Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Flækjusagan

Mútur, ofbeldi, spilling og rammskakkt lýðræði

Illugi Jökulsson fjallar um þau tilvik þegar Bandaríkjaforsetar hafa verið kjörnir þótt þeir hafi ekki haft meirihluta atkvæða á bak við sig. Þau eru furðu mörg og enginn þar vestra virðist sjá neitt athugavert við það.

Donald Trump Forseti með minnihluta atkvæða. Mynd: Shutterstock

Ég verð að viðurkenna að mér þykir nokkuð einkennilegt hve lítið er látið með þá staðreynd að Hillary Clinton fékk fleiri atkvæði en Donald Trump í forsetakosningunum vestra. Ástæðan fyrir því að hann er nú að verða forseti en ekki hún er hið forneskjulega bandaríska kjörmannakerfi. Hvert hinna 50 ríkja Bandaríkjanna (og höfuðborgin Washington) er sérstakt kjördæmi. Ríkin kjósa í raun ekki forseta heldur sérstaka kjörmenn sem svo hittast á sérstakri samkundu er svo kemur saman og kjörmennirnir kjósa forsetann. Vegna misræmis atkvæða og ýmissa flókinna þátt getur það gerst í mjög jöfnum kosningum að frambjóðandi fái minnihluta atkvæða en meirihluta kjörmanna og verði þannig forseti – eins og nú er raunin um Trump.

Þetta skiptir auðvitað máli. Fyrst reglurnar eru svona og allir vestanhafs eru sammála um þær, þá verður þeim auðvitað ekki breytt að sinni og Trump er réttkjörinn forseti. Hins vegar þýðir þessi staðreynd að það er í raun ekki hægt að segja að meirihlutinn hafi valið hann.

Einkennilegt er sem sé hve Bandaríkjamenn hafa litlar áhyggjur af þessu rammskakka lýðræði sínu. Enginn virðist líta á þetta sem aðkallandi vandamál. Þó hafa fimm forsetar af 45 verið kjörnir með þessum hætti.

Hinn fyrsti „vinur litla mannsins“

Fyrst gerðist þetta árið 1824.

Þá var í raun aðeins einn eiginlegur stjórnmálaflokkur í Bandaríkjunum, Demókratíski Repúblikanaflokkurinn, eða Lýðræðissinnaði Lýðveldissinnaflokkurinn. Þrír forsetar í röð höfðu setið á hans vegum í átta ár hver: Jefferson, Madison og Monroe. Árið 1820 hafði Monroe verið einn í framboði á vegum flokksins og var því í reynd sjálfkjörinn en í kosningunum fjórum árum seinna komu fram fjórir frambjóðendur á vegum flokksins. Fjármálaráðherrann William Crawford frá Virginíu var valinn formlegt forsetaefni flokksins en hinir þrír fóru í framboð á eigin vegum. Það voru John Quincy Adams utanríkisráðherra frá Massachusetts, Henry Clay þingforseti frá Kentucky og Andrew Jackson, hershöfðingi og þingmaður, sem upphaflega var frá Karólínu-ríkjunum en seinna búsettur í Tennessee.

Jackson reyndist vinsælastur allra frambjóðendanna, enda naut hann herfrægðar sinnar. Hann hafði unnið frægan sigur á Bretum í orrustu við New Orleans 1815 og seinna knésett frumbyggja af ætt Semínóla í Flórída. Fleira aflaði hinum litríka Jacksons þó stuðnings. Hann hélt mjög stíft að fólki þeirri mynd að hann væri „maður fólksins“ og „litla mannsins“ og hefur verið kallaður fyrsti pópúlistinn í bandarískri sögu. Hann var þó raunar töluvert merkari stjórnmálamaður en svo að hann verði afgreiddur eingöngu þannig.

Andrew JacksonStofnandi og fyrsti forseti Demókrataflokksins.

