Flækjusagan

Óþekktur, loðinn þjóðflokkur - eða simpansar?

Illugi Jökulsson skrifar um ferðir Hannós út á Atlantshaf og suður með Afríkuströndum.

Simpansar - Hannó og menn hans kunna að hafa hitt fyrir slíkan hóp um 700-600 f.Kr.

Í fornöld upphófust siglingar í Miðjarðarhafi og þjóðir eins og Fönikíumenn og síðar Grikkir sigldu um allt á galeiðum sínum og kaupskipum.

Eða réttara sagt: Þeir sigldu alls ekki um allt. Í margar aldir eftir að þjóðirnar voru farnar að halda úti miklum kaupskipaflotum og bæði Grikkir, Rómverjar, Persar og fleiri voru komnir með ansi fullkomin herskip, þá voguðu menn sér þó ekki út fyrir „súlur Herkúlesar“ sem kallaðar voru, en þar var átt við Gíbraltar-sund.

Jafnvel hinir djörfustu siglingamenn Grikkja lögðu ekki út á Atlantshafið fyrr en á fjórðu öld fyrir Krist, þegar sægarpurinn Pýþeas frá grísku nýlenduborginni Massilíu (nú Marseille í Frakklandi) stefndi skipi sínu út fyrir Súlurnar ógnvænlegu og sigldi svo norður allt til Bretlands og kannski til Íslands.

En það er önnur saga en sú sem ég ætla að rekja hér.

Það kann hins vegar að vera að tveimur eða jafnvel þremur öldum áður en Pýþeas sigldi út á Atlantshafið, þá hafi Karþagó-menn siglt sömu leið.

Eins og menn muna var Karþagó upphaflega nýlenduborg Fönikíumanna (sem bjuggu í Líbanaon) sem brátt óx Fönikíumönnum yfir höfuð og varð stórveldi við vestanvert Miðjarðarhaf.

Karþagó var í næsta nágrenni við Túnisborg, sem nú er.

Til eru heimildir um mikla siglingu sem Hannó nokkur á að hafa stýrt frá Karþagó og út á Atlantshafið. Því miður fer ýmislegt á milli mála um þessa ferð, þar eð frumheimildir um hana eru ekki til, en í stuttu máli er sagan svona:

Hannó stýrði 65 skipa flota og voru um borð allt að 30.000 karlar, konur og börn. Komið var upp nokkrum bækistöðvum á Afríkuströndinni þar sem nú eru Marokkó og Máritanía og virðist engin byggð hafa verið þar um slóðir þegar Hannó og menn hans voru á ferð.

Síðan kom flotinn að ósum mikillar ár og þar urðu Karþagó-menn loks varir við fólk. Herskárir íbúar við fljótið veittust að sæförunum með grjótkasti svo Hannó sá þann kost vænstan að halda áfram ferðinni.

Lýsingarnar gætu átt við Senegal-fljót.

Eftir að siglt meðfram miklu fjalli (sem gæti verið Fouta-Djalon í Gíneu-Bissá) áðu ferðalangarnir í ósum annarrar ár, sem líklega hefur þá verið Níger. En þá kviknuðu eldar á ströndinni og ógnvænlegur trumbusláttur upphófst, svo Karþagó-menn héldu enn áfram ferðinni.

Tvívegis er því lýst þegar eldur fossaði úr fjöllum út í sjó og er þar bersýnilega verið að lýsa eldgosum. Annað fjallið gæti verið Kamerún-fjall. 

Síðan var siglt áfram um stund og þegar Karþagó-menn fóru í land við ósa enn einnar árinnar (sem gæti verið Gabon), þá gaf á að líta:

„Innst í óshólmum var eyja ... og þar var vatn með annarri eyju þar sem bjó fólk heldur betur villimannlegt. Konurnar voru fleiri en karlarnir og voru loðnar á hörund, túlkar okkar kölluðu þær „górillur“. Við reyndum að elta þetta fólk uppi en náðum engum karlmönnum, því þeir klifruðu léttilega upp í tré eða fram á háa gilbarma og hentu þaðan grjóti í okkur. Við handsömuðum hins vegar þrjár kvennanna, en þær börðust um af þvílíkum ofsa og rifu og bitu þá sem reyndu að halda þeim niðri, að við drápum þær á endanum. Við fláðum þær og tókum skinnin af þeim með heim til Karþagó, því nú voru vistir okkar á þrotum, og við komumst ekki lengra.“

Þrátt fyrir texti þessarar frásagnar sé um sumt vafasamur, þá telja flestir fræðimenn að í rauninni sé ekkert því til fyrirstöðu að þarna sé lýst raunverulegri rannsóknarferð Karþagó-manna suður með Afríkuströndum, en síðan liðu næstum 2.000 ár þangað til skip frá Evrópu og/eða Norður-Afríku birtust næst á þessum slóðum.

Vafalítið er skipafjöldi Hannós stórlega ýktur, en margt annað gæti verið satt. Í einni rómverskri heimild hermir til dæmis að mörgum öldum síðar hafi vissulega hangið uppi í kaþagósku hofi loðin skinn þriggja „villikvenna“ sem Hannó og menn hans hefðu drepið.

Vart þarf að taka fram að ef frásögnin af „villimönnunum“ lipru er rétt, þá hefur verið um að ræða mannapa, en varla einhverja hingað til óþekkta loðna menn. Og lýsingin á reyndar við um simpansa, en ekki górillur - hvað sem líður jafngiftinni sem túlkar Hannós kalla „villimennina“. 

Þegar tveir bandarískir vísindamenn lýstu górilluöpum fyrstir vestrænna manna á 19. öld þá nefndu þeir tegundina nefnilega eftir frásögn Hannós, sem þeir voru kunnugir en héldu að Hannó hefði verið að lýsa þeirri tegund sem þeir „uppgötvuðu“ í regnskógum Mið-Afríku.

Þannig að górillur fengu tegundarheiti sitt af misskilningi.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“

Fréttir

VG ekki á móti því að tilteknir Sjálfstæðismenn gegni ráðherraembætti

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Viðtal

Frá fíkli til flóttamanns

Mest lesið í vikunni

Pistill

Enn meiri spilling af völdum Sjálfstæðisflokksins

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Aðsent

VG – in memoriam

Fréttir

Selur bílinn sinn til að borga ríkinu fyrir eigin brottflutning

Fréttir

Víðir bóndi í stríði gegn laxeldinu: „Hrafninn eyðilagði hér 80 rúllur“

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“