Pistill

Hristið þessa rassa, sætu karlar!

Sverrir Norland skrifar um rassa, snillinga, aumingja og sitthvað fleira.

Um daginn var ég úti að skokka hér í hverfinu mínu í Brooklyn. Hárið á mér nær orðið niður fyrir herðablöð og sjálfsagt flaxaðist það nokkuð frjálslega á eftir mér þegar ég flýtti mér yfir gatnamót til að ná græna karlinum, að minnsta kosti vakti framganga mín athygli miðaldra karlmanns, sem hallaði sér upp að múrsteinsvegg, góndi ánægður á eftir mér og hrópaði:

„Það er rétt, stelpa! Hristu þennan rass, stelpa! Þetta kann ég að meta, stelpa!“

Ég vissi ekki alveg hvernig réttast væri að bregðast við hrifningarópum þessa nýja aðdáanda míns og hélt því bara ótrauður dampi á hlaupunum. (Ef þú ert í vafa, þá er ég sem sagt ennþá, að minnsta kosti á ytra borðinu, karlkyns.) Ég leyfði (sjóndapra?) karlinum að renna saman við kvöldmyrkrið eins og hverju öðru nátttrölli. En það sem eftir var af hlaupatúrnum leiddi ég þó hugann, óhjákvæmilega, að því hversu einkennileg hegðun sem þessi væri: að kynferðisleg viðbrögð ókunnugs fólks í nærumhverfi manns hljóti jafn háværa og fyrirvaralausa birtingarmynd, sem þó er veruleiki margra kvenna sem ég þekki. 

Það er óneitanlega frekar skrítið (og sjaldgæft) fyrir karlmann að setja sig slík spor: að líkami manns sé alltaf hugsanleg viðfang störu, athugasemda, ýlfurs, hlátraskalla. Að vera hvergi beinlínis óhultur, afslappaður.

#

Konur eru skrautmunir

Fyrir konuna mína, sem ólst upp í París, hefur það alla tíð verið daglegt brauð að karlar á öllum aldri, jafnt einstaklingar í stífpressuðum jakkafötum sem strákagengi með víðar buxur á hælunum, hrópi að henni (meint) skjall, skjóti upp úr þurru af stigapöllum eða út úr húsasundum að henni (mis)sóðalegum tillögum. Og skiptir þá engu hvar hún er stödd: úti á miðri götu, á verönd kaffihúss, á leið til skóla eða vinnu, í bíó, í bíl, á reiðhjóli, á svölunum hjá ömmu sinni.

Hristu þennan rass, stelpa!

Einu sinni vatt sér að henni bláókunnugur maður á horni götunnar þar sem við bjuggum á þeim tíma og sagði hátt og snjallt: „Þú ert með falleg brjóst.“ Já, takk fyrir hjartanlega, sagði hún. Var það eitthvað fleira? „Nei, mig langaði bara að segja þér að þú værir með falleg brjóst,“ sagði hann glaðhlakkalega og varð, fyrirsjáanlega, starsýnt á brjóstin á henni. Ég ræskti mig. (Ég var sem sagt viðstaddur.) Að svo búnu hafði karlinn, þessi heiti áhugamaður um brjóst, sig á brott, að líkindum rífandi stoltur yfir að hafa með örlæti sínu glatt hégómlega konu með jafn fallegum orðum. Enda lifa konur fyrir útlitið; þær eru yfirborðskenndar. Allir í heiminum vita að konur eru skrautmunir rétt eins og lifandi svín eru eins konar brauðskinka á undirbúningsstigi.

#

Af sjónarhóli kvenna er ekkert áhugaverðara en sexý karlmenn

Þegar ég hafði gert teygjuæfingar í portinu við húsið okkar, eftir hlaupatúrinn, steig ég inn fyrir og heilsaði Cerise, sem sat sveitt við tölvuna og þýddi yfir á frönsku auglýsingu fyrir stóra (og vel borgandi) auglýsingastofu. 

