Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Flækjusagan

Jólaguðspjallið: Hver var Heródes konungur?

Illugi Jökulsson segir frá manninum sem reyndi að fyrirkoma Jesúa frá Nasaret nýfæddum, ef marka má guðspjallamanninn Matteus.

Heródes - Hann lét taka af lífi að minnsta kosti tvo syni sína.

Alkunna er að jólaguðspjöll þeirra Matteusar og Lúkasar eru að ýmsu leyti giska ólík. 

Báðir vildi skýra fyrir lesendum sínum og hlustendum að meistarinn Jesúa hafi verið fæddur í smáþorpinu Betlehem í Júdeu þótt hann hafi alist upp í Nasaret í Galíleu. Héröðin Júdea og Galílea voru bæði hluti af gamla Gyðingalandinu en tilheyrðu kringum Krists burð sjaldnast sömu stjórnsýslueiningu.

Hinir frumkristnu vidu trúa því að Jesúa hafi verið fæddur í Betlehem vegna þess að til var í Gamla testamentinu spádómur þar sem sagði að nýr konungur Gyðinga myndi fæðast í Betlehem. Sá spádómur hlaut að eiga við konunginn og frelsarann Jesúa, álytkuðu hinir frumkristnu, en þar með þurftu guðspjallamennirnir að skýra af hverju Galíleumaðurinn Jesúa hafi verið fæddur í Betlehem.

Lausn guðspjallamannsins Lúkasar var að setja saman (sjálfsagt eftir sögum sem gengu í söfnuðunum) frásögnina sem lesin er í hverri kirkju á aðfangadagskvöld.

Rómverjar fyrirskipuðu manntal og því þurftu Jósef og María að fara frá heimili sínu í Galíleu og ferðast til Betlehem til að láta skrásetja sig. Og því fæddist Jesúa þar en ekki heima í Nasaret.

Þessi frásögn er sagnfræðilega mjög vafasöm - og er þá vægt að orði komist - en látum það liggja milli hluta að sinni.

Guðspjallamaðurinn Matteus fer hins vegar aðra leið en Lúkas. Samkvæmt frásögn hans verður ekki betur séð en Jósef og María hafi verið búsett í Betlehem upphaflega.

Einhvern tíma eftir fæðingu Jesúa hröktust þau hins vegar þaðan. Heródes þáverandi konungur í Júdeu hafði þá frétt hjá „vitringunum“ frægu að fæddur væri lítill drengur sem myndi verða konungur Gyðinga og einsetti sér að láta drepa alla nýfædda drengi í nágrenninu. 

Þá flúðu Jósef og María til Egiftalands en sneru svo að lokum heim en settust þá að í Nasaret í Galíleu. Þangað myndi armur Heródesar konungs ekki ná drengnum.

Þessi frásögn Matteusar er alveg jafn sagnfræðilega vafasöm og guðspjall Lúkasar, en látum það liggja milli hluta líka. Spurningin er aftur á móti þessu:

Hver var morðhundurinn Heródes konungur, sem hafði á sér svo illt orðspor að menn trúðu upp á hann fjöldamorðum á nýfæddum börnum?

Heródes var frá Idúmeu, sem var hérað sunnan Júdeu og náði suður að sjó við Aqaba-flóa. Idúmeu-menn væru náfrændur Gyðinga en höfðu þó ekki sömu trú. Seint á annarri öld fyrir Krist tók voldugur flokkur Idúmeu-manna hina „réttu“ Gyðingatrú og varð þar brátt fremstur í flokki Antípater nokkur.

Um miðja fyrstu öld fyrir Krist blandaðist Antípater í borgarastyrjöld helstu hershöfðingja Rómaveldis, en Rómverjar voru þá óða önn að leggja undir sig Miðjarðarhafsbotn.

Antípater hafði vit á að binda trúss sitt við Júlíus Caesar og er meira að segja sagður hafa bjargað lífi Caesars þegar hann kom með herflokk til lausnar Caesari þegar Rómverjinn knái var innilokaður í Alexandríu í Egiftalandi.

