Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Flækjusagan

Land Kunta Kinte: Stefnir í átök í einu furðulegasta landi heimsins

Illugi Jökulsson lítur á sögu Gambíu, þar sem nú er reynt að afstýra borgarastríði.

Gambía - Landinu hefur oft verið líkt við snák í holdi Senegals.

Þessi dægrin stefnir í vandræði í Vestur-Afríkuríkinu Gambíu. Forseti landsins, Yahya Jammeh, tapaði í forsetakosningum þann 1. desember síðastliðinn fyrir leiðtoga stjórnarandstöðunnar, fasteignasalanum Adama Barrow. 

Jammeh viðurkenndi ósigur sinn í fyrstu og stefnt var að valdaskiptum eftir fjóra daga, þann 19. janúar.

En síðan kom babb í bátinn, Jammeh lýsti því yfir að andstæðingar hans hefðu stundað víðtækt kosningasvindl og hann myndi því ekki láta af embætti eins og til stóð.

Hæstiréttur yrði að taka afstöðu til málsins og umfjöllun hans myndi ekki ljúka fyrr en í sumar. Þangað til myndi hann sitja í embætti.

Adama BarrowÞrátt fyrir bresk yfirráð í aldir eru flestir Gambíumenn enn múslimar. Barrow þykir mjög trúaður en enginn öfgamaður. Hann á tvær eiginkonur.

Öllum nema hörðustu stuðningsmönnum Jammeh ber saman um að ekkert sé hæft í ásökunum hans, og leiðtogar nágrannaríkja Gambíu hafa þungar áhyggjur af því að Jammeh muni reyna að halda forsetaembættinu með vopnavaldi, sem gæti þá leitt til borgarastríðs.

Og það kveikir ekki góðar minningar í hugum Vestur-Afríkumanna frá villimannlegum og lítt skiljanlegum borgarastríðum í ríkjum eins og Gíneu-Bissau, Líberíu og Ljónafjöllum (Síerra Leone).

Öll virtust þau snúast eingöngu um persónulegan metnað valdamanna og stríðsherra en kostuðu mörg hundruð þúsund mannslíf.

Vonandi tekst að koma vitinu fyrir Jammeh, en þetta viðkvæma ástand hefur vakið athygli á Gambíu sem er ansi furðulegt ríki - ekki síst í útliti!

Mjög mörg og kannski flest Afríkuríki má segja að séu til orðin fyrir afleiðingar nýlendustefnu Evrópuríkjanna á 19. öld, og Gambía er eitt af þeim.

Ríkið er kennt við og er á bökkum Gambíufljóts sem er 1.200 kílómetra langt og fellur út í Atlantshaf og þar hafa búið ýmsir ættbálkar og þjóðir gegnum tíðina. Á öldunum eftir Krists burð var þetta svæði í útjaðri Ghana-veldis sem var öflugt ríki sem stóð í mörg hundruð ár, og varð seinna hluti Malí-ríkisins sem var upp á sitt besta um 1200.

Íbúar á svæðinu tóku flestir íslams-trú á þessum tíma en þó undir sterkum áhrifum frá afrískum trúarbrögðum.

Eftir að Evrópumenn hófu siglingar um heimshöfin laust fyrir 1500 hófu þeir að kasta eign sinni álitleg svæði. Portúgalar höfðu reist virki í ósum Gambíu-fljóts en Bretar eignuðust það að lokum á 17. öld. Þeir áttu síðan löngum í erjum við Frakka um yfirráð yfir ánni.

Á 18. öld hófst gríðarleg þrælaverslun á svæðinu. Afrískir höfðingjar og smákóngar seldu milljónir þræla í hendur evrópskra þrælasala og voru flestir fluttir til Ameríku. Jakobs-eyja svokölluð í ósum Gambíu-fljóts varð ein helsta miðstöð Breta við þessa verslun. Bretar köstuðu jafnframt eign sinni á árbakkana upp með fljótinu, en á 19. öldinni voru Frakkar búnir að eigna sér svæðið beggja megin við hið breska svæði meðfram ánni.

Franska nýlendan kallaðist Senegal og umlukti Gambíu, sem oft hefur verið - vegna lögunarinnar - líkt við snák í holdi Senegals.

Jakobs-eyja hefur nú verið nefnd Kunta-Kinte-eyja, vegna þess að Alex Haley, höfundur skáldsögunnar Roots, sem tvær sjónvarpsseríur hafa verið gerðar eftir, kvað forföður sinn Kunta Kinte hafa verið fluttan sem þræl burt frá Jakobs-eyju þegar hann var rétt innan við tvítugt 1767.

Árið 1960 hlaut Senegal sjálfstæði undan Frökkum. Breska nýlendan Gambía varð ekki sjálfstæð fyrr en fimm árum seinna. Þótt enginn sérstakur munur hafi í rauninni verið á íbúum Senegals og þeim sem bjuggu á bökkum Gambíu-fljóts frá menningarlegu og sögulegu sjónarmiði, og fólk á öllu svæðinu hafi talað samskonar tungumál, þá höfðu yfirráð nýlenduveldanna tveggja fært íbúa svæðanna í sundur svo ekki kom til mála að sameina svæðið í eitt ríki.

Allt í einu voru orðnar til tvær „þjóðir“.

Yahya JammehNúverandi forseti verður æ furðulegri og hefur til dæmis vakið athygli fyrir undarlegar yfirlýsingar um að Gambíu-menn hafi verið miklir frumkvöðlar í flugsögu heimsins, en enginn fótur er fyrir slíku.

Árið 1970 varð Dawda Jawara forseti og tók sér smátt og smátt einræðisvöld í Gambíu. Árið 1994 var framið valdarán án blóðsúthellinga og 29 ára liðsforingi varð forseti, Yahya Jammeh. Hann sigraði svo í forsetakosningum tveimur árum seinna.

Jammeh hefur orðið æ einræðissinnaðri, duttlungafyllri og kúgunargjarnari með árunum en alltaf unnið forsetakosningar - yfirleitt með svindli, segja hlutlausir eftirlitsaðilar. Og nú þegar hann varð að viðurkenna ósigur í desember síðastliðnum, þá dró hann sem sé viðurkenninguna til baka og nú stefnir í óefni.

Vonandi tekst þó að afstýra vandræðum.

Gambía er um 10 þúsund ferkílómetrar, einn tíundi af stærð Íslands. Landið er hvergi breiðara en 50 kílómetrar.

Íbúar eru 1,8 milljónir. 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Gagnrýnir prófíl-mynd þingkonu sem kvartar undan áreitni

Fréttir

Isavia þarf að afhenda Aðalheiði yfirstrikaðar upplýsingar: „Svo mér endist ævin til að reka þetta mál“

Fréttir

Þrjú hundruð stjórnmálakonur skora á stjórnvöld: „Hótað nauðgun vegna skoðana minna“

Fréttir

Geir tapar fyrir Mannréttindadómstólnum: Engin mannréttindi brotin í Landsdómsmálinu og málsmeðferð í samræmi við lög

Fréttir

Óttast að trúfélagsapp safni persónuupplýsingum

Fréttir

Undanfarin ár sýnt að sjálfstæð peningastefna geti virkað á Íslandi

Mest lesið í vikunni

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Aðsent

VG – in memoriam

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Fréttir

Selur bílinn sinn til að borga ríkinu fyrir eigin brottflutning

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“

Fréttir

Gagnrýnir prófíl-mynd þingkonu sem kvartar undan áreitni