„Hæ,“ sagði ég. „Hvernig var í vinnunni?“

„Fínt. Hvernig var úti að hlaupa?“

„Snilld. Graður karl hélt ég væri kona og hrósaði rassinum á mér í hástert.“

„Heppinn ertu. Hann myndi pottþétt fíla auglýsinguna sem ég er að þýða.“

Ég skaust í sturtu og hún hélt áfram að hamast á lyklaborðinu. Auglýsingarnar sem konan mín þýðir eru ævinlega frönsk/bandarísk kynfordómalituð verk sem aldrei fengju að líðast á Norðurlöndum, alltaf hugarfóstur karlmanna, og tefla undantekningarlaust fram karlmönnum sem eru grjótharðir töffarar sem hirða allt sem þeim sýnist (líkama kvenna, peninga, vín, föt, bíla) og konur eru yfirborðskenndir, fagrir, flissandi einfeldningar. Að þessu sinni sýndi auglýsingin – sem samkvæmt handritinu átti alls ekki að líta út sem auglýsing heldur frekar sem „átentísk kvikmyndaupplifun“, hvað sem það annars þýðir – tvær yfirborðskenndar, fagrar, flissandi konur á leið til vinnu að morgni dags.

Ég vitna í handritið: Á hverjum degi tala konurnar tvær um „karlmenn eða nýjasta slúðrið (um karlmenn) á skrifstofunni“, ritaði handritshöfundurinn í innblástursflogi, eflaust bláeygt skáldmenni komið í beinan ættlið af Shakespeare. 

Hinn upplýsti nútímamaður, þ.e. lesandi Stundarinnar, kannast sjálfsagt við „Bechdel-prófið“ svokallaða, en það gerir þá kröfu til skáldskapar að hann innihaldi að lágmarki tvær konur sem ræðast sín á milli um eitthvað annað en karlmenn.

Og viti menn, afkomandi Shakespeare var þróaður og næmur nútímakarlmaður. Í handritinu stóð nefnilega að einn morguninn hafi konurnar nokkuð ennþá kræsilegra að tala um en „karlmenn og slúður (um karlmenn)“: Önnur er að segja hinni frá glænýju „banka-appi“. 

Og andlitið á hennar „ljómar af gleði“. Það þarf nú ekki meira til að gleðja eina sæta material girl.

Hristu þennan rass, stelpa!

Að vera kona er að sitja stöðugt undir slíku áreiti: Jafnvel heima hjá sér að kvöldi til, þegar maður nýtir hæfileika sína (í þessu tilviki: tungumálakunnáttu) til að þéna fyrir húsaleigunni, er stöðugt reynt að ota að manni þeirri hugmynd að konur séu heimskir og yfirborðskenndir skrautmunir.

Og hverjir eru það sem stýra þeirri áróðursmaskínu? 

Svar (fyllist út af lesanda):

Konurnar sjálfar                                                            (  )

Karlar (sem hafa aldrei prófað að vera konur)   (  )

#

Að vera snillingur

Þegar ég hafði sturtað mig eftir hlaupin, lagðist ég upp í sófa með heyrnartólin og hlustaði á nýlegt viðtal á Rás1; einn eftirlætis-útvarpsmaðurinn minn spjallaði þar við virtan, íslenskan rithöfund. Mér blöskruðu svo yfirlýsingar höfundarins, kvenhatrið, fúlmennskan, fúskið og letin í hugsuninni, að ég sló fyrir háttinn inn stutta grein um viðkomandi og birtist það pistilkorn svo á vefsíðunni Starafugl daginn eftir. Ég hef aldrei prófað að vera kona en ég hef þurft að vera ungur höfundur sem leiðist útbreidda hugmyndin um gáfaða, skrifandi karlinn (snillinginn) sem situr einn í herbergi sínu og párar niður allar sínar stórfenglegu hugsanir á öllu því sem hann hefur ekki hundsvit á – og skrifar þeim mun meira um efnið eftir því sem hann veit minna um málið. Hann útskýrir fyrir konum hvernig það er að vera kona. Hann útskýrir fyrir Íslendingum hvernig það er að vera Íslendingur. Hann útlistar fúnksjón hverrar einustu skrúfu í sköpunarverkinu án þess að hafa nokkru sinni opnað mótttökuskilyrði sín nægilega vel fyrir veröldinni til að eiga séns í að skilja eitt né neitt, hvað þá stigið augnablik út úr sjálfum sér og skynjað aðra. Þetta, og ýmislegt fleira, hafði ég á bak við eyrað meðan ég skrifaði greinina (hana má lesa hér).

Í kjölfar birtingarinnar var ég meðal annars kallaður „aumingi“ (af karlmanni, aðdáanda höfundarins, að ég hygg) og einnig var hér og þar ýjað að því (af karlmönnum, fleiri aðdáendum höfundarins) að ég væri meinleysisgrey, sakleysingi; að snilld hins mikla höfundar væri ofvaxin skilningi mínum og hann hefði eins konar bessaleyfi til að svívirða t.d. konur – og bara hverja þá sem honum sýndist – vegna þess að hann væri gæddur svokallaðri „snilligáfu“, sem virkaði þar með ekki ósvipað og leyfi til að drepa rjúpur; og ekki steig ein kona, svo að ég viti, eða einn lesandi í yngri kantinum, fram gamla brýninu til varnar.