En hann fékk 41,4 prósent atkvæða og næstur á eftir honum var John Quincy Adams með 30,9 prósent. Henry Clay fékk 13 prósent en William Crawford fékk 11,2. Þótt hann nyti stuðnings helstu leiðtoga flokksins var fylgi hans meðal almennings lítið, bæði af því hann hafði átt við erfið veikindi að stríða en einnig heimaríkisins Virginíu. Kjósendur voru einfaldlega komnir með nóg af Virginíumönnum.

Fyrir þessi prósent sína fékk Jackson 99 kjörmenn en Adams fékk 84, Clay 37 og Crawford 41. Enginn hafði sem sagt meirihluta. Þegar á kjörmannasamkunduna kom höfðu Adams og Clay hins vegar gengið í bandalag. Kjörmenn Clays kusu þá Adams sem þar með náði meira en helmingi kjörmanna og varð hann forseti.

Flokkarnir verða til

Að launum fyrir viðvikið varð Clay utanríkisráðherra í stjórn Adams. Jackson hamaðist gegn þessu bandalagi en þeir Adams og Clay vörðu það með því að svona væru reglurnar og eitthvað hefði þurft að gera til að rjúfa væntanlega þrátefli í kjörmannasamkundunni. Þeir hefðu einfaldlega ekki getað hugsað sér að hinn róstusami Jackson yrði forseti.

Jackson gramdist þetta svo að hann og stuðningsmenn hans börðust af mikilli heift gegn öllu því sem Adams forseti reyndi að aðhafast á kjörtímabili sínu og þegar leið að næstu kosningum hafði Jackson meira að segja klofið Demókratíska Repúblikanaflokkinn – og hélt hann nú úti armi sem kallaði sig Demókrata en armur Adams einfaldlega Repúblikanar.

Þannig urðu stóru flokkarnir í Bandaríkjunum til.

Það er hins vegar af kosningunum  1828 að segja að elja og eldmóður Jackson skiluðu sér prýðilega og hann vann öruggan sigur á Adams, bæði að heildar atkvæðamagni og kjörmannafjölda.

Faðir John Quincy Adams hafði verið annar forseti Bandaríkja og sat á stóli 1797–1801. Hann kallast einfaldlega John Adams og var fyrsti Bandaríkjaforsetinn sem var felldur úr embætti þegar hann tapaði í kosningunum 1800 fyrir Jefferson. Nú varð sonur hans annar í röð forseta til að falla í kosningum.

Nú leið og beið í hálfa öld og forsetar komu og fóru en höfðu allir meirihluta kjósenda að baki sér. Ríkjum Bandaríkjanna fjölgaði, íbúum fjölgaði líka en frumbyggjum fækkaði. Grimmilegt borgarastríð var háð 1861–1865 og snerist um afstöðu til þrælahalds sem Suðurríkjamenn vildu viðhalda en Norðanmenn banna. Afstaða einstakra ríkja til alríkisstjórnarinnar í höfuðborginni Washington kom þó einnig við sögu.

En nokkru eftir að stríðinu lauk dró til annarra tíðinda.

Mútur, ofbeldi, spilling

Forsetakosningarnar 1876 voru einhverjar þær spilltustu sem um getur í bandarískri sögu og er þá nokkuð sagt.

Ríkisstjóri Ohio, Rutherford Hayes, var frambjóðandi Repúblikana en Samuel Tilden, ríkisstjóra New York, var teflt fram af Demókrötum. Hayes þótti lítill bógur en Tilden hafði unnið sér góðan orðstír fyrir að berjast gegn landlægri spillingu, mútuþægni og alls konar fjárplógsstarfsemi stjórnmálamanna og verktaka í New York. Demókratar voru þá fulltrúar hinnar hvítu yfirstéttar í Suðurríkjunum eftir borgarastríðið sem lauk áratug fyrr, en Repúblikanar höfðu beitt sér fyrir frelsun þrælanna. Báðir flokkar brúkuðu mjög óprúttnar aðferðir, Repúblikanar mútuðu fólki nánast fyrir opnum tjöldum en Demókratar beittu hótunum og ofbeldi til að koma í veg fyrir að svertingjar kysu í Suðurríkjum.

