Pistill

Leyndarhyggja við einkavæðingu framhaldsskóla

Einar Brynjólfsson, þingmaður Pírata, skrifar um leynd við yfirtöku einkarekins skóla á Fjölbrautaskólanum við Ármúla.

Kristján Þór Júlíusson Menntamálaráðherra hefur sagt umræðuna um fyrirhugaða yfirtöku hins einkarekna Tækniskóla á Fjölbrautaskólanum við Ármúla hafa verið ótímabæra. Mynd: Pressphotos.biz/Geirix

Fyrirhuguð yfirtaka Tækniskólans ehf. á Fjölbrautaskólanum í Ármúla hefur eðlilega valdið úlfaþyt í þjóðfélaginu og á Alþingi. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa mótmælt áformunum harðlega og var mennta- og menningarmálaráðherra, Kristján Þór Júlíusson, krafinn skýringa á fundum í allsherjar- og menntamálanefnd og í sérstökum umræðum á Alþingi, að frumkvæði þingmanna Pírata.

Fækkun nemenda

Að sögn ráðherrans er verið að bregðast við fyrirsjáanlegri fækkun nemenda á næstu árum með þessari sameiningu og fleiri sameiningum sem í farvatninu eru. Fólki á framhaldsskólaaldri mun fækka á allra næstu árum vegna lágrar fæðingartíðni eftir aldamót, því verður ekki í móti mælt. Skerðing náms til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú ár hefur þó enn meiri áhrif til fækkunar framhaldsskólanema, eins og gefur að skilja. Árið 2001 fæddust tæplega 4.100 börn og litlu færri börn árið eftir. Þessir fámennu árgangar munu innritast í framhaldsskóla næsta haust og þarnæsta. Eftir það mun framhaldsskólanemum fjölga jafnt og þétt og haustið 2025 verða þeir 23% fleiri en í dag.

Botni niðursveiflunnar er því náð núna og leiðin liggur upp á við frá hausti 2019. Það má kannski benda ráðherranum á að nemendum mætti fjölga strax með því að hleypa þeim sem eru eldri en 25 ára inn í hlýju framhaldsskólakerfisins aftur.

Undirstöður verk- og starfsnáms styrktar

Í máli ráðherrans kom fram að með sameiningu skóla væri verið „að styrkja undirstöður verk- og starfsnáms“. Það skyldi þó aldrei vera að hér sé ráðherrann að hlaupa frá því erfiða verki sem forverum hans tókst ekki að vinna, þ.e. að efla verk- og starfsnám í raun. Er hann kannski að eftirláta einkareknum skóla að leysa vandann? Ríkisendurskoðun birti fyrir skemmstu skýrzlu sem ber heitið „Starfsmenntun á framhaldsskólastigi. Skipulag og stjórnsýsla“. Það er sannast sagna ekki fagur vitnisburður um störf þeirra sem hafa farið með stjórn menntamála undanfarin ár, sem þar birtist. Við vinnslu skýrzlunnar voru tvær meginspurningar lagðar til grundvallar:

1. Hefur starfsnám á framhaldsskólastigi eflst frá gildistöku laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla?

2. Er stjórnsýslu og skipulagi starfsmenntunar á framhaldsskólastigi ábótavant?

Svörin eru ansi neikvæð, svo ekki sé meira sagt:

„Þrátt fyrir áralöng fyrirheit um að efla starfsnám á framhaldsskólastigi hafa aðgerðir stjórnvalda ekki skilað þeim árangri sem stefnt var að þegar lög nr. 92/2008 um framhaldsskóla voru samþykkt. Með þeim átti m.a. að efla verknám og ná fram sterkara samstarfi skóla, vinnustaða og atvinnulífsins í heild. Lögin áttu að verða starfsréttindanámi til framdráttar og opna skólum leið til að efla starfsnám og nám tengt þjónustugreinum. Það hefur ekki gengið eftir.“ (Bls. 4)

„Yfirvöld menntamála og hagsmunaaðilar hafa eytt miklum tíma og fjármunum til að greina vandann en illa hefur gengið að koma nauðsynlegum aðgerðum til framkvæmda.“(Bls. 11)

Í þessari skýrzlu er að finna nánari útlistun á því sem betur mætti fara, en út í þá sálma verður þó ekki farið hér. Staðreyndin er einfaldlega sú, að yfirvöld menntamála hafa ekki staðið sig sem skyldi.