Þar með komst ætt Antípaters í náðina í Róm og árið 37 gerði Markús Antoníus herforingi son Antípaters að konungi yfir Júdeau - að sjálfsögðu undir ægishjálmi Rómaveldis. 

Sonurinn hét Heródes. Móðir hans var arabísk af kyni Nabateana sem flökkuðu um eyðimörkina í grennd við borgina Petru, sem nú er hluti Jórdaníu og margir þekkja.

Heródes var tæplega fertugur þegar hann varð konungur í Júdeu - en vel að merkja ekki í Galíleu. Síðarnefnda héraðið var yfirleitt undir beinni stjórn rómverska landstjórans í Sýrlandi.

Á konungsstóli þótti Heródes að ýmsu leyti mjög dugmikill. Hann lét til dæmis endurreisa musterið fræga í Jerúsalem svo það varð ein glæsilegasta bygging sinnar tegundar í öllu Rómaveldi.

En Heródes var líka duttlungafullur, grimmur og óútreiknanlegur. Hirð hans var ormagryfja þar sem syndumspiltir ættingjar Heródesar og hirðsníkjudýr börðust um völd og áhrif.

Sjálfur lét hann ekki sitt eftir liggja, lét til dæmis taka af því eina af fjórum eiginkonum sínum, Maríamne I, og nokkra af fjölmörgum sonum sínum.

Hirð Heródesar varð alræmd fyrir óhóf, bruðl og nautnalíf  og því varð Heródes aldrei raunverulega vinsæll með þjóðinni sem hann ríkti yfir, ekki einu sinni þótt flestir væru ánægðir með byggingaframkvæmdir hans og ekki síst musterið fína.

Og ekki dugði heldur til þótt hann ætti til ýmisleg góðverk, svo sem þegar hann borgaði úr eigin vasa matvælaaðstoð sem þurfti til að koma í veg fyrir hungursneyð.

Ýmsir uppreisnir voru gerðar gegn Heródesi en þær voru allar bældar niður með mikilli hörku.

Í raun hefði Heródesi alveg verið trúandi til að láta myrða nokkur smábörn til að tryggja sig í sessi í hásætinu, en gallinn er sá að engar aðrar heimildir eru til um morðöldina sem Matteus segir frá. 

Og þar sem ýmsar heimildir eru til um stjórnartíð Heródesar er ljóst að ef slíkur voðaatburður hefði átt sér, þá myndum við nær áreiðanlega vita af því úr þeim heimildum.

Heródes dó eftir mjög sársaukafull veikindi árið 4 fyrir Krist. Var hann fáum harmdauði.

Sé eitthvað að marka frásögn Matteusar um að Jesúa frá Nasaret hafi fæðst meðan Heródes var enn á dögum, þá hefur Jesúa því fæðst einhvern tíma á árunum 7-4 fyrir Krist.

Eftir að Heródes dó fór allt í loft upp í Palestínu og Rómverjar áttu í mesta basli með að finna stjórnendur sem kæmu á kyrrð í landinu.

Meðal annars gerðu þeir einn af sonum Heródesar að „konungi“ yfir Galíleu, þótt ríki sonars hafi verið svo lítið að það hafi varla verðskuldað konungsnafn fyrir þann sem þar sat í hásæti.

Fjórðungsstjóri var hann því líka oft kallaður, því hann stýrði fjórðungi Palestínu.

Þessi sonur Heródesar hét Heródes Antípas og það var hann sem hafði í dymbilvikunni þau afskipti af Jesúa frá Nasaret sem Biblían lýsir.

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Leiðari

Óvinir valdsins

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“

Pistill

Þorum við að vera við?

Fréttir

Fékk nóg af hagræðingartali ráðherra: „Við erum hér alla daga að reyna gera okkar besta“

Fréttir

Sagðist sjálfur hafa greitt skuldirnar sem faðir hans yfirtók

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Fréttir

Faðir Bjarna Benediktssonar greiddi upp skuldir hans vegna áhættuviðskipta

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Leiðari

Óvinir valdsins