Pistill

Hörð hægristefna, en líka skemmtiferðaskip

Hugleiðingar um landsfundarályktanir Sjálfstæðisflokksins.

Í landsfundarályktunum Sjálfstæðisflokksins kennir ýmissa grasa. 

Þökk sé ungliðum rötuðu ýmis mikilvæg frjálslyndismál inn í þær, svo sem aðskilnaður ríkis og kirkju, afnám refsistefnu í fíkniefnamálum, mildi gagnvart flóttafólki og réttarbætur fyrir hinseginfólk. Þetta er auðvitað fagnaðarefni og hefur fengið talsverða fjölmiðlaathygli

Smá samanburður að gamni: Árið 2013 ályktaði Sjálfstæðisflokkurinn eftirfarandi um hælisleitendur: „Taka á vel á móti fólki sem þarf á hjálp að halda en taka fast á þeim sem hafa framið glæpi eða eru hingað komnir án þess að þurfa raunverulega að leita hælis.“ Upp í hugann kemur t.d. albanska fjölskyldan sem fékk synjun um daginn, enda taldi Útlendingastofnun hana ekki „þurfa raunverulega að leita hælis“.

Í hælisleitendakafla nýrrar ályktunar kveður við allt annan tón. Tortryggnin er horfin: „Hafa skal mannúðarsjónarmið og skilvirkni að leiðarljósi í málefnum hælisleitenda. Móttaka flóttamanna er sjálfsögð. Sjálfstæðisflokkurinn fagnar ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að auka fjármagn til flóttamannaaðstoðar í kjölfar neyðar sem skapast hefur í Evrópu undanfarin misseri.“ Batnandi mönnum er best að lifa. 

Margt í lokaályktunum landsfundar er fyrirsjáanlegt og miðar að því að þröngva markaðslögmálum inn á sem flest svið samfélagsins (án þess, auðvitað, að hrófla við úthlutunarfyrirkomulagi aflaheimilda í sjávarútvegi, markaðslausn á borð við uppboð á veiðiheimildum er ekki inni í myndinni). 

Kallað er eftir fjölbreyttum rekstrarformum og samkeppni í heilbrigðis- og menntakerfinu (meira af þessu og þessu?) og sveitarfélög eru hvött til að útvista verkefnum og nýta „krafta einkaaðila þegar það á við, svo sem í leikskólum, grunnskólum og velferðarþjónustu“.

Opnað er á að hlutverk LÍN færist yfir til fjármálafyrirtækja og að Íbúðalánasjóður dragi sig út af almennum íbúðalánamarkaði. Sjálfstæðismenn vilja að opinberir háskólar fái að innheimta skólagjöld, þeir vilja hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni, aðförin mikla að Geir H. Haarde er hörmuð í þúsundasta skiptið og svo vill Sjálfstæðisflokkurinn selja RÚV og leggja niður heiðurslaun listamanna.

Í landsfundarplöggunum leynast líka faldar gersemar. Í lokaályktun atvinnuveganefndar bregður fyrir – í algjöru tómarúmi og án nokkurs samhengis – þessari setningu: „Gera skal Íslendingum mögulegt að ferðast með skemmtiferðaskipum sem sigla umhverfis Ísland.” 

Og „Sjálfstæðisflokkurinn verður áfram í fararbroddi í umhverfismálum“ samkvæmt stjórnmálaályktun flokksins, sem verður að teljast nokkuð kaldhæðnislegt orðalag miðað við ferilskrá flokksins á því sviði. Í ályktun umhverfis- og samgöngunefndar er boðað að því ferli sem kveðið er á um í lögum um rammaáætlun sé fylgt í einu og öllu. „Í því felst að ekki verði vikið frá kröfum um virkt umhverfismat á öllum stigum, byggðu á bestu fáanlegu faglegri þekkingu og tækni.“ Þetta er fagnaðarefni og hlýtur að kalla á nýtt umhverfismat á Hvammsvirkjun áður en þar verður ráðist í framkvæmdir. 

Gott og vel. Þetta er heljarinnar óskalisti sjálfstæðismanna til flokksforystunnar. Það sem mér líst einna verst á er að flokkurinn boðar mjög róttæka uppstokkun á sviði skatta og ríkisfjármála. Þetta er auðvitað gömul saga og ný en birtist sérstaklega skýrt í landsfundarályktunum í ár.

