Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Flækjusagan

Katrín mikla blæs á kjaftasögurnar: „Ég dó ekki í samförum við hross!“

Illugi Jökulsson skrifar hér í orðastað Katrínar miklu keisaraynju í Rússlandi sem var hin merkasta kona en var stundum sökuð um að láta kynhvötina hlaupa með sig í gönur.

Katrín mikla var stórmerkileg kona. Hún fæddist árið 1729 í Stettin í Þýskalandi (borgin er raunar í Póllandi núna) og var af þýskum aðalsættum svo langt aftur í aldir sem séð varð; einn af langalangöfum hennar í móðurættina var Friðrik Danakóngur III, sá sem einvaldur var lýstur á Íslandi á Kópavogsfundi 1662.

Þótt ættir Katrínar væru virðulegar, sem kallað var, þá bjó fjölskyldan við heldur takmarkað ríkidæmi. Þegar hún var 16 ára árið 1745 gekk hún hins vegar að eiga Pétur ríkisarfa í Rússlandi og 1762 varð hann keisari. Þá var Katrín 32ja ára.

Gallinn við Pétur var sá að hann var illa gefinn, illa innrættur og illa fallinn til landstjórnar. Langt var síðan hjónaband þeirra Katrínar var orðið nafnið tómt. Þau höfðu eignast son 1751 en ekki er öldungis víst að hann hafi í raun verið sonur Péturs, sem hafði meiri áhuga á að leika sér að tindátum en sökkva sér í konur. Nefndur er til sögu sem hugsanlegur faðir sonarins aðalsmaður einn sem Katrín hafði tekið í sæng sína til að lina leiðindi sín.

Aðeins sex mánuðum eftir valdatöku Péturs keisara var honum steypt af stóli af Katrínu og bandamönnum hennar, og var hann myrtur skömmu síðar.

Hin þýska prinsessa varð nú keisaraynja í Rússlandi og er skemmst frá því að segja að hún reyndist skörungur mikill. Hún sat í hásætinu í Kreml allt til æviloka 1796 og átti mikinn þátt í að treysta Rússland í sessi sem evrópskt stórveldi.

Var hún dáð á sínum tíma en nú um stundir hljótum við að setja mörg spurningamerki við framferði hennar á valdastóli. Hún tók þátt í því með Prússum og Austurríkismönnum að myrða Pólland og hún sniðgekk vandlega öll tækifæri til að lina hina einræðislegu stjórnarhætti í Rússlandi, draga úr þrælahaldinu sem tíðkaðist í sveitum landsins - og svo framvegis.

En einkalíf Katrínar þótti líka afar litríkt og gengu um hana og kynhvöt hennar tröllslegar sögur. Ég kallaði hana því fram á ímynduðum miðilsfundi og bað hana að standa fyrir máli sínu.

„Iss, ég blæs á þessar kjaftasögur allar,“ fussaði keisaraynjan að handan. „Að ég hafi átt þúsundir elskhuga og hafi ekki getað á heilli mér tekið nema hafa nýjan karlmannskropp í rúminu á hverri einustu nóttu, það er bara slaður og ekkert annað.

Ég skal þó fúslega viðurkenna að ég hafði reglulega gaman af að sofa hjá, en ég var miklu nýtnari á elskhuga en þessar kjaftasögur gefa til kynna. Ég var einhvern tíma að telja þá saman, þessa höfðingja mína, og ég komst ekki nema upp í 22 og það eru nú engin ósköp. Ég skal að vísu ekki þvertaka fyrir að ég sé þá ekki að gleyma svo og svo mörgum, sem stóðu sérlega stutt við í bólinu hjá mér, eða ég tók hreinlega á löpp einhvers staðar úti undir vegg, en það telst nú varla með, er það nokkuð?

Hitt er rétt, sem sagt er, að allir mínir elskhugar voru einstaklega myndarlegir, kraftalegir og glæsilegir menn. Og ungir voru þeir, sá yngsti víst ekki nema 16 ára, en þá var ég líka kominn um sextugt og þurfti á upplífgandi félagsskap unga fólksins að halda. Og þeir urðu að uppfylla ákveðnar kröfur til, þessir strákar mínir, að ég hleypti þeim upp í til mín, já, þeir urðu að standa sig.

Ég veit það ganga sögur um að ég hafi látið mína helstu hirðmey, hana Praskovíu Bruce, prófa strákana áður en ég tók þá til handargagns, en ég kýs að upplýsa ekki sannleikann í því - þið ráðið hreinlega hvort þið trúið því.

Ég átti vissulega ýmislegt til. Það er, svo dæmi sé tekið, heilagur sannleikur að ég hafi látið útbúa sérstakt „ástarherbergi“ við hliðina á svefnherberginu mínu í höllinni í Kreml. Þar var allt innréttað á eins munúðarfullan og lostafenginn hátt og hægt var - borðfætur voru útskorin typpi og margt fleira þess háttar skemmtilegt var í herbergi þessu.

Nú, og það er svo sem alveg rétt að flesta strákana mína leysti ég út með góðum gjöfum þegar ég varð leið á þeim og vildi endurnýja. Þeir fengu gull og gimsteina, hallir og þúsundir þræla. Áttu þeir þetta lítilræði kannski ekki skilið? Þeir höfðu reynst keisaraynju sinni vel, svo því skyldi ég ekki launa þeim?

En einni kjaftasögu verð ég að mótmæla alveg sérstaklega. Hún er sú að ég hafi andast þegar ég var að reyna að hafa samfarir við hross. Að hesturinn hafi verið hífður upp í talíu en reipi slitnað svo ég kramdist undir dýrinu.

Þetta er argvítug lygi. Líklega er hún sprottin af því að ég var oft að þvælast ein úti í hesthúsi klukkutímum saman. En ekkert þvíumlíkt var ég að gera, ónei.

Sannleikurinn er sá að ég fékk slag þegar ég var á klósettinu 67 ára gömul og var þá borin inn í rúm þar sem ég lá við harmkvæli mikil í nokkra daga en dó svo. Sögulegri var nú minn dauðdagi ekki.“

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Gagnrýnir prófíl-mynd þingkonu sem kvartar undan áreitni

Fréttir

Isavia þarf að afhenda Aðalheiði yfirstrikaðar upplýsingar: „Svo mér endist ævin til að reka þetta mál“

Fréttir

Þrjú hundruð stjórnmálakonur skora á stjórnvöld: „Hótað nauðgun vegna skoðana minna“

Fréttir

Geir tapar fyrir Mannréttindadómstólnum: Engin mannréttindi brotin í Landsdómsmálinu og málsmeðferð í samræmi við lög

Fréttir

Óttast að trúfélagsapp safni persónuupplýsingum

Fréttir

Undanfarin ár sýnt að sjálfstæð peningastefna geti virkað á Íslandi

Mest lesið í vikunni

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Aðsent

VG – in memoriam

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Fréttir

Selur bílinn sinn til að borga ríkinu fyrir eigin brottflutning

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“

Fréttir

Gagnrýnir prófíl-mynd þingkonu sem kvartar undan áreitni