Flækjusagan

Pétursborg: Reist á beinum þrælkunarfanga

Hryðjuverkaógnin er komin til St. Pétursborgar. Illugi Jökulsson segir frá upphafi borgarinnar.

Bronsriddarinn - Katrín mikla keisaraynja í Rússlandi hét reisa þessa frægu styttu af Pétri mikla í borginni sem við hann er kennd, hvað sem líður Pétri postula. Styttan var tilbúin 1782. Árið 1833 orti skáldmæringurinn Alexander Púsjkin kvæði sem hann kallaði „Bronsriddarann“ og síðan fékk styttan af Pétri það nafn.

Þá hafa íbúar St. Pétursborgar kynnst hryðjuverkaógninni en hryðjuverk hafa verið þar nærri óþekkt í langan tíma. Ekki vantar hins vegar að íbúar borgarinnar hafi þurft ýmislegt að þola frá borgin var sett á stofn.

St. Pétursborg stendur eins og flestir vita í óshólmum árinnar Névu sem fellur í Finnlandsflóa sem er hluti Eystrasalts. 

Pétur mikli Romanovríkti sem keisari 1682-1725. Við andlát hans var bygging Pétursborgar komin vel á veg.

Fyrst er vitað um byggð í óshólmunum í byrjun 17. aldar þegar Svíar, sem þá voru stórveldi við Eystrasalt, byggðu þar virki. Það var kallað Nýi skans, en „skans“ þýðir einfaldlega virki. Svíar höfðu þá hreiðrað um sig bæði í Finnlandi og í hinum núverandi Eystrasaltslöndum.

Á svæðinu kringum Nýja skans bjuggu annars um þær mundir náfrændur Finna sem Ingríar hétu. 

Um þær mundir var Rússland hins vegar mjög að eflast og vaxa út frá Moskvu. Rússar lögðu smátt og smátt undir sig ýmis svæði í vestri og norðri. Árið 1682 varð tíu ára gamall piltur tsar eða keisari í Rússlandi og hét hann Pétur. Þegar hann óx úr grasi varð hann stór og stæðilegur og uppfullur af orku.

Hann varð ráðinn í að gera Rússland að sannkölluðu Evrópuveldi en fram að því höfðu sjónir Rússar ekki síst beinst í austurátt.

Árið 1700 braust út stríð milli Rússa og bandamanna þeirra annars vegar og svo Svía hins vegar, en þeir nutu stuðnings hins forna stórveldis Pólverja og Litháa sem þá var að vísu komið að fótum fram.

Vetrarhöllin fræga.Pétur mikli lét hefja byggingu hennar og þar sátu keisarar Romanov-ættarinnar uns ættin hrökklaðist frá völdum 1917.

Í þessum Norðurlandaófriði, sem svo hefur verið kallaður, var tekist á um hvort Rússar eða Svíar skyldu verða ráðandi afl við Eystrasalt. Skemmst er frá því að segja að eftir heljarmikla baráttu unnu Rússar, og þeir tóku meðal annars Nýja skans af Svíum árið 1703.

Stór galli við þau plön Péturs Rússakeisara að opna land sitt til vesturs var að engin höfn var við Eystrasalt. Einu hafnir Rússlands voru annars vegar langt norður í Arkhangelsk og svo hins vegar við Svartahaf. 

Það lá því beint að byggja nýja höfn fyrir Rússland í óshólmum Névu og eftir að hafa skoðað aðstæður ákvað Pétur að gera gott betur. Þarna skyldi reisa annað og meira en eintóma höfn, því þarna væri kjörið svæði fyrir nýja höfuðborg Rússlands.

Og aðeins fáeinum vikum eftir að Rússar tóku Nýja skans lagði Pétur hornstein að Péturs-og-Pálsvirkinu sem allir gestir til borgarinnar þekkja.

Pétur lagði gífurlegan metnað í að byggja borgina upp sem fljótast. Til þess sparaði hann hvorki fjármuni né líf og heilsu þegna sinna. Tugþúsundir ánauðugra bænda frá öllum hornum Rússlands voru skikkaðir til að vinna við smíði borgarinnar, auk þess sem stríðsföngum var líka óspart pískað út við að búa til landfyllingar í blautum óshólmunum.

Fæstir byggingaverkamannanna lifðu af.

Þrælarnir sem reistu borgina þurftu beinlínis að þræla við vinnu sína, og meirihluti þeirra dó af harðræði, vinnuslysum, hungri, vosbúð og barsmíðum verkstjóra.

Oft hefur verið sagt að grunnar hinna miklu halla sem Pétur hóf smíði á og raunar borgarinnar allra hvíli á beinagrindum þeirra tugþúsunda sem dóu við þessi þrælaverk, enda var nákvæmlega ekkert hugsað um aðbúnað þeirra sem unnu við byggingu borgarinnar.

En borgin reis á ógnarhraða. Strax árið 1712 lét Pétur flytja stjórnarsetur sitt frá Moskvu til hinnar nýju borgarinnar sem opinberlega hafði fengið nafn Péturs postula en allir vissu þó að í raun hét borgin eftir Pétri keisara sjálfum.

Þá var enn unnið að fullu við borgarsmíðina og Norðurlandaófriðnum mikla var raunar ekki nærri lokið, en Pétur þóttist svo viss um að hann myndi sigra á endanum að hann óttaðist ekkert um borgina í óshólmunum.

Ný höfuðborg Rússlands var vissulega risin á beinum þrælanna. Sonarsonur Péturs mikla, Pétur II, lét flytja stjórnarsetrið aftur til Moskvu 1727-1732 en við lát hans varð Pétursborg aftur höfuðborg Rússaveldis og var svo þangað til fyrir 100 árum þegar Bolsévíkar rændu völdum í Rússlandi og færðu höfuðborgina til Moskvu.

Bolsévíkar sviptu Pétursborg ekki aðeins höfuðborgartigninni heldur líka sjálfu nafni sínu með því að nefna borgina Leníngrad.

Og svo hét borgin þegar raunir íbúa hennar urðu mestar, er þýskir hermenn sátu um borgina í 900 daga í síðari heimsstyrjöld en náðu henni þó aldrei.

Við hrun Sovétríkjanna fékk borgin svo aftur sitt gamla nafn.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Leiðari

Óvinir valdsins

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“

Pistill

Þorum við að vera við?

Fréttir

Fékk nóg af hagræðingartali ráðherra: „Við erum hér alla daga að reyna gera okkar besta“

Fréttir

Sagðist sjálfur hafa greitt skuldirnar sem faðir hans yfirtók

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Fréttir

Faðir Bjarna Benediktssonar greiddi upp skuldir hans vegna áhættuviðskipta

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Leiðari

Óvinir valdsins