Að mati stuðningsmanna skáldsins teldust fúlyrði hans „ögrandi“. En að ögra þeirri skoðun, af minni hálfu, taldist hins vegar ekki „ögrandi“ – heldur aumingjaskapur eða þá kannski skortur á gáfum. 

#

Að vera aumingi

Ég hef raunar aðeins hugsað um þetta orð, aumingi, síðustu misserin; þetta orð sem er svo ægilega íslenskt.

Þannig var að ég steig á stokk í Rótarýklúbbi einum síðasta haust og kynnti þar nýjustu skáldsöguna mína, og að loknum flutningi mínum – upplestri, söng og gítarleik; ég gerði allt nema dansa og hrista á mér rassinn – spurði hress náungi mig svofarandi spurningar:

„Hvers vegna er ungt fólk í dag svona miklir aumingjar?“ 

Ég hafði sagt áheyreyndum mínum frá helstu þemum bókarinnar – samfélagsbyltingum, árekstrum milli kynslóða, tækniveröld – og svo var að heyra sem þessum tiltekna áheyrenda þætti ungt fólk oft ívið ragt og rolulegt. Gott og vel. Við ræddum málið – ég kunni vel við hann, held hann hafi raunar verið drukkinn – en það var ekki fyrr en talsvert síðar sem ég kreisti nægilega gott svar út úr heilabúinu. 

„Veistu, heillakarlinn, getur ekki verið að skilgreining þín – og jafnvel ýmissa annarra – á því hvað felist í því að vera aumingi sé einfaldlega röng? Eða útrunnin? Getur jafnvel verið að þið séuð aumingjar?“

#

Nytsemi negra og snillinga

Eflaust var ég sérstaklega viðkvæmur fyrir því bulli þekkta, aldurhnigna, ögrandi rithöfundarins sem fól í sér lofgjörð hans til hatursins – hatursins sem „sköpunarkrafts“ – vegna þess að ég var nýkominn af magnaðri heimildarmynd um James Baldwin, I Am Not Your Negro, þar sem hatur hvíts fólks í Bandaríkjunum gegn svörtu fólki – sem var fyrst ferjað milli heimsálfa þvert gegn vilja sínum og fær ekki enn að lifa í þessu landi frjálst – er svo sláandi og skammarlegt að ég sat stjarfur í sætinu lengi, lengi eftir að myndinni lauk. Ég á bágt með að sjá alvöru rithöfund á borð við James Baldwin fara svo léttúðlega með orðið „hatur“ eftir að hafa séð vini sína í réttindabaráttu svartra (t.d. Malcolm X og Martin Luther King) myrta. Í myndinni segir James Baldwin meðal annars: „Ég er ekki negri. Ég er maður. Það eruð þið (þ.e. hvíta fólkið) sem þurfið á orðinu „negri“ að halda.“ Og ég spyr: Hvers vegna þarfnaðist hvíta fólkið þessa orðs, „negri“? Jú, vegna þess að það til að geta hatað aðra, þarftu fyrst að aðskilja þá frá sjálfum þér. Hvítir – og negrar. (Og er það ekki aumingjaskapur?)

Eitthvað svipað virðist hafa tíðkast lengi í bókmenntum, þó að á sakleysislegri mælikvarða sé. Eða hvernig réttlætir eldri höfundurinn mannhatur sitt? Jú, honum verður tíðrætt um hversu mikill „snillingur“ hann sé. Svo að hann geti aðskilið sig frá okkur hinum þarfnast hann þessa bjánalega, útrunna, væmna, viðbjóðslega kjánalega orðs: „snillingur“. Pöpullinn (þar á meðal aðdáendur hans) – og svo snillingurinn. (Og allt gott og blessað með það; ég vildi bara óska að hann framvísaði einhverjum sönnunargögnum um meinta snilligáfu sína.) Aðvitað er þetta einungis barnalegt og einfeldningslegt fjas í óþroskuðum karli og varla þess vert að eyða púðri í þetta – ef ekki væri fyrir þá staðreynd að þvaðrinu er útvarpað beint inn í stofur landsmanna. Og þá hljóta menn að mega taka til svara án þess að vera stimplaðir „aumingjar“. (Raunar væri ég einmitt aumingi ef ég svaraði þessu ekki.)

