Pistill

Óþægilegar myndir

Tyrkneska listakonan og blaðamaðurinn Zehra Dogan var dæmd í fangelsi, sem einn af andstæðingum forsetans. Ástæðan var sú að hún málaði mynd með tyrkneskum fánum á eyðilögðum byggingum og deildi ljósmynd af verkinu á samfélagsmiðlum.

Mynd segir oft meira en þúsund orð. Svo mikið er víst að þær fréttamyndir sem við höfum séð af átökunum í Sýrlandi, sér í lagi þær sem eru af börnum, hafa vakið meiri tilfinningar, meiri viðbrögð og aðgerðir, heldur en þúsund greinar. Tölur eru jú bara tölur, en barn sem liggur drukknað á grískri strönd eða blóðugur piltur sem situr niðurbrotinn og ráðvilltur um borð í sjúkrabíl, það er fólk.

Zehra Dogan
Zehra Dogan Zehra var sett í varðhald stuttu eftir valdaránstilraun tyrkneska hersins, sem einn af ótal andstæðingum Erdoğan Tyrklandsforseta.
 

Það er því ekki skrítið að fólk sem vill stýra öðru fólki, eins og einræðisherrar, hafi miklar áhyggjur af myndum. Oft meiri áhyggjur heldur en af orðum. Sem dæmi má nefna tyrknesku blaða- og myndlistarkonuna Zehru Dogan. Zehra var sett í varðhald stuttu eftir valdaránstilraun tyrkneska hersins, sem einn af ótal andstæðingum Erdoğan Tyrklandsforseta. Erdoğan hefur aldrei verið þekktur fyrir hófsemi en þúsundir embættismanna og háskólaprófessora hafa misst vinnu sína vegna meintrar andstöðu við hann. Fjöldi Tyrkja hafa flúið stjórn hans og aðrir dæmdir í fangelsi á hæpnum forsendum. Sér í lagi blaðamenn.

„Bætti hún við tyrkneskum fánum á húsarústirnar til að tákna hverjir báru ábyrgð á eyðileggingunni.“

Það var því ekkert sérstakt við að Zehra Dogan hjá kúrdneska fjölmiðlinum Jinha væri dæmd í tveggja ára og tíu mánaða fangelsi. Hún, eins og annað fjölmiðlafólk sem vinnur hjá Jin Haber Ajansi (kvennafréttastofunni), gat átt slíkt á hættu. En það vakti þó athygli að það var ekki umfjöllun hennar um stríðsátökin í Mardin-fylki sem hún var dæmd fyrir, heldur málverk sem hún deildi á félagsmiðlinum Twitter.

Zehra fór á vegum Jinha til Mardin á mörkum Tyrklands og Sýrlands til að lýsa stríðinu hinum megin við landamærin. Mardin er blandað, en þar býr fólk af assýrískum uppruna, Kúrdar og Tyrkir. Meðan hún var stödd þar sá hún aðgerðir tyrkneskra hersveita gegn kúrdískum sjálfstæðissinnum og málaði málverk af eyðileggingu Nusayabin-héraðsins. Á málverkið, sem er í raunsæjum stíl, bætti hún við tyrkneskum fánum á húsarústirnar til að tákna hverjir báru ábyrgð á eyðileggingunni. Síðan tók hún ljósmynd og deildi henni á samfélagsmiðlum, líkt og hún hafði deilt myndum af fjölmörgum öðrum málverkum eftir sig.

Samkvæmt tyrkneskum dómstólum var það ekki málverkið sjálft heldur deilingin sem var ólögleg. Það má því vænta að þeir sem retweetuðu hafi framið sama brot og málarinn upprunalega. Í dómnum er einnig ályktað að málverkið sýni sterk tengsl við PKK, kúrdíska kommúnistaflokkinn, sem berst fyrir sjálfstæði Kúrda. Sjálf sagði Zehra við dagblaðið Cumhuriyet: „Ég var dæmd í tveggja ára og tíu mánaða fangelsi af því ég málaði tyrkneska fána á eyðilagðar byggingar. Þó voru það þeir sem ollu eyðileggingunni. Ég bara málaði hana.“

Það hefur ekki gerst oft en stundum hafa málverk breytt sýn okkar á stríðsátök. Eitt frægt dæmi er Guernica, málverk Picassos upp úr sprengjuárás fasista á þorp með sama nafni. Fyrir málverkið, sem er um þrír og hálfur metri á hæð og átta metrar á breidd, greiddu lýðveldissinnar 200 þúsund franka, en málverkið fór þó ekki til Spánar heldur var sýnt úti um allan heim og geymt í MOMA, nýlistasafni New York-borgar.

