Flækjusagan

Heilagt stríð í Kína: Hverjir eru Úígúrar?

Illugi Jökulsson kynnti sér hverjir eru Úígúrar þeir sem í Kína búa og þar virðist hryðjuverkaógn fara vaxandi.

Pishan-borg í héraðinu Xianjiang er merkt með rauðu tákni á þessu skjáskoti af Google Maps.

Í gær gerðist það meðal annars að þrír menn vopnaðir hnífum réðust að vegfarendum í bænum Pishan í Xianjiang-héraði í norðvesturhluta Kína og drápu að minnsta kosti fimm manns og særðu marga aðra.

Kínversk stjórnvöld halda því fram að aðskilnaðarsinnaðir hryðjuverkamenn af þjóð Úígúra hafi verið að verki, rétt eins og við ýmis svipuð illvirki síðustu árin. Úígúrar eru múslimar og hafa lengi krafist aukinnar sjálfstjórnar eða sjálfstæðis. Hætt er við að ef hryðjuverkum af þeirra hálfu fjölgar geti allt endað með hræðilegu blóðbaði, enda má vænta þess að Kínverjar svari af hörku.

En hverjir eru Úígúrar?

Langflestir Kínverjar eða 91,6 prósent tilheyra Han-þjóðinni en í landinu búa einnig 55 aðrar þjóðir eða þjóðarbrot sem viðurkennd eru opinberlega og auk þess þó nokkrir hópar í viðbót sem ekki hafa opinber réttindi. Í fjórða sæti yfir fjölmennustu þjóðirnar, fyrir utan Han, eru Úígúrar en þeir eru rétt rúmar 10 milljónir – og því álíka fjölmennir og til dæmis Svíar og Portúgalir.

Um uppruna Úígúra hefur mjög verið deilt. Úígúrar sjálfir leggja mikla áherslu á að þeir hafi verið sérstök þjóð frá örófi alda.

Sumir þeirra vilja tengja sig við hinar dularfullur „Tarim-múmíur“ sem fundist hafa á nokkrum stöðum í Xianjiang. Múmíur þessar virðast vera af evrópskum uppruna. Ein fræg múmía er til dæmis af hávöxnum rauðhærðum karlmanni með greinilega evrópska andlitsdrætti.

„Tarim-múmíurnar“ eru af sumum taldir vera eins konar frum-Tokkaríar. Um Tokkaría er annars flest á huldu nema hvað þeir töluðu indó-evrópskt tungumál og til eru ritaðar heimildir á tokkarísku frá því um 600-800 e.Kr. Tokkaríska var ein grein indó-evrópsku málafjölskyldunnar en aðrar greinar eru til dæmis germönsk mál, keltnesk, baltnesk og indó-írönsk (þar á meðal sanskrít).

Tokkarískan dó hins vegar út, að því er virðist tiltölulega skyndilega, og þeir Úígúrar sem vilja tengja sig Tarím-múmíunum og hinum týndu Tokkaríum telja að það hafi gerst þegar þjóðin tók upp tyrknesk-ættaða tungu vegna áhrifa frá nágrönnum sínum á mótum Mið-Asíu, Kína og Síberíu.

Aðrir vilja tengja Úígúra við hirðingjaþjóðina Xiongnu sem bjó kringum Krists burð fyrir norðan Han-Kínverja og langt norður í Mongólíu og Síberíu. Xiongnu-menn elduðu mjög grátt silfur við Han-menn en flökkuðu líka í vesturátt og eru af sumum taldir vera Húnar þeir sem birtust á sléttum Rússlands um árið 370 og hleyptu síðan öllu í bál og brand í Evrópu.

Annars eru íbúafræði Mið-Asíu og norðvesturhluta Kína svo flókin að gætu ært óstöðugan. Hér dugar því að taka fram að árið 744 var þjóð Úígúra tryggilega orðin til, því þá mynduðu þeir víðáttumikið ríki sem náði allt frá Kaspíhafi og lengst austur til Mansjúríu.

Tungumál Úígúra var þá greinilega af tyrkneskum uppruna. Hins vegar náðu mennta- og embættismenn af þjóð Sogdía miklum áhrifum í landi Úígúra. Sogdíar voru indó-evrópskir og höfðu flúið Mið-Asíu undan múslimum sem þangað sóttu af æ meiri krafti. Sogdíar voru sumir kristnir, aðrir búddistar og enn aðrir aðhylltust maníkeisma, nú útdauða grein af hinni írönsku Saraþústra-trú.