„Ótímabær umræða“

Menntamálaráðherra lét hafa eftir sér að umræðan um sameiningu FÁ og Tækniskólans væri ótímabær. Ég spyr mig: Hvenær er umræða um sameiningu einstakra skóla tímabær? Þegar kostir og gallar hafa verið vegnir og metnir, með algerri leynd, ákvörðun í raun verið tekin og allir hlutaðeigandi standa frammi fyrir orðnum hlut? Nei, aldeilis ekki. Það hlýtur að vera kall tímans að öll ákvarðanaferli og öll stefnumótun, sem reyndar hefur farið lítið fyrir í menntamálum, séu opin og gagnsæ, strax í upphafi.

Stjórnmálamenn af gamla skólanum kunna ekki að takast á við áskoranir nútímasamfélags. Leyndarhyggjan er þeim eðlislæg og hún sýnir sig ítrekað í þeirri vanvirðingu sem almenningi er sýnd með svona vinnubrögðum. Nú er komið upp úr dúrnum að Steinn Jóhannsson, skólameistari FÁ, hefur verið ráðinn í stöðu konrektors við Menntaskólann í Hamrahlíð. Umsóknarfrestur fyrir þá stöðu rann út 24. apríl sl. Á þeim tímapunkti hafði enginn innan FÁ vitneskju um einkavæðinguna utan Steins sjálfs sem sat í sérstökum vinnuhópi skipuðum af menntamálaráðherra til að skoða möguleikann á sameigningu skólans við Tækniskólans. Steinn sagði sjálfur í samtali við Vísi í gær að hann hafi verið bundinn trúnaði og því ekki getað greint samstarfsfólki sínu frá því sem til stóð. Hann bjó því yfir trúnaðarupplýsingum þegar hann sótti um starf konrektors MH og var umsóknarfresturinn liðinn þegar einkavæðingaráformin urðu opinber. 

Hvert er ferðinni heitið?

Við hljótum alltaf að leita leiða til að bæta okkur sjálf og bæta samfélagið sem við erum hluti af, ekki sízt menntakerfið. Við megum ekki staðna, en við megum heldur ekki leggja af stað í leiðangur, ef við vitum ekki hvert ferðinni er heitið.

Einar Brynjólfsson

Höfundur er þingmaður Pírata og framhaldsskólakennari til 18 ára.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Geir Jón skrifaði meðmæli fyrir nauðgara sem hann rannsakaði

Fréttir

Sveinn segir söguna alla: „Okkur fannst þessi tengsl mjög skrítin“

Fréttir

Brynjar kemur fyrir í gögnunum sem áttu að fara leynt

Fréttir

Brynjar settur af sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar

Viðtal

Halldór Auðar um kynferðisofbeldið: Sektin helltist yfir

Fréttir

Júlíus Vífill veitti lögmanni meðmæli

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Hjalti fundaði með Bjarna og Brynjari eftir að hann var kærður

Fréttir

Dæmdur fyrir hrottalega nauðgun gegn þroskahamlaðri konu – fékk uppreist æru í fyrra

Fréttir

Geir Jón skrifaði meðmæli fyrir nauðgara sem hann rannsakaði

Pistill

Þessi ótrúlegi óheiðarleiki

Pistill

Karlmaður í kventíma

Fréttir

Faðir forsætisráðherra var meðmælandi Hjalta – ráðuneytið hélt því leyndu