Flækjusagan

Kvenboxarar 18. aldar máttu klóra, bíta, rífa í hár og pota í augu

Illugi Jökulsson er feginn því að hafa aldrei rekist inn á kvennabox-keppni á 18. öld.

Boxað til blóðs - Konur börðust ekki aðeins um það fé sem þeim bauðst frá skipuleggjendum veðmála. Dæmi er um að tvær konur sem vildu giftast sama karlinum hafi barist um hann opinberlega.

Árið 1722 birtist svohljóðandi auglýsing í dagblaði einu í London:

„Þar eð ég, Elizabeth Wilkinson, búsett í Clerkenwell, hef lent í orðaskaki við Hönnu Hyfield og krefst þess nú að fá uppreisn æru, þá býð ég henni að mæta mér á sviðinu og boxa við mig.“

Rótin að þessari auglýsingu var raunar ekki orðaskak þeirra Elizabethar og Hönnu. Það var bara tylliástæða fyrir boxbardaga þeirra, en á 18. öld var kvennabox geysivinsælt sport í Bretlandi og vinsælustu kvenboxararnir - eins og Elizabeth Wilkinson - nutu fullt eins mikillar aðdáunar og vinsælustu karlboxararnir.

Bardagi þeirra Elizabeth og Hönnu var hins vegar fyrsti kvennabardaginn sem vitað er til að hafi verið auglýstur sérstaklega.

Boxið í þá daga var heldur grimmilegra en síðar varð. Í fyrsta lagi báru boxararnir enga hanska. Í öðru lagi var leyfilegt að sparka. Hvort tveggja mun víst þykja fínt í ýmsum bardagaíþróttum nútildags sem ég kann ekki að nefna.

En í þriðja lagi var líka leyfilegt að klóra, bíta, rífa í hár og pota í augu.

Að minnsta kosti framan af mátti þetta allt saman. Þegar auglýsingin ofannefnda birtist, þá fylgdi hins vegar sögunni að bæði Elizabeth og Hannah myndu keppa við hálfkrónu-peninga í báðum lófum og yrðu að halda þeim þar föstum alla keppnina. Það átti að koma í veg fyrir klór og pot og hárreytingar.

En nógu blóðug var víst baráttan samt. 

Framan af 18. öldinni höfðu það fyrst og fremst verið illa staddar vændiskonur sem látnar voru keppa í slagsmálum í London og víðar, karlmönnum til skemmtunar. Þær kepptu þá berbrjósta til að auka gleði karlanna sem veðjuðu á hvor myndi sigra.

Ein lýsing á slíkri hljóðar svo:

„Tveir kvendjöflar, því þær litu varla út fyrir að vera mannlegar verur, voru í miðjum klór- og box-bardaga. Andlit þeirra beggja voru þakin blóði, brjóstin voru ber og nærri hver spjör hafði verið rifin af líkama þeirra.“

Elizabeth Wilkinson auglýsti hins vegar - skömmu eftir að ofangreind auglýsing birtist - að hún myndi keppa í jakka, pilsi sem næði niður fyrir hné og undirbuxum og sokkum. Með þessu gaf hún til kynna að hún væri íþróttamaður, ekki kynferðislegur sýningargripur.

Elizabeth var áreiðanlega kerling í krapinu. Hún var ósigrandi á löngu tímabili, engin kona stóðst henni þá snúning. En hún keppti reyndar ekki bara við konur, heldur atti líka kappi við karlmenn og sigraði þá oft.

Öflugar en bláfátækar konur fengu með box-keppnum tækifæri til að græða svolítið fé með öðru en vændi, sem oft varð hlutskipti þeirra, en það kostaði líka sitt.

Árið 1794 lýsti maður nokkur box-keppni sem hafði staðið sleitulaust í tvær klukkustundi. 

„Sú eldri af konunum átti í miklum vandræðum, því vinstra auga var svo bólgið að hún sá ekkert með því, og hægra augað var nærri lokað vegna blóðstraums frá augabrún sem hafði seytlað stöðugt niður í auga hennar í 40 mínútur.“

Fjöldi áhorfenda var að þessari keppni og var óspart veðjað á hvor myndi vinna. Fögnuður áhorfenda eykst sífellt eftir því sem konurnar tvær verða blóðugri og sundurbarðari og að lokum eru báðar nærri örmagna en reyna enn að berja hvor á annarri.

„Enginn blettur á líkama þeirra sem var stærri en penní bar ekki merki barsmíðanna. Brjóst þeirra voru sérstaklega illa leikin og samt héldu þær báðar áfram að senda högg eftir högg á þetta viðkvæma svæði.“

Að lokum hneig eldri konan niður, orðin sjónlaus á báðum augum, og lá sem dauð væri. Áhorfendur fögnuðu þá mjög þeirri yngri en hún gat raunar varla staðið á fótunum. Svo ruku áhorfendur glaðir í bragði inn á næstu krá en meðvitundarlaus alblóðug eldri konan var látin liggja.

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

„Samfélagið má aldrei taka afstöðu gegn börnum“

Fréttir

Björn Ingi Hrafnsson fyrir dóm vegna skuldar

Pistill

Allt í klessu á húsnæðismarkaðinum – sumarið 2017

Fréttir

Björt framtíð og Viðreisn þurrkast út

Fréttir

Trump vill skrúfa fyrir húshitun til fátækra

Fréttir

Kærðir lögreglumenn sem fótbrutu mann verða áfram við störf

Mest lesið í vikunni

Viðtal

Faðir drengsins: „Kaj er ekki saklaus“

Fréttir

Af hverju verndum við börnin okkar?: 16 ungmenni fórust á tveim mánuðum

Aðsent

Opið bréf til stjórnar Foldaskóla

Pistill

„Samfélagið má aldrei taka afstöðu gegn börnum“

Fréttir

Björn Ingi Hrafnsson fyrir dóm vegna skuldar

Pistill

Allt í klessu á húsnæðismarkaðinum – sumarið 2017