Eftir borgarastríð og hungursneyð riðaði ríki Úígúra til falls. Nágrannar þeirra Kirgísar veittu ríkinu að lokum náðarhöggið um árið 840. Margir úígúrskir ættbálkar í Mongólíu flúðu þá undan Kirgísum inn til Xianjiang.

Þar risu síðan á næstu öldum nokkur konungsríki sem kennd eru við Úígúra.

Þekktast og öflugast þeirra var Qocho sem stóð með töluverðum blóma fram á 13du öld þegar Mongólar komu æðandi úr austri og lögðu allt Xianjiang og síðan Mið-Asíu undir sig. Úígúrar munu líta á Qocho-ríkið sem einn helsta hápunkt menningar sinnar.

Það var á þessu tímabili hinna úígúrsku konungsríkja sem Úígúrar tóku íslam fyrir áhrif frá nágrönnum sínum í Mið-Asíu. Nokkuð var mismunandi hvenær hinir ýmsu hópar Úígúra urðu múslimar, sumir streittust á móti allt fram á 15. öld en að lokum var nær öll þjóðin orðin múslimsk.

Undir stjórn Mongóla vegnaði Úígúrum yfirleitt ágætlega. Hins vegar féll þeim verr þegar Kínverjar réðust inn í land þeirra á 18du öld. Þá réði Qing-keisaraættin í Bejing og rak markvissa útþenslustefnu í vesturátt. Árið 1759 hófst innrás Kínverja og þrátt fyrir ofurefli liðs átti Kínverjum eftir að reynast mjög erfitt að undiroka Úígúra. Næstu áratugina gerðu Úígúrar 42svar uppreisn gegn hinum kínversku herrum sínum, sem brugðust við af fádæma hörku. Talið er að milljón manns hafi fallið í valinn af Úígúrum og landið var brunnið eyðiland í langan tíma eftir að Kínverjar fóru um.

Upp úr miðri 19du öld brutust aftur út hin hryllilegustu átök á svæðinu, sem of flókið er að rekja í smáatriðum. Úígúrar gerðu enn uppreisn gegn Kínverjum og nú undir stjórn ævintýramannsins Jakúb Beg sem var raunar Tadjiki.

Þá létu Úígúrar sig ekki muna um að lýsa yfir „jíhad“ eða heilögu stríði gegn Hui-fólkinu en það eru Han-Kínverjar sem tekið hafa íslam. Hui-menn flokkast nú sem sérstök þjóð í Kína og eru álíka margir og Úígúrar. Í hinu heilaga stríði sínu gegn Hui-mönnum frömdu Úígúrar að sögn mörg myrkraverk.

Að lokum, nokkru fyrir aldamótin 1900, sendu Kínverjar aukinn herafla til Xianjiang og bældu niður alla sjálfstæðistilburði Úígúra.

Kínverjar máttu, líkt og fleiri Asíuríki um þær mundir, þola ýmsar verstu hliðar nýlendustefnu Evrópuríkjanna, en segjast verður að þeir sjálfir höguðu sér engu skár í löndum Úígúra en Evrópumenn gerðu í Kína og víðar.

Síðan hafa Úígúrar fylgt Kína en oft verið grunnt á því góða.

Og nú er heldur betur farið að versna í því. Ef öfgamenn íslamista notfæra sér sjálfstæðisþrá Úígúra og andúð þeirra á kínverskri lönd, þá getur farið illa.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Fréttir

VG ekki á móti því að tilteknir Sjálfstæðismenn gegni ráðherraembætti

Viðtal

Frá fíkli til flóttamanns

Fréttir

Óttast að trúfélagsapp safni persónuupplýsingum

Fréttir

Undanfarin ár sýnt að sjálfstæð peningastefna geti virkað á Íslandi

Mest lesið í vikunni

Pistill

Enn meiri spilling af völdum Sjálfstæðisflokksins

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Aðsent

VG – in memoriam

Fréttir

Selur bílinn sinn til að borga ríkinu fyrir eigin brottflutning

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“

Fréttir

Berjast fyrir betra LÍN