GuernicaStundum hafa málverk breytt sýn okkar á stríðsátök. Eitt frægt dæmi er Guernica, málverk Picasso upp úr sprengjuárás fasista á þorp með sama nafni.

Guernica gerði margt til að halda minningunni um hörmungar spænsku borgarastyrjaldarinnar á lofti. Sjálf sprengjuárásin vakti hneykslan um allan heim, en hún var framin á markaðsdegi til að ná sem flestum almennum borgurum og samkvæmt baskneskum yfirvöldum voru um 1.600 fórnarlömb. Hver talan nákvæmlega var er enn umdeilt en í það minnsta mörg hundruð manns létu lífið og yfir þúsund særðust í þessari tilraunaloftárás þýska hersins, sem var eins og fyrirboði fyrir það sem koma skyldi í seinni heimsstyrjöldinni.

Frægð málverksins varð á endanum svo mikil að löngu eftir stríðið reyndu spænsk stjórnvöld, jafnvel á tímum einræðisherrans Franco, að fá verkið til landsins. Að ósk málarans var það þó ekki flutt til Spánar fyrr en lýðræði var aftur komið á og er núna til í Prado-safninu í Madrid. Milljarðamæringurinn Nelson Rockefeller reyndi einnig án árangurs að kaupa verkið, en greiddi fyrir endurgerð þess í formi veggteppis sem hangir nú uppi í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna.

„Breitt var yfir veggteppið þegar Colin Powell hélt blaðamannafund árið 2003 vegna fyrirhugaðs Íraksstríðs.“

Það er kannski tímanna tákn að breitt var yfir veggteppið þegar Colin Powell hélt blaðamannafund árið 2003 vegna fyrirhugaðs Íraksstríðs. Blárri drapperingu var breitt yfir veggteppið sem fengið hafði að hanga óáreitt meðan Víetnamstríðið, kalda stríðið og Afganistan-stríðin bæði tvö höfðu gengið yfir, en það þótti nú allt í einu of truflandi. Þó var auðvitað viðeigandi að hafa öskrandi og afskræmt fólk í bakgrunni við mann sem talaði fyrir sprengjuárásum á fjarlæg ríki. Árið 2009 var Guernica-veggteppið loks sent í langt ferðalag og haft til sýnis annars staðar, fjarri sjónvarpskamerum, og var í burtu mest alla stjórnartíð Obama. Á meðan hélt friðarverðlaunahafinn áfram drónasprengjuárásum í Mið-Austurlöndum að hætti forvera síns, og nú á tímum Trumps halda þær enn áfram, hvort sem það er markaðsdagur eða ekki.

Hvort Guernica verður í bakgrunni næstu blaðamannafunda í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna veltur á samvisku og hugrekki yfirvalda. Mögulega verða fulltrúar Trump þar það hispurslausir og menningarlega ólæsir að þeir munu ekki velta boðskap veggmyndarinnar fyrir sér. Svo mikið er víst að myndin mun halda áfram að minna okkur á hörmungarnar sem riðu yfir íbúa Guernica 1937, líkt og málverk Zehru Dogan mun áfram lifa, endurvarpað á félagsmiðlum og vonandi til sýnis á einhverjum áberandi stað.

Góð list lifir nefnilega lélega valdhafa og siðlausa morðingja eins og Erdoğan og Bush af. Þegar þeir eru horfnir munu listaverk samtímamanna þeirra standa eftir, sem minnisvarði um fórnarlömb þeirra og áminning um ömurleika stríðanna sem þeir stofnuðu til.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Fréttir

Þrýsti á fjölmiðlaeiganda vegna umfjöllunar um Vafningsmálið en segist aldrei hafa reynt að stöðva fréttaflutning

Pistill

Áfengi er frábært!

Leiðari

Óvinir valdsins

Fréttir

Sýslumaður kvartar undan „ótæpilegri“ umræðu um starfsmenn embættisins

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Fréttir

Faðir Bjarna Benediktssonar greiddi upp skuldir hans vegna áhættuviðskipta

Afhjúpun

Bjarni losnaði við 50 milljóna kúlulánaskuld í aðdraganda hrunsins

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Blogg

„Getur ekki einhver þaggað niðri í Stundinni?“