Flækjusagan

Kórea hefur lengi verið „einseturíki“

Illugi Jökulsson segir sögu hins merkilega ríkis á Kóreuskaga fram á 20. öld.

Joseonríkið var meiriháttar menningarríki á Kóreuskaga og oft öflugt þótt ekki stæðist það nágrönnum í Kína og Japan snúning til lengdar. Hér eru sendimenn þess á ferð.

Norður-Kórea er í sviðsljósinu, eina ferðina enn. Það er því ómaksins vert að kynnast forsögu skagans þar sem ríkið er.

Kóreuskaginn er um það tvisvar sinnum stærri en Ísland og þar hefur verið mannabyggð í þúsundir ára. Þar spruttu síðan upp ýmis ríki. Laust eftir Krists burð kom þar fram á sjónarsviðið ríki sem nefndist Goguryeo og náði yfir mestan hluta skagans. Þetta ríki stóð til ársins 668 e.Kr. og nefndist undir lokin Goreyo, en af því er dregið orðið Kórea.

Höfuðborg Goreyo var Pyongyang.

Eftir að þetta ríki hrundi gekk á ýmsu á Kóreuskaga, hin og þessi smáríki spruttu fram og bitust um völdin á skaganum, auk þess sem Kínverjar vildu einlægt seilast þar til áhrifa – og réðu stundum skaganum mestöllum, eftir því hvernig stóð í bólið Kóreumanna.

Kórea er mitt á milli stórveldanna Kína og Japans, en fyrir norðan er Mansjúría sem seinna komst að mestu undir yfirráð Rússa.

Er aldir liðu fóru Japanir líka að skima ágjarnir yfir Kóreusundið og vildu komast til áhrifa. Kóreuskaginn er frjósamur mjög og stóð undir þó nokkru ríkidæmi þegar allt var með felldu.

Árið 1392 var risið býsna öflugt ríki á Kóreuskaganum og nefndist það Joseon. Mestallur tími Joseon er talið gullöld góð í kóreskri sögu. Menning stóð með blóma, kóreskar bókmenntir komust á legg, kaupmenn sigldu á vel útbúnum skipum um Austurlönd og færðu margvíslegan varning heim.

En við ýmsan vanda var þó að etja.

Í lok sextándu aldar gerðu Japanir grimmilega innrás og hugðust leggja Kóreu undir sig. Með miklum manndrápum náðu þeir stórum hluta skagans og þar á meðal Pyongyang en Kóreumenn gripu til skæruhernaðar og fengu að lokum aðstoð Ming-ættarinnar í Kína við að hrekja Japani brott.

Mikil voru þá áhrif Kínverja í Kóreu.

En nokkru seinna eða 1627 gerðu Mansjú-menn í Mansjúríu – sem er norður af Kína og Kóreuskaga – innrás á Kóreuskaga. Mansjú-menn höfðu verið álitnir hálfgerðir villimenn og það varð Kóreumönnum heilmikið áfall að láta undan síga fyrir þeim. En það urðu þeir að gera og eftir aðra innrás á árunum 1636-37 urðu Kóreumenn að ganga að heldur auðmýkjandi friðarskilmálum við Mansjú-menn.

En Joseon-ríkið í Kóreu fékk þó að minnsta kosti að halda velli, ólíkt ríki Ming-ættarinnar í Kína sem Mansjú-menn knésettu endanlega árið 1644 þegar þeir tóku öll völd í Kína.

Andspænis þessu stórveldi komust Kóreumenn að þeirri niðurstöðu að best væri að láta lítið fyrir sér fara og lokuðu þeir ríki sínu sem mest þeir máttu næstu áratugi og aldir, svo mjög að Kórea var iðulega kölluð „einseturíkið“.

Einangrunarhyggja eins og sú sem Kim-feðgar hafa stundað í Norður-Kóreu undanfarna áratugi er sem sé ekki ný af nálinni á þessum skaga.

Ekki fór þó milli mála að áhrif Kínverja voru mjög sterk í Joseon-ríkinu á seinni öldum.

Mín drottningvar meiri skörungur en svo að Japönum líkaði.

Á síðari hluta 19. öld hófst mikill uppgangstími í Japan og þá fóru Japanir að seilast til aukinna áhrifa á Kóreuskaga. Á síðasta áratug aldarinnar gekk á ýmsu, uppreisn bænda var gerð gegn spilltri stjórn Joseon-ríkis og geisuðu átök misserum saman þar til yfirvöldum landsins tókst að bæla uppreisnina niður með hjálp Kínverja.

Japanir reiddust íhlutun Kínverja í kóresk málefni og kom til skammvinns stríðs milli Japans og Kína 1894-95 vegna þessa.

Sumir Kóreumenn vildu um þetta leyti leita undir ægishjálm Rússa til að sporna gegn hinum freku Kínverjum og einkum Japönum. Drottningin í ríkinu, sem kölluð var Mín, var myrt af japönskum útsendurum 1895 af því hún barðist gegn ásælni Japana.

Eiginmaður Mín, Gojong konungur, gerði tilraun til að styrkja Kóreu andspænis Japan með því að lýsa yfir stofnun keisaradæmis 1897 og hann hóf miklar umbætur í landinu. Iðnbylting var gerð á skömmum tíma og allt virtist leika í lyndi.

Árið 1905 gjörtöpuðu Rússar hins vegar í stríði við Japan. Þar með voru Rússar ekki lengur í stakk búnir til að styrkja Kóreumenn gagnvart Japönum. Síðar á því ári knúðu Japanir Kóreumenn til að eftirláta sér utanríkispólitík ríkisins, og tveim árum neyddu Japanir Gojong keisara til að segja af sér og sonur hans varð keisari í staðinn.

En þetta létu Japanir sér ekki nægja. Árið 1910 þvinguðu þeir Kóreumenn til að fallast á japönsk yfirráð í landinu öllu. Japanir hófust svo handa um að útrýma kóreskri menningu og álitu að það yrði létt verk fyrir þá að gera Kóreumenn í reynd að Japönum.

Er sú saga öll hin villimannlegasta og verður sögð síðar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Fréttir

Þrýsti á fjölmiðlaeiganda vegna umfjöllunar um Vafningsmálið en segist aldrei hafa reynt að stöðva fréttaflutning

Pistill

Áfengi er frábært!

Leiðari

Óvinir valdsins

Fréttir

Sýslumaður kvartar undan „ótæpilegri“ umræðu um starfsmenn embættisins

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Fréttir

Faðir Bjarna Benediktssonar greiddi upp skuldir hans vegna áhættuviðskipta

Afhjúpun

Bjarni losnaði við 50 milljóna kúlulánaskuld í aðdraganda hrunsins

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Blogg

„Getur ekki einhver þaggað niðri í Stundinni?“