Tilden sjálfur mun þó ekki hafa átt þátt að slíku.

Að lokum fékk Tilden 50,9 prósent atkvæða en Hayes 47,9 prósent. Atkvæðatalan dugði Tilden til að fá 184 kjörmenn en hann þurfti einn í viðbót til að tryggja sér meirihluta. Hayes hafði 165 kjörmenn. Vafi lék hins vegar á um 20 kjörmenn en eftir mikið jaml og japl og fuður og svívirðilegt baktjaldamakk ákvað sérstök kjörnefnd að Hayes skyldi hljóta þá alla og því vann hann kjörmannasamkunduna með 185 atkvæðum gegn 184. Demókratar féllust á niðurstöðuna gegn því að herflokkar yrðu kallaðir frá Suðurríkjunum en þar höfðu þeir verið allt frá lokum borgarastríðsins til að gæta þess að ekki yrði farið illa með hina nýfrjálsu svertingja.

Þar með stöðvaðist jafnréttisþróun hvítra og svartra í Suðurríkjunum í nærri 90 ár!

Banvænn „stuðningur“ Breta

Ekki liðu nema 12 ár þar til það gerðist næst að forseti væri kjörinn með minnihluta atkvæða.

Árið 1884 var fyrsti Demókratinn í aldarfjórðung kosinn forseti, Grover Cleveland. Hann þótti heiðarlegur og nokkuð dugmikill en þegar hann bauð sig fram til endurkjörs 1888 fór illa. Frambjóðandi Repúblikana var Benjamin Harrison, öldungadeildarþingmaður og sonarsonur William Harrison, sem var forseti í 32 daga árið 1841. Harrison boðaði mikla verndartolla fyrir bandarískan iðnað og fékk heilmikið af atkvæðum út á það, rétt eins og Trump núna, og auk þess olli það Cleveland erfiðleikum þegar birt var bréf rétt fyrir kosningarnar þar sem breski sendiherrann lýsti yfir stuðningi sínum við forsetann.

Bréfið hafði stuðningsmaður Repúblikana ginnt sendiherrann til að skrifa, með því að þykjast leita ráða hjá honum.

Þótt gott væri þá milli Bandaríkjamanna og Breta þótti stuðningur Breta samt ljóður á ráði hvers stjórnmálamanns og þetta varð Cleveland til álitshnekkis. Hann náði samt að vinna meirihluta atkvæða, eða 48,5 prósent, en vegna kjördæmaskiptingarinnar fékk hann aðeins 168 kjörmenn en Harrison fékk 233 kjörmenn út á 47,8 prósent atkvæða.

„Passaðu húsið, við komum aftur“

Aðalástæðan fyrir þessu var að Harrison vann Cleveland með eins prósents mun í heimaríki forsetans, New York. Þaðan komu 36 kjörmenn og réðu þeir úrslitum. Ástæðan fyrir tapi Clevelands í ríkinu var fyrst og fremst mikil viðkvæmni NY-búa vegna stuðningsyfirlýsingar breska sendiherrans, sem þeir tóku nær sér en aðrir.

Sagt er að þegar ósigur Clevelands var ljós hafi Frances, eiginkona hans, beðið starfslið Hvíta hússins að passa vel upp á húsið því þau hjón kæmu aftur eftir fjögur ár. Og sú varð raunin. Fallnir forsetar höfðu afar sjaldan sóst eftir að snúa aftur í Hvíta húsið en Cleveland rauf þá hefð og fór aftur í framboð fyrir Demókrata. Harrison hafði valdið vonbrigðum í Hvíta húsinu. Eftir á hefur þótt bæta orðstír hans að hafa beitt sér fyrir mjög rýmkuðum kosningarétti svartra fyrrverandi þræla, en það kom honum að litlu haldi í forsetakosningunum 1892. Tollahækkanir hans höfðu reynst hálfgerður blekkingarleikur sem komu bandarískri alþýðu að litlu gagni.

