Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Pistill

Ótrúlegt nokk: Norður-kóreski herinn er sá stærsti í heimi

Ef allt varalið er talið með er þriðjungur Norður-Kóreumanna í her þeim sem Kim Jong-un mun kveðja út til að fórna lífinu ef honum sýnist svo. Illugi Jökulsson skoðaði nokkrar tölur.

Marserað til heiðurs Kim Jong-un - Myndin er frá Reuters/CSNA.

Ófriðvænlegt er á Kóreuskaga og þarf ekki að orðlengja þar um. Undanfarna áratugi hafa Norður-Kóreumenn jafnan leikið þann leik að hóta nágrannaríkjum sínum Suður-Kóreu og Japan öllu illu með reglulegu millibili, sem og bakhjörlum þeirra Bandaríkjamönnum, en síðan hefur verið kyrrt á milli.

Á stundum þykir manni með ólíkindum að ríki skuli komast upp með jafn ósvífnar hótanir í garð nágrannaríkja eins og Norður-Kórea hefur gert, en Bandaríkin og nágrannar Norður-Kóreu virðast hafa tekið þann pól í hæðina að best sé að láta Norður-Kóreumenn eiga sig sem mest, rétt eins og landið sé óþægur smákrakki sem bölsótast lokaður inni í leikgrindinni sinni en er þó ekki að skemma fyrir öðrum á meðan.

Auðvitað ætti að vera búið að frelsa alþýðu Norður-Kóreu úr prísund hinna grimmu Kim-feðga fyrir löngu, en það er þó ekki alveg einfalt mál.

Í fyrsta lagi: Þótt Suður-Kóreumenn vilji í orði kveðnu sameiningu kóresku ríkjanna, þá er opinbert leyndarmál að ráðamönnum þar líst skelfilega á þann gífurlega kostnað sem myndi fylgja sameiningunni og þýddi auðvitað í raun og veru að Suður-Kórea þyrfti að kosta á fáeinum árum þá uppbyggingu í Norður-Kóreu sem í reynd ætti að taka áratugi.

Í öðru lagi líst engum á þá tilhugsun ef nýtt stríð brýst út á Kóreuskaga. Það vill nefnilega svo til að sé allt varalið tekið með í reikninginn, þá er her Norður-Kóreu sá stærsti í heimi - og þá er ekki miðað við höfðatölu! 

Norður-Kórea er 120 þúsund ferkílómetrar að stærð, sem sé rétt innan við 20 prósent stærri en Ísland með sína 103 þúsund ferkílómetra. Suður-Kórea er aftur á móti næstum nákvæmlega jafn stór Íslandi.

Ekki er hins vegar hægt að líkja saman íbúafjölda í Kóreuríkjunum og íbúafjölda á Íslandi. Í Suður-Kóreu býr 51 milljón manna en 24 milljónir í Norður-Kóreu. 

Þau ríki heims sem eru næst Norður-Kóreu að íbúafjölda eru Jemen, Angóla, Madagaskar og Ástralía. Það Evrópuríki sem næst er Norður-Kóreu er Rúmenía með sínar rúmu 19 milljónir.

Milljónirnar 24 gera Norður-Kóreu að 52. fjölmennasta ríki í heimi.

En þrátt fyrir það er fastaher Norður-Kóreu sá fjórði fjölmennasti í heimi!

Kínverski fastaherinn er sá fjölmennasti í heimi og telur 2,3 milljónir. Íbúafjöldinn í Kína er sem kunnugt er 1,3 milljarður.

Næstfjölmennastur er bandaríski fastaherinn, 1,5 milljónir. Íbúar í Bandaríkjunum eru 324 milljónir.

Þriðji fjölmennasti herinn er sá indverski með 1,3 milljónir dáta. Íbúar á Indlandi eru 1,1 milljarður.

