Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Pistill

Hórurnar í hverfinu mínu

Þórarinn Leifsson veltir fyrir sér vændi og áhrifum þess.

Fyrir einhverjum vikum síðan, þegar ég var búinn að fylgja drengnum mínum í leikskólann, settist ég fyrir utan kaffihús á Dominicusstrasse, skammt frá heimili mínu í Berlín, og horfði á mannlífið. Klukkan var rétt rúmlega níu á mánudagsmorgni og það var smá þokuslæðingur yfir hverfinu. Skyndilega sá ég náunga í snyrtilegum svörtum jakkafötum ganga hratt suður eftir gangstéttinni í átt að hraðlestarstöðinni. Á sama augnabliki og hann gekk framhjá mér reif hann upp eina af þessum hundrað millílítra vodkaflöskum sem eru seldar í sjoppum í Þýskalandi og hvolfdi innihaldinu í sig í einum teig. Þetta gerði hann án þess að hægja ferðina. Myndin af mannkertinu að reigja hausinn svona aftur til að tæma glerið sat svolítið í mér. Það að drekka svona sterkt áfengi snemma morguns var svo innilega óreykvískt einhvern veginn, það felur í sér mið-evrópskt frelsi til að vera með allt niðrum sig og öllum er sama, enginn að sífra um hvort selja megi áfengi í mjólkurbúðum. Þú ert fullorðinn einstaklingur og þú mátt þetta. Á sama tíma var eitthvað svo þungt og sorglegt við manninn með pelann þar sem hann skundaði áfram algjörlega ofurseldur fíknum sínum.

„Á sama tíma var eitthvað svo þungt og sorglegt við manninn með pelann þar sem hann skundaði áfram algjörlega ofurseldur fíknum sínum.“

Hvert var hann að æða svona snemma dags? Hvað var hann að flýja? Drekka sig niður eftir helgina? Eða var hann að drekka í sig kjark? Ég horfði á eftir honum og bjóst fastlega við því að þegar hann kæmi að inngangi hraðlestarstöðvarinnar myndi hann hverfa þangað inn. En nei. Hann gekk fumlaust framhjá innganginum og áfram inn í morgunþokuna, meðfram hraðbrautinni í áttina að vöruhúsum IKEA og Bauhaus, tveimur kílómetrum sunnar, þó að það væri ekkert á þessari leið nema eymdarlegt skrifstofuhúsnæði. Það var svo ekki fyrr en nokkrum dögum síðar að ég komst að því hvert hann hafði ætlað á mánudagsmorgni. Ég var að hjóla suður eftir eitt kvöldið og sá þá væmin blá ljós sem leiddu hugann að bílaþvottastöðinni Löðri á Grandanum í Reykjavík. Þetta var hórukassinn á Werdauer Weg 3; þarna er blíða kvenna til sölu allan sólarhringinn, alla daga vikunnar – eins og sést á veglegri bloggsíðu þessa fyrirtækis. 

Vændishúsið á Werdauer Weg er langt frá því einsdæmi í hverfinu mínu. Flestar götur hérna eiga sín afbrigði, stundum má þekkja vinnustaði gleðikvenna á rauðum ljóshundum sem hanga úti í glugga og stundum eru þetta heimsfrægir staðir á borð við Caligula og King George sem auglýsa  pakkaafslætti líkt og Bónus auglýsir kjúkling og kók. Kúnninn borgar 99 evrur fyrir svokallað hlaðborð, hann má þá dvelja á staðnum alla nóttina, drekka allar heimsins veigar og hafa samfarir við eins margar konur og hann kemst yfir. Oft eru þessir staðir við hliðina á leikskólum eða öðrum stöðum sem við heimsækjum.

Vændishúsin eru kölluð „púff“ á þýsku, orðið á rætur sínar að rekja til borðspils sem var vinsælt á nítjándu öld, þá heyrðist „púff“ þegar teningnum var kastað yfir spilaborðið. Í dag er þessi tenging löngu gleymd en hljóðið sem orðið dregur upp er ennþá svolítið einkennilegt. Í daglegu lífi leiðum við Púffin hjá okkur, þykjumst ekki sjá og heyra en svo koma þessir staðir alltaf upp í samtölum. Eins og þegar vinir mínir voru að ræða víetnamska skyndibitastaði á Dominicusstrasse. Þessi fyrir neðan Púffið er bestur, sagði einhver og þá var hlegið. Púffið er líkt og inngróið í þýska þjóðarsál og erfitt að sjá fyrir sér að það sé á förum í bráð.

Reglulega gjósa þó upp umræður í fjölmiðlum. Þegar ég var að læra þýskuna fannst mér mjög áhugavert að fylgjast með rifrildum í sjónvarpssal þar sem leiddir voru saman einstaklingar sem öllu jafna hefðu aldrei heilsast á götu en sátu nú saman undir sveittum sjónvarpslömpum og þéruðust í beinni útsendingu. Götulögga, melludólgur, vændiskona og femínisti rökræddu hvort það hafi nú verið rétt skref að lögleiða vændi og hvort sænska leiðin væri ekki sú rétta eftir allt saman.

Sjálfur hef ég ekki lengur hugmynd um hvað mér finnst um þessi mál. Því meira sem ég hugsa og því fleiri rifrildi sem ég horfi á í sjónvarpi því ruglaðri verð ég í ríminu. Eina grundvallarprinsippið sem ég rígheld í er að konur hljóti að mega ráða sér sjálfar. Hvort sem þær vilja eyða fóstri eða selja aðgang að líkama sínum. Á sama tíma tel ég mig vita að manneskja sem tekur þá ákvörðun að selja ókunnugum aðgang að sér verður aldrei aftur alveg heil og söm, fyrir nú utan spurninguna hvað rak hana til þess.

Það sama á við um manninn sem ég sá með pelann þennan morgun. Sá hefur eflaust talið sér trú um að hann slyppi vel frá sínum bissness á Werdauer Weg 3. En mig grunar að eitthvað muni naga hann lengi á eftir. Einhver óvissa um eigið ágæti. Svo molnar undan honum smátt og smátt þangað til að hann hleypur aftur með pelann suður eftir Dominicusstrasse þar sem óhamingjan er stundum svo þykk í loftinu að suma daga langar mann að teygja fram fingurgómana og snerta hana.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Fréttir

Gagnrýnir prófíl-mynd þingkonu sem kvartar undan áreitni

Fréttir

Isavia þarf að afhenda Aðalheiði yfirstrikaðar upplýsingar: „Svo mér endist ævin til að reka þetta mál“

Viðtal

Frá fíkli til flóttamanns

Fréttir

Þrjú hundruð stjórnmálakonur skora á stjórnvöld: „Hótað nauðgun vegna skoðana minna“

Fréttir

Óttast að trúfélagsapp safni persónuupplýsingum

Mest lesið í vikunni

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Aðsent

VG – in memoriam

Fréttir

Selur bílinn sinn til að borga ríkinu fyrir eigin brottflutning

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“

Fréttir

Súr Sigmundur kallar Bjarna farþega og segir að hann hljóti að hætta í stjórnmálum