Pistill

Hvað er hægt að gera nema gefast upp?

Í höfði Illuga Jökulssonar hljómar titill bókar eftir Elizabeth Smart.

Stóra aðalbrautarstöðin í New York Við hana átti ljóðasaga Elizabeth Smart en getur átt við hvaða stað þar sem fólk er á ferli.

By Grand Central Station I sat down and wept.

Þetta er heitið á ljóðasögu eftir kanadíska skáldið Elizabeth Smart og mér hefur ævinlega þótt þetta áhrifamesti bókartitill sem ég get ímyndað mér.

Auðvitað eru það hrynjandin og hljómurinn í hinum enska titli sem skipta mestu máli en myndin sem felst í orðunum er líka einstaklega áhrifamikil.

Maðurinn sem er við það að gefast upp og í mannmergðinni við aðalbrautarstöðina getur hann bara ekki meir, hann sest niður og grætur.

Honum er öllum lokið.

Ég skal segja ykkur, núna líður mér svona.

Ekki persónulega samt, persónulega er allt í lagi, en sem einstaklingi í íslensku samfélagi, þá líður mér svona.

Eins og það sé ekkert annað hægt að gera en setjast niður og gefast upp og gráta.

Einhvern tíma næsta sólarhringinn eða svo mun Bjarni Benediktsson arka sínum löngu skrefum niðrí Stjórnarráð og taka við lyklum forsætisráðuneytisins úr höndum Sigurðar Inga Jóhannssonar.

Bjarni verður þar með æðsti valdamaður á Íslandi tveimur sólarhringum eða svo eftir að hann varð uppvís að því að ljúga opinberlega um afskipti sín af skýrslu um skattaskjól.

Það sem hann hafði fram að færa var ekki „ónákvæmni“, það var ekki misminni, það var lygi.

Lygi í bláköldu eiginhagsmunaskyni.

Látum vera alla heimsins vafninga.

Látum vera Panamaskjöl og Falson á Seychelles-eyjum.

Látum vera að Bjarni Benediktsson átti ekki – hann átti reyndar ALLS EKKI – að taka prívat og persónulega ákvörðun um það hvað HONUM FYNDIST að ætti að gera með skýrsluna margfrægu. Allra síst í miðri kosningabaráttu.

Ekki einu sinni þótt hann hafi pantað hana sjálfur.

Og þaðan af síður var það Bjarna að ákveða hvort birting skýrslunnar „hefði breytt einhverju“.

Látum þetta allt vera, þótt hvert og einasta af þessum atriðum geri Bjarna Benediktsson í raun og veru óhæfan til að vera æðsti valdamaður í lýðræðisríki.

En þegar við bætist að hann laug upp í geðið á fréttamanni RÚV sem spurði hann í tvígang út í þessi mál, hann laug í fyrra viðtalinu og hann laug í seinna viðtalinu, og hann laug þó ekki fyrst og fremst að fréttamanninum, heldur laug hann að þjóðinni – þegar þetta bætist semsé við, og það er samt útlit fyrir að Bjarni verði reistur til æðstu valda innan sólarhrings, hvað er þá hægt að gera nema setjast niður og gráta?

Gráta yfir því stjórnmálalífi sem lætur þetta viðgangast.

Gráta yfir þeim stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum sem láta sig einu gilda að æðsti valdamaður landsins heilsi þjóð sinni á sínum fyrstu valdadögum með lygum.

Augljósum, barnalegum lygum.

Hvað er þá hægt að gera nema gefast upp?

Og gráta yfir því samfélagi sem ekki hrópar umsvifalaust niður slíkan valdsmann?

Hvað er hægt að gera með flokk sem kennir sig við bjarta framtíð og nýja siðbót og kallar þó Bjarna til valda? Eða annan flokk sem kennir sig við viðreisn stjórnmálalífs í landinu og gerir þó hið sama?

Í hinum skárri útlöndum kæmi aldrei til mála að slíkur maður yrði forsætisráðherra við þessar aðstæður.

En hér ...

Já, hvað er hægt að gera nema gefast upp?

Við Babýlons fljót, þar sátum vér og grétum.

By Grand Central Station I sat down and wept.

Og þó mun ég ekki gefast upp.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Viðtal

Frá fíkli til flóttamanns

Fréttir

Isavia þarf að afhenda Aðalheiði yfirstrikaðar upplýsingar: „Svo mér endist ævin til að reka þetta mál“

Fréttir

Gagnrýnir prófíl-mynd þingkonu sem kvartar undan áreitni

Fréttir

Þrjú hundruð stjórnmálakonur skora á stjórnvöld: „Hótað nauðgun vegna skoðana minna“

Fréttir

Óttast að trúfélagsapp safni persónuupplýsingum

Mest lesið í vikunni

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Aðsent

VG – in memoriam

Fréttir

Selur bílinn sinn til að borga ríkinu fyrir eigin brottflutning

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Fréttir

Berjast fyrir betra LÍN