Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Pistill

Öld fáfræðinnar

Stjórnmálamenn ná vinsældum með því að beina spjótum sínum gegn sérfræðingum og selja einföld slagorð. Snæbjörn Brynjarsson skrifar um stríðið gegn þekkingunni.

Boris Johnson Barðist fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og hafði sigur. Mynd: Shutterstock

„Fólkið hefur fengið nóg af sérfræðingum,“ sagði Michael Gove, dómsmálaráðherra Bretlands, í sjónvarpskappræðum um útgöngu Bretlands úr ESB. Ráðherrann reyndist hafa rétt fyrir sér því fólkið kaus með honum og Boris Johnson með útgöngu úr ESB þvert á ráðleggingar helstu hagfræðinga, og fræðasamfélagsins almennt. Þjóðernissinnaða hægrið er búið að finna rödd sína aftur eftir margra áratuga útlegð og hún hrópar núna hátt: „Þú getur ekki sagt mér hvað ég má og má ekki gera, ég má gera það víst ef mér sýnist.“  

Forræðishyggja er það oft uppnefnt á íslensku þegar gefið er í skyn að sumir viti betur en aðrir. Og vissulega er til óþarfa forræðishyggja á Íslandi sem felst í því að Kvaranir, Thorlaciusar og Möllerar þessa heims telja sig umkomna um að banna öðrum Íslendingum að taka upp ættarnöfn eða nefna börn eftir erlendum ömmum eða öfum. En það er ekki þar með sagt að allar hugdettur séu jafnréttháar. Að brugga bjór úr útrunnu hvalamjöli sem ekki var talið hæft til manneldis til að byrja með, er slæm hugmynd í alla staði og engin ástæða til að veita fólki undanþágu til þess. Það er líka full ástæða til að taka gróðurhúsaáhrifin og umhverfismál alvarlega, notast við sparperur og flokka rusl. Elizabeth Hurley leikkona fagnaði Brexit um daginn því það þýddi að nú loksins gæti hún notað orkufrekar ljósaperur, en það var gegnumgangandi rauður þráður í baráttunni fyrir útgöngu að fjarlæg og sérfræðimenntuð elíta ætti ekki að segja fólki hvað það mætti gera. Vandamálið er þó að ef enginn flokkar rusl, ef engar reglugerðir vernda náttúruna eða hvetja til orkusparnaðar þá fer illa fyrir vistkerfinu. Þess vegna lagðist háskólasamfélagið gegn útgöngu og David Attenborough lýsti yfir áhyggjum af aðskilnaðinum ef það þýddi afturhvarf frá ströngustu ákvæðum ESB í umhverfismálum. Líkt og á Íslandi má þakka ESB fyrir að strendur Englands eru hreinni en áður. 

