum ráðherra. Nefndin skipar saksóknara sem annast rannsóknina. Hann metur hvort niðurstaða rannsóknarinnar sé nægileg eða líkleg til sakfellingar og gefur þá út ákæru og sækir málið fyrir dómstólum. Nánar skal kveðið á um rannsókn og meðferð slíkra mála í lögum.

 

96. gr.

Skipun embættismanna.

Ráðherrar og önnur stjórnvöld veita þau embætti sem lög mæla.

Hæfni og málefnaleg sjónarmið skulu ráða við skipun í embætti. Þegar ráðherra skipar í embætti dómara og ríkissaksóknara skal skipun borin undir forseta Íslands til staðfestingar.

Synji forseti skipun staðfestingar þarf Alþingi að samþykkja skipunina með 2 /3 hlutum atkvæða til að hún taki gildi. Ráðherra skipar í önnur æðstu embætti, eins og þau eru skilgreind í lögum, að fenginni tillögu sjálfstæðrar nefndar.

Velji ráðherra ekki í slíkt embætti einn þeirra sem nefndin telur hæfasta er skipun háð samþykki Alþingis með 2 /3 hlutum atkvæða.

Forseti Íslands skipar formann nefndarinnar. Um nánari skipan hennar og störf skal mælt fyrir í lögum.

Í lögum má kveða á um að í tiltekin embætti megi einungis skipa íslenska ríkisborgara. Krefja má embættismann um eiðstaf að stjórnarskránni.

 

97. gr.

Sjálfstæðar ríkisstofnanir.

Í lögum má kveða á um að tilteknar stofnanir ríkisins, sem gegna mikilvægu eftirliti eða afla upplýsinga sem nauðsynlegar eru í lýðræðisþjóðfélagi, njóti sérstaks sjálfstæðis.

Starfsemi slíkra stofnana verður ekki lögð niður, henni breytt að verulegu leyti eða fengin öðrum stofnunum, nema með lögum sem samþykkt eru með 2 /3 hlutum atkvæða á Alþingi.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Fréttir

Gagnrýnir prófíl-mynd þingkonu sem kvartar undan áreitni

Fréttir

Isavia þarf að afhenda Aðalheiði yfirstrikaðar upplýsingar: „Svo mér endist ævin til að reka þetta mál“

Viðtal

Frá fíkli til flóttamanns

Fréttir

Þrjú hundruð stjórnmálakonur skora á stjórnvöld: „Hótað nauðgun vegna skoðana minna“

Fréttir

Óttast að trúfélagsapp safni persónuupplýsingum

Mest lesið í vikunni

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Aðsent

VG – in memoriam

Fréttir

Selur bílinn sinn til að borga ríkinu fyrir eigin brottflutning

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“

Fréttir

Súr Sigmundur kallar Bjarna farþega og segir að hann hljóti að hætta í stjórnmálum