Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Flækjusagan

Hægláti augnlæknirinn sem varpar tunnusprengjum á börn

Illugi Jökulsson er eins og aðrir miður sín yfir örlögum íbúa í Aleppo.

Nú er enn verið að murka lífið úr óbreyttum borgurum í Aleppo. Það er reyndar ekkert nýtt. Umsátur Assad-stjórnarinnar hefur staðið lengi og verið einstaklega blóðugt og grimmilegt.

Bashar al Assad er maðurinn sem lætur varpa tunnusprengjum á skóla og spítala í von um að drepa og særa sem flesta.

Til að draga kjark og þrótt úr andstæðingum sínum.

Nú veit ég að stríðið í Sýrlandi er flókið og þar hafa allir aðilar gerst sekir um grimmdarverk. Það er erfitt að gera upp á milli hverjir eru verstir.

En hitt er þó ljóst að ef Bashar al Assad hefði viljað hefði hann getað komið í veg fyrir þau átök sem nú í mörg ár hafa verið svo hræðileg.

Bashar fæddist árið 1965. Hann var sonur Hafez al Assads herforingja sem rændi völdum í Sýrlandi 1971 og varð grimmur einræðisherra.

Hann hugðist stofna ættarveldi og eldri sonurinn Bassel átti að verða arftaki hans. Bassel var litríkur fantur en dó í bílslysi 1994.

Þá krafðist Hafez þess af yngri syni sínum að hann yrði arftaki sinn í staðinn.

Það var Bashar.

Hann hafði ekki sýnt neinn áhuga á stjórnmálum eða landstjórn fram að því. Bashar hafði lært augnlækningar og praktíseraði sem slíkur í London.

Hann hafði gengið að eiga ríkramannadóttur af sýrlenskum ættum í London og lifði þar rólegu og lítt áberandi yfirstéttarlífi.

Hann þótti hæglátur og prúður og engan áhuga hafa á að láta á sér bera eða upphefja sjálfan sig.

Lítt fór milli mála að Bashar var í fyrstu þvert um geð að verða arftaki föður síns en hann lét sig hafa það, og þegar Hafez dó árið 2000 varð Bashar forseti Sýrlands.

Hann fór satt að segja vel af stað. Bashar slakaði heilmikið á kúgunarstjórn föður síns og virtist umhugað um að færa Sýrland að minnsta kosti eitthvað í átt til aukins tjáningarfrelsis.

Þegar ég var í Sýrlandi árið 2010 fannst mér andrúmsloftið í landinu furðu létt og þægilegt. Auðvitað vissum við ferðalangarnir frá Íslandi að stíf andstaða við stjórnina var enn ekki leyfð og að herlög voru enn í gildi (en þau höfðu verið sett árið 1963!) en maður hafði alls ekki á tilfinningunni að fólkinu liði illa.

Í janúar árið eftir hófust mótmæli þar sem þess var krafist að herlögum yrði aflétt og frelsi aukið.

Þetta var partur af „arabíska vorinu“ sællar (eða vansællar) minningar.

Það segja mér sérfræðingar mínir í málefnum Sýrlands (ekki síst móðir mín sem hefur farið margoft til Sýrlands og bjó þar lengi) að Bashar forseta hefði verið í lófa lagið að friða mótmælendur.

Með því að slaka eitthvað á klónni og auka tjáningarfrelsið í áföngum hefðu allir verið sæmilega sáttir og hægt hefði verið að fara inn á braut pólitískrar lausnar.

Með sæmilegri stjórnvisku og sanngirni hefði Bashar getað orðið langþráð hetja arabíska vorsins.

En þá var augnlæknir fína fólksins í London búinn að bragða á sætleika alvaldsins.

Bashar og valdaklíkan kringum hann vildu ekki taka neina áhættu. 

Því var brugðist við mótmælum af mikilli hörku.

Hermenn og lögreglan réðust að mótmælendum með ofbeldi og manndrápum.

En Bashar var ekki bara orðinn valdasjúkur. Hann var líka glámskyggn. Hann áttaði sig ekki á því að harkan myndi bara hafa öfug áhrif.

Þannig braust út þetta viðbjóðslega borgarastríð.

Vissulega er málið núna orðið mjög flókið og margir bera ýmsa sök á því hve ógeðsleg villimennska stríðsins er orðin.

En Bashar al Assad er þó mesti sökudólgurinn, því hann hefði getað komið í veg fyrir að þetta stríð brytist út.

Og hann hefur varpað tunnusprengjum á börn.

Og nú ganga hermenn hans um og drepa óbreytta borgara í Aleppo.

Vonda menn munum við alltaf hafa hjá okkur.

Við lærum að díla við þá.

En menn sem virðast sæmilegustu skinn en reynast svo forstokkaðir valdasjúklingar sem hika ekki við láta drepa börn til að halda í völd sín, þeir eru verri.

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“

Pistill

Þorum við að vera við?

Fréttir

Sagðist sjálfur hafa greitt skuldirnar sem faðir hans yfirtók

Viðtal

Þöggunin tók á sig nýjar myndir eftir stjórnarslitin

Viðtal

„Ég treysti Íslendingum ekki lengur“

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Leiðari

Óvinir valdsins

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“