Sama gildir um kvenhatrið: Hvernig réttlæta karlmenn allt þetta gegndarlausa kvenhatur? Jú, þeir eru karlar – og þær eru konur.

Hristu þennan rass, stelpa!

#

Gáfaðir karlar sem hrista á sér rassinn

Já, góðir hálsar. Við þá sem gagnrýna mig fyrir að ögra skoðunum „hins ögrandi snillings“, hef ég aðeins eitt að segja:

Hristið þessa rassa, strákar.

Lítið ekki á það sem aumingjaskap þegar ég svara ykkur fullum hálsi. Ekki halda að það beri vott um greind og gáfur í sérflokki að dæla hugsunarlaust út úr sér makalaust illa ígrunduðum, hatursfullum blammeringum sem fá mig (og alla meinleysislegu og umburðarlyndu vitleysingana í kringum mig) til að skammast sín fyrir að þetta – þessi gaur – sé talinn vera djúpvitur eldri höfundur. Ég væri til í að fá þennan mikla speking til að halda predikun um mikilvægi og fegurð hatursins við fjölskyldu mannsins sem ég sá skotinn í hausinn í götunni minni í Brooklyn fyrir tæpu ári. „Hið góða er endapunktur,“ myndi hið mikla séní segja og þurrka heilasletturnar af skónum sínum. „Djöfullinn og hatrið eru svo skapandi afl.“ Bang! Allir una sér glaðir í hatrinu. Allt úti í blóði!

Hristu þennan rass, stelpa!

Og enn er komið kvöld og við konan mín sitjum heima í stofunni: Cerise er að þýða auglýsingu sem upphefur sexý karlmenn og sýna konur sem holdgervinga heimskunnar. Svona er þetta alltaf: Svona hefur veröldin verið lengi og allir yfirburða-snillingarnir – sem lýsa veröldinni víst manna best fyrir okkur og hrista upp í öllum „meðaljónunum“ – virðast samt ekki sjá það og aldrei lýsa lífinu eins og það er í raun og veru.

Að þessu sinni impra framleiðendur auglýsingarinnar á gæðum einvers konar ómótstæðilegrar ilmlyktar fyrir karla. Ungur maður þrammar um glæsivillu og úr hverju skúmaskoti stara kynþokkafullar, heimskar konur á hann með aðdáun og þrá í augum. Hann stígur inn á baðherbergi, þar sem „sjóðandi heitt vatn“ fyssar úr krana í baðkar (sjálfsagt ætlar gaurinn, í yfirburðagreind sinni, að sjóða sig?). Á baðherberginu eru „ómetanleg endurreisnarmálverk“ og „heilu bókaskáparnir“, líklega svo að gufurnar geti tortímt listaverkunum. Konurnar stara enn á hinn fallega, eftirsóknarverða karlmann – sem vísast er snillingur – og taka kipp þegar við sjáum nærbuxurnar hans falla á gólfið. Ég veit ekki hvað gerist næst, því að þarna lýkur auglýsingunni.

Eins veit ég ekki hvað gerist næst í þessu samfélagi. En ef hópur manna byrjar ekki virkilega að endurskoða hvað þeir láta út úr sér á almannavettvangi, og hvernig þeir almennt hegða sér og hugsa gagnvart vissum öðrum hópum, þá eru þeir aumingjar.

Hristið þessa rassa, sætu, bókelsku karlar!

Hristið þessa rassa, sleikjurnar ykkar.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Dæmdur fyrir hrottalega nauðgun gegn þroskahamlaðri konu – fékk uppreist æru í fyrra

Fréttir

Geir Jón skrifaði meðmæli fyrir nauðgara sem hann rannsakaði

Pistill

Karlmaður í kventíma

Fréttir

Sveinn segir söguna alla: „Okkur fannst þessi tengsl mjög skrítin“

Fréttir

Brynjar kemur fyrir í gögnunum sem áttu að fara leynt

Fréttir

Brynjar settur af sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Hjalti fundaði með Bjarna og Brynjari eftir að hann var kærður

Fréttir

Dæmdur fyrir hrottalega nauðgun gegn þroskahamlaðri konu – fékk uppreist æru í fyrra

Fréttir

Geir Jón skrifaði meðmæli fyrir nauðgara sem hann rannsakaði

Pistill

Þessi ótrúlegi óheiðarleiki

Pistill

Karlmaður í kventíma

Fréttir

Faðir forsætisráðherra var meðmælandi Hjalta – ráðuneytið hélt því leyndu