Cleveland vann því með 46 prósentum atkvæða en Harrison fékk 43 prósent. Frambjóðandi Alþýðuflokksins (People’s Party) fékk 8,5 prósent.

Cleveland varð því forseti á ný eftir fjögurra ára hlé og er eini forsetinn sem hefur náð því.

Eftir 1892 gerðist það ekki í 108 ár að forsetaframbjóðandi næði kjöri þótt hann hefði ekki meirihluta kjósenda að baki sér.

Al GoreForsetaframbjóðandinn sem tapaði með 537 atkvæða mun í Flórída, þrátt fyrir að hafa 550 þúsund fleiri atkvæði á landsvísu.

Hneyksli í Hæstarétti

Þá áttust við Demókratinn Al Gore, varaforseti Clintons, og George W. Bush, sonur Bush eldri, sem var forseti 1989–1993. Kosningin var gríðarlega jöfn en þegar upp var staðið hafði Gore unnið 20 ríki og 266 kjörmenn en Bush hafði unnið 29 ríki og samtals 246 kjörmenn. Þá stóð eftir Flórída en þar munaði nánast engu og alls konar rugl í gangi við talninguna, talningavélar bilaðar, atkvæðakassar týndir og svo framvegis. Að lokum var Bush úrskurðaður sigurvegari. Munurinn var 537 atkvæði af alls 5.825.043 atkvæðum í Flórída! Þar með fékk Bush hina 25 kjörmenn Flórída og endaði með 271 kjörmann, fimm fleiri en Gore. Varaforsetinn hafði hins vegar næstum 550.000 fleiri atkvæði á landsvísu.

Demókratar kröfðust að vonum endurtalningar í Flórída, úr því svo litlu munaði, og talning hófst. Útlit var fyrir að hún yrði nokkuð tímafrek því nú átti að telja allt í höndum, en ekki vélum. Þá fór Bush hins vegar fram á að talning yrði stöðvuð á þeirri forsendu að ekki dygði að draga úrslit svo úr hömlu. Þá var komið fram í desember.

Þann tólfta úrskurðaði Hæstiréttur Bandaríkjanna 5-4 eftir flokkslínum dómara að talning skyldi vissulega stöðvuð og þannig varð Bush forseti Bandaríkjanna.

Þessi ákvörðun Hæstaréttar hefur verið talin eitthvert mesta hneykslið í sögu hans, því auðvitað hafi átt að klára talninguna og leyfa lýðræðinu að ráða.

Winner Takes All!

Allra óviðkunnanlegast við úrslitin 2000 var kannski að þótt Bush hefði ekki stuðning meirihluta kjósenda og hefði komist í Hvíta húsið með svo stórlega vafasömum hætti, þá litu hann og hans menn bersýnilega ekki svo á að þeim bæri að fara varlega, vinna að sáttum og leitast við að styggja ekki um of þann meirihluta sem ekki hafði kosið þá. Þvert á móti gengu Bush, Cheney varaforseti, Rumsfeld varnarmálaráðherra og félagar til verka í samfélaginu eins og þeim hefði verið afhent vald til að fara með það eins og þeim sýndist.

Það er raunar hin bandaríska hefð: Winner Takes All, eða Sigurvegarinn hirðir allt. Og breytir engu þótt hann hafi unnið kosningarnar mjög naumlega eða jafnvel alls ekki.

Og það lofar auðvitað ekki góðu fyrir forsetatíð Donalds Trump. Þótt hann hafi ekki meirihluta atkvæða á bak við sig mun hann telja sér heimilt að gerbylta hverju því sem honum sýnist.  

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Leiðari

Óvinir valdsins

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“

Pistill

Þorum við að vera við?

Fréttir

Fékk nóg af hagræðingartali ráðherra: „Við erum hér alla daga að reyna gera okkar besta“

Fréttir

Sagðist sjálfur hafa greitt skuldirnar sem faðir hans yfirtók

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Fréttir

Faðir Bjarna Benediktssonar greiddi upp skuldir hans vegna áhættuviðskipta

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Leiðari

Óvinir valdsins