Brexit-umræðan fékk mig til að hugsa til vísindaskáldsagnahöfundarins Isaac Asimov og því sem hann sagði eitt sinn um sitt eigið land:
„Fáfræðin er dýrkuð í Bandaríkjunum og hefur ávallt verið. Þessi þráður and-intellektúalisma hefur þrætt sig gegnum pólitík og menningarlíf okkar, nærður á þeirri fölsku trú að lýðræði þýði að mín fáfræði sé jafngóð og rétthá þinni þekkingu.“ Ég veit ekki hvað Asimov hefði fundist um ESB eða Brexit en það er ágætis hugsanatilraun að velta fyrir sér hvað honum hefði fundist um ris Donald Trump. Eða hvað honum þætti um athugasemdir Davíðs Oddssonar um að menn ættu nú ekki að mála skrattann á vegginn í loftslagsmálum, þegar þáverandi forsætisráðherra, líkt og Trump, gerði lítið úr rannsóknarniðurstöðum loftslagsvísindamanna. Asimov mun hafa látið þessi orð út úr sér á miðju Eisenhower-tímabilinu þegar vísindahyggjan réð lögum og lofum, og orð sérfræðinga voru ekki pólitískt bitbein heldur bara staðreyndir. (Eða svona ímynda ég mér þessa glæstu gullöld þegar menn trúðu að tæknin gæti leyst allt).
Aðgengi að upplýsingum í dag er mun betra en þá. Nærri allir virðast ganga um með tæki í vasanum sem eru flóknari en risatölvurnar sem stýrðu fyrstu geimflaugunum til tunglsins árið 1969. Þessi smáu tæki eru aðallega notuð til að deila kattamyndum, dónamyndum og senda stutt textaskilaboð, en gera manni kleift að fletta upp allri heimssögunni, skoða alla helstu fjölmiðla heims, þýða framandi tungumál og skýra flóknustu náttúrufyrirbrigði. Tuttugasta og fyrsta öldin ætti að vera öld uppljómunar og upplýsinga, en þrátt fyrir möguleikann á því að fletta upp öllu á svipstundu virðist fáfræðin blómstra. Kannski er ekki nóg að hafa aðgengi að öllum upplýsingum heimsins ef maður hefur líka möguleikann á að lesa einungis það sem mann langar til að trúa. Netið myndar stundum verndarhjúp, á Facebook eru allir vinir manns sammála manni og deila fréttum af síðum sem eru líka sammála þeim. Google passar svo upp á að engin leit skili einhverju sem fer fyrir brjóstið á manni. 
Á Íslandi hefur lengi ríkt vantraust á menntun og sérfræðiþekkingu, það er landið sem bjó til máltækið: „Ekki verður bókvit í askana látið.“ 
Rödd fræðasamfélagsins hérlendis er oft mjóróma og hrædd, með stöðuga ógn niðurskurðar vofandi yfir sér ef það dirfist að ganga gegn og gagnrýna hagsmunahópa. Eins og sást vel þegar deilt var um Kárahnjúka, eða núna um daginn þegar utanríkisráðuneytið og Hafréttarstofnun reyndu að þrýsta á lektor við háskólann í Reykjavík að breyta fræðilegum niðurstöðum sínum. Þannig hagsmunahópar hafa hag af því að fáfræðinni sé gert hátt undir höfði, og að skoðanir fái að jafngilda staðreyndum. Kannski einmitt þess vegna hefur fáfræðin náð að lifa áfram á gervihnattaöld þegar aðgengi að upplýsingum hefur aldrei verið betra. Við megum nefnilega ekki gleyma því að sumir hafa hag af því að skilaboð manna á borð við Michael Gove, Davíðs Oddssonar og Donald Trumps fái að óma. Það er í boði kvótagreifa sem Davíð hefur skrifað hvern pistilinn á fætur öðrum um hvað reglugerðir séu vondar, og svipað er upp á teningnum í Bretlandi. Verksmiðjueigendur vilja gjarnan losna við ESB-reglugerðir sem vernda starfsfólk fyrir uppsögnum, yfirvinnu, auka öryggisstaðla og banna ótal eiturefni.
En áður en við dettum í svartagallsraus er ágætt að fagna niðurstöðum forsetakosninganna. Íslendingar bera þrátt fyrir allt talsverða virðingu fyrir menntun og þekkingu þegar kemur að þessu furðulega embætti, en frá 1968 hafa þrír af fjórum forsetum haft doktorsgráðu, einn í stjórnmálafræði og tveir í sagnfræði, en undantekningin, Vigdís Finnbogadóttir, lærði í einum virtasta háskóla heims. Íslendingar vilja kannski ekki eyða of miklum peningum í háskólann, vilja kannski ekki hlusta of mikið á sérfræðinga, en þeir vilja gjarnan leiðtoga með háskólagráður. Svo mikið að síðasti forsætisráðherra var jafnvel til í að ljúga til um nám sitt við Oxfordskóla. 

Hver veit nema við fáum dag einn forsætisráðherra sem lærði í alvörunni eitthvað. Og þá væri líka frábært ef viðkomandi aðili bæri virðingu fyrir öðrum sérfræðingum, og að sú stjórn héldi áfram að veita námslán til doktorsnema (ólíkt því sem þessi ætlar sér). Forsetar framtíðarinnar þurfa að fara í nám og við þurfum að hlusta á þá, af því fáfræði okkar jafngildir ekki þekkingu annarra, skoðanir trompa ekki staðreyndir, sama hversu fullvissir Trumpar þessa heims hljóma.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“

Pistill

Þorum við að vera við?

Fréttir

Sagðist sjálfur hafa greitt skuldirnar sem faðir hans yfirtók

Viðtal

Þöggunin tók á sig nýjar myndir eftir stjórnarslitin

Viðtal

„Ég treysti Íslendingum ekki lengur“

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Leiðari

Óvinir valdsins

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“