Pistill

Kynferðislega áreitt í gufubaði

Áslaug Karen Jóhannsdóttir segir frá því þegar hún var kynferðislega áreitt í gufuklefa í sumar og setur upplifun sína í samhengi við nýfallin dóm í sambærilegu máli.

„Ljóti karlinn“ „Hann iðaði allur og var með virkilega óþægilega nærveru. Hann sagðist vera „ljóti karlinn“ og að hann væri búinn að búa í helli í mörg ár.“ Mynd: Shutterstock

Ég var kynferðislega áreitt í gufuklefa úti á landi í sumar. Á ferðalagi í ókunnugu bæjarfélagi álpaðist ég með vinkonu minni inn í pínulítinn gufuklefa, líklega þann minnsta sem ég hef séð. Eða kannski var hann stór, í minningunni var hann lítill og myrkur. 

Við höfðum ekki setið lengi í gufunni þegar inn kom sterklega byggður maður, líklega í kringum fertugt, og bauð okkur góðan dag, ekki innilega heldur hátt og hvasst. Hann var með litla, græna bjórdós í hönd og augljóslega undir áhrifum. Mér varð strax ljóst að þarna fór maður sem tók pláss, maður sem bað ekki um athygli heldur krafðist hennar. „Vá, þú ert konan sem ég er búinn að vera að leita að,“ sagði hann þegar hann sá mig og settist við hliðina á mér. Hann iðaði allur og var með virkilega óþægilega nærveru. Hann sagðist vera „ljóti karlinn“ og að hann væri búinn að búa í helli í mörg ár. Síðan varð hann klúr og beindi athyglinni sífellt að líkama mínum. Ég stífnaði öll upp og varð vandræðaleg, en brosti engu að síður kurteislega og sagðist vera frátekin. „Só?“ sagði hann þá. „Við getum samt alveg tekið einn stuttan.“ 

Í hvert sinn sem hann færði sig nær mér tók hann fram að ég þyrfti ekki að vera hrædd, sem ég var að sjálfsögðu. 

Það sem átti að vera nokkurra mínútna slökun var orðið að einhverju allt öðru og ég gerði vinkonu minni ljóst að ég vildi komast út í flýti. Í einhvers konar geðshræringu villtumst við hins vegar á leiðinni út í laug og hugsuðum báðar að nú myndi hann ná okkur - sem hann gerði. Allt í einu var rifið í handlegginn á mér og þrekinn maðurinn stóð ógnandi yfir mér. Nú þegar við stóðum upprétt gat hann virt líkama minn fyrir sér betur og byrjaði strax að tala með ágengum hætti um vaxtarlag mitt. Þarna stóð ég, á sundfötunum einum fata, og hef aldrei upplifað mig jafn varnarlausa. Ég var raunverulega hrædd, sem hann hlýtur að hafa skynjað þegar ég nánast grátbað hann um að láta mig vera. Þá hló hann og sneri aftur í gufuklefann. 

Í sömu andrá sáum við sundlaugarstarfsmann og létum hann vita að í klefanum væri maður í annarlegu ástandi. „Var hann að ónáða ykkur?“ spurði hann. „Já,“ sagði vinkona mín ákveðin og benti á að þessi maður ætti ekkert erindi í sundlaugina. Það ætti að henda honum út. „Við erum að fylgjast með honum,“ sagði starfsmaðurinn og vísaði okkur leiðina út í laug. Þegar við vorum loksins komnar út undir beran himin byrjuðum við að hlæja, einhverjum óskilgreindum taugaveiklunarhlátri, því hvað áttum við annað að gera? Stuttu síðar birtist maðurinn í heita pottinum, en þá var búið að taka af honum bjórinn.

Mér verður oft hugsað til þessa atviks. Líklega hafði það meiri áhrif á mig en ég þorði að viðurkenna í fyrstu. Þegar ég síðan las dóm þar sem fullorðinn karlmaður var dæmdur fyrir að áreita, við sams konar aðstæður, unglingspilta helltust yfir mig sömu tilfinningar og ég fann í gufuklefanum í sumar. Í því tilviki var karlmaður dæmdur fyrir að spyrja tvo 17 ára stráka „hvort hann ætti að taka þá í rassgatið“ og fyrir að toga í buxnastreng annars piltsins að framanverðu. Karlmaðurinn var dæmdur í tveggja mánaða fangelsi og til að greiða eina milljón króna í miskabætur.  

Nú er ég alls ekki að gera lítið úr upplifun drengjanna, enda að öllum líkindum sambærileg minni upplifun. Ég skil hvernig þeim leið. En ég velti því hins vegar fyrir mér hvers vegna fyrstu viðbrögð 17 ára drengs eru að kæra athæfið, á meðan ég, háskólagengin kona á þrítugsaldri, læt sömu hegðun yfir mig ganga. Mér datt aldrei í hug að kæra. Aldrei. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

„Samfélagið má aldrei taka afstöðu gegn börnum“

Fréttir

Björn Ingi Hrafnsson fyrir dóm vegna skuldar

Pistill

Allt í klessu á húsnæðismarkaðinum – sumarið 2017

Fréttir

Björt framtíð og Viðreisn þurrkast út

Fréttir

Trump vill skrúfa fyrir húshitun til fátækra

Fréttir

Kærðir lögreglumenn sem fótbrutu mann verða áfram við störf

Mest lesið í vikunni

Viðtal

Faðir drengsins: „Kaj er ekki saklaus“

Fréttir

Af hverju verndum við börnin okkar?: 16 ungmenni fórust á tveim mánuðum

Aðsent

Opið bréf til stjórnar Foldaskóla

Pistill

„Samfélagið má aldrei taka afstöðu gegn börnum“

Fréttir

Björn Ingi Hrafnsson fyrir dóm vegna skuldar

Pistill

Allt í klessu á húsnæðismarkaðinum – sumarið 2017