Sjálfstæðismenn kalla eftir stórkostlegum samdrætti ríkisútgjalda. Framtíðarsýn þeirra fyrir árið 2025 er gjörbreytt Ísland sem stendur fjarri því fyrirkomulagi sem tíðkast í norrænum velferðarþjóðfélögum, þar sem ríkt hefur víðtæk sátt um viðskiptafrelsi, þróttmikinn einkageira, háa skatta og mikla samneyslu.

„Stefnt skal að því að útgjöld hins opinbera verði ekki hærri en 35% af landsframleiðslu árið 2025,” segir í lokaályktun efnahags- og viðskiptanefndar Sjálfstæðisflokksins. Ef litið er á tölur OECD frá fjórum Evrópuríkjum; t.d. Danmörku, Svíþjóð, Frakklandi og Þýskalandi, á árunum 2000 til 2013, má sjá að ekkert þeirra hefur komist nálægt því að reka hagkerfi þar sem útgjöld hins opinbera eru 35% af landsframleiðslu; í Danmörku þar sem sveiflan hefur verið hvað mest er hlutfallið hæst árið 2012, 58,8%, og lægst árið 2007, 49,6%. Frakkland og Svíþjóð dansa á sama bili en Þjóðverjar hafa aldrei farið lægra en niður í 42,7% af landsframleiðslu (jafnvel þótt miðað sé við útgjöld hins opinbera að frádregnum lífeyrisgreiðslum hafa flest Norðurlandanna yfirleitt verið talsvert yfir 35%). 

„Stefna ber að því að tekjuskattur og útsvar einstaklinga lækki í áföngum í samtals 25% á næstu árum og að þessu marki verði náð fyrir árið 2025,“ segir í lokaályktun efnahags- og viðskiptanefndar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei verið sérstaklega hrifinn af þrepaskiptri skattlagningu (því fyrirkomulagi sem tíðkast í nánast öllum vestrænum ríkjum) svo hér er væntanlega boðaður flatur 25% tekjuskattur sem á að ganga jafnt yfir alla tekjuhópa. 

Í dag er summa tekjuskattsprósentu og meðalútsvars 37,3% í lægsta þrepi, 39,74% í miðþrepi og 46,24% í því efsta. Þetta er nokkurn veginn í takt við það sem gengur og gerist á hinum Norðurlöndunum þótt þar sé skattprósenta efsta þrepsins víðast hvar hærri.

25% er nær því hlutfalli sem manneskja með meðaltekjur greiðir í Bretlandi og Bandaríkjunum. Landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins um efnahagsmál staðfestir þannig enn og aftur að flokkurinn hneigist síður að norræna módelinu en því engilsaxneska. Hvað varðar andstöðu flokksins við þrepaskipt skattkerfi – sem sátt ríkir um í Bretlandi og Bandaríkjunum (í BNA eru þrepin eru sjö) – má reyndar velta því fyrir sér hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé staðsettur enn lengra til hægri.

Hvað sem líður byltingu unga fólksins á landsfundi þá hefði efnahagsstefnan allt eins getað verið skrifuð af gömlu körlunum úr Eimreiðarklíkunni. Sjálfstæðisflokkurinn er ennþá flokkur harðrar hægristefnu. 

En hvernig verður þetta með skemmtiferðaskipin?

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Viðtal

Frá fíkli til flóttamanns

Fréttir

Isavia þarf að afhenda Aðalheiði yfirstrikaðar upplýsingar: „Svo mér endist ævin til að reka þetta mál“

Fréttir

Gagnrýnir prófíl-mynd þingkonu sem kvartar undan áreitni

Fréttir

Þrjú hundruð stjórnmálakonur skora á stjórnvöld: „Hótað nauðgun vegna skoðana minna“

Fréttir

Óttast að trúfélagsapp safni persónuupplýsingum

Mest lesið í vikunni

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Aðsent

VG – in memoriam

Fréttir

Selur bílinn sinn til að borga ríkinu fyrir eigin brottflutning

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Fréttir

Berjast fyrir betra LÍN