Svo kemur sem sagt norður-kóreski fastaherinn með 1,2 milljónir hermanna. Það er allt að því brjálæðislega hátt hlutfall af 24 milljóna manna þjóð. Einn af hverjum 24 íbúum Norður-Kóreu er í fastahernum.

Næstir í röðinni yfir fjölmenna heri eru:

5. Rússar - 845 þúsund hermenn / 146 milljónir íbúa.

6. Pakistan - 643 þúsund hermenn / 196 milljónir íbúa.

7. Suður-Kórea - 630 þúsund hermenn / 51 milljón íbúa.

8. Íran - 523 þúsund hermenn / 80 milljónir íbúa.

9. Alsír - 520 þúsund hermenn /  41 milljón íbúa.

10. Tyrkland - 510 þúsund hermenn / 81 milljón íbúa.

Og af því ég veit að nú eru allir farnir að spekúlera í hve fjölmennur ísraelski herinn er, þá telur hann 176 þúsund hermenn í 31. sæti.

En ef varalið hvers konar („reserves“ og „paramilitary“) er talið með breytist staðan. Varalið þýðir að viðkomandi varaliðsmenn hafa fengið viðamikla herþjálfun. Sumir eru fyrrverandi liðsmenn fastahersins, aðrir hafa hlotið sérstaka þjálfun á takmörkuðum sviðum.

Allir eru að segja má á „bakvakt“ ef ríkið fer í stríð.

Í Norður-Kóreu er þetta varalið stöðugt við æfingar.

Og ef fastaher og varalið er reiknað saman, þá líta fjölmennustu herlið þjóða heims svona út:

1. Norður-Kórea - 7,6 milljónir. Það er að segja: Þriðjungur allrar þjóðarinnar (að meðtöldum börnum og gamalmennum) er í fastahernum eða varaliðinu. - Þriðjungur!

2. Suður-Kórea - 6,6 milljónir.

3. Víetnam - 5,2 milljónir.

4. Indland - 4,7 milljónir.

5. Kína - 3,5 milljónir.

6. Rússland - 3,3 milljónir.

7. Bandaríkin - 2,3 milljónir.

8. Brasilía - 2 milljónir.

9. Taívan - 1,9 milljónir.

10. Pakistan - 1,5 milljónir.

 Mannfjöldi segir auðvitað ekki alla söguna, fjarri því.

Til dæmis er enginn vafi á því að bandaríski herinn er sá lang, lang öflugasti í heimi þótt hann sé alls ekki sá fjölmennasti - hvorki með né án varaliðs.

Og ljóst er að hvað sem líður kjarnorkuvopna- og eldflaugabrölti Norður-Kóreumanna nú, þá er stór hluti af hernaðartólum þeirra ansi gamaldags og kannski ekki í góðu standi.

Hvað snertir nýtísku herflugvélar og skriðdreka er norður-kóreski herinn til dæmis ekki mjög framarlega á merinni. 

En samt er enginn vafi á að allur manngrúi sem Kim Jong-un myndi kveðja út til að fórna fyrir sig lífinu ef í það færi, allur sá grúi er ekki árennilegur.

Ekki síst í ljósi þess að Seoul höfuðborg Suður-Kóreu er í aðeins 35 kílómetra fjarlægð frá landamærum Noður-Kóreu. Stórskotalið Norður-Kóreu nær til borgarinnar þar sem búa um 10 milljónir manna - og gæti verið erfitt fyrir Suður-Kóreu og Bandaríkin að stöðva allsherjar sókn Norður-Kóreumanna til borgarinnar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Leiðari

Óvinir valdsins

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“

Pistill

Þorum við að vera við?

Fréttir

Fékk nóg af hagræðingartali ráðherra: „Við erum hér alla daga að reyna gera okkar besta“

Fréttir

Sagðist sjálfur hafa greitt skuldirnar sem faðir hans yfirtók

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Fréttir

Faðir Bjarna Benediktssonar greiddi upp skuldir hans vegna áhættuviðskipta

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Leiðari

Óvinir valdsins