Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Flækjusagan

Hæ Dylan, þessir höfnuðu Nóbelsverðlaunum

Nú þegar enginn veit hvort Bob Dylan ætlar að þiggja Nóbelsverðlaunin rifjar Illugi Jökulsson upp sögu rithöfundar sem ætlaði að hafna verðlaununum en hætti við það, annars sem ætlaði að þiggja þau en hætti við það og þess þriðja sem alltaf ætlaði að hafna þeim.

Þegar þetta er skrifað hefur Bob Dylan enn í engu ansað þeim fregnum út úr Stokkhólmi að honum hafi verið veitt Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Og það ganga miklar sögur um að hann muni annaðhvort hafna verðlaununum eða hreinlega láta sem ekkert sé og hvorki svara fréttunum neinu né mæta til Stokkhólms.

Hvað sem verður um verðlaun Dylans, þá beinir þetta athyglinni að þeim sem hingað til hafa hafnað þessum heiðri sænsku Nóbelsnefndarinnar.

Sá sem fyrstur ætlaði að hafna Nóbelsverðlaununum var írska leikritaskáldið George Bernard Shaw. Hann fæddist 1856 og skrifaði ein sextíu leikrit á langri ævi. Hann þótti skemmtilegur, háðskur, pólitískur og kjaftfor en leikrit hans hafa ekki elst vel og eru sjaldan sýnd núorðið. Það er helst að munað sé eftir Shaw fyrir leikritið Pygmalion sem varð kveikja að söngleiknum My Fair Lady.

Hvað sem því líður var Shaw geysivinsæll höfundur árið 1926 og þá veitti Nóbelsnefndin í Stokkhólmi honum verðlaun sín fyrir árið á undan.

Shaw tilkynnti að hann myndi hafna verðlaunum. Hann var lítið fyrir opinberar viðurkenningar og mun hafa látið svo um mælt að það væri eins og að kasta björgunarhring til sundmanns sem væri þegar kominn heilu og höldnu í land að veita sér alla þá peninga sem fylgdu verðlaununum.

Einnig var haft eftir honum:

„Ég get fyrirgefið Alfred Nobel að hafa fundið upp dínamítið, en aðeins andskoti í mannsmynd gæti hafa fundið upp Nóbelsverðlaunin.“

Þegar til kom fékk eiginkona Shaws hann til að skipta um skoðun. Hún hét Charlotte Payne-Townsend og var mikil baráttukona fyrir sjálfstæði Írlands og kvenréttindakona að auki. Charlotte leit svo á að verðlaunaveitingin væri heiður fyrir Írland og því féllst Shaw á að þiggja verðlaunin.

Hann vildi hins vegar ekki hirða verðlaunaféð sjálfur og setti það því í stofnun sem átti að annast kynningu og þýðingar á verkum Augusts Strindbergs af sænsku yfir á ensku.

Leikritahöfundurinn Strindberg, sem dó 1912, er einmitt meðal hinna fremstu í flokki þeirra sem fólk nefnir jafnan þegar telja á upp höfunda sem HEFÐU ÁTT að fá Nóbelsverðlaun en fengu þau ekki.

Og reyndar hafa leikrit Strindbergs elst mun betur en verk Shaws.

Í sambandi við George Bernard Shaw er og gaman að geta þess að hann var fyrsti maðurinn sem hlaut bæði Nóbelsverðlaun í bókmenntum og Óskarsverðlaun. Þau síðarnefndu fékk Shaw fyrir „besta frumsamda handritið“ þegar leikritið Pygmalion var kvikmyndað 1938. Sú verðlaunaveiting frá bandarísku kvikmyndaakademíunni fannst Shaw svívirða hin mesta, „komandi úr þessari átt“ sagði hann.

En nú hefur annar maður endurtekið þetta „afrek“ Shaws. Því árið 2001 fékk Bob Dylan Óskarsverðlaun fyrir lagið Things Have Changed sem prýddi kvikmyndina Wonder Boys. Dylan mun vera nokkuð ánægður með þessi verðlaun og hefur Óskarsverðlaunastyttuna víst gjarnan nærri sér á tónleikaferðum.

Árið 1958 var tilkynnt í Stokkhólmi að úkraínska Gyðingnum og rithöfundinum Borís Pasternak hefðu verið veitt verðlaunin. Pasternak var þekkt ljóðskáld en árið áður hafði skáldsaga hans Zívagó læknir komið út á Vesturlöndum. Hún hafði ekki fengist útgefin í Sovétríkjunum þar eð hún lýsti valdaráni bolsévíka 1917 og borgarastyrjöldinni í kjölfarið á þann hátt að sovéskum yfirvöldum líkaði illa.

Pasternak sendi símskeyti til Stokkhólms þegar hann frétti um verðlaunaveitinguna: „Óendanlega þakklátur, snortinn, stoltur, hissa, yfirkominn.“

Strax kom hins vegar í ljós að sovésk yfirvöld ætluðu að líta á þessa verðlaunaveitingu sem árás á sig og þau brugðust við af gífurlegri hörku. Sovéskum rithöfundum var skipað að skrifa undir yfirlýsingu þar sem verðlaunin voru gagnrýnd og Pasternak rakkaður niður fyrir níð um Sovétríkin.

Og æðsti maður Æskulýðssambands Sovétríkjanna, Vladimír Semítjasní, hélt ræðu yfir 14.000 manns og þar á meðal æðstu mönnum Sovétríkjanna og þeir – þar á meðal Krústjov aðalritari – klöppuðu Semítjasní lof í lófa þegar hann líkti Pasternak við svín, og þó væri hann verri en svín, því svín drulluðu aldrei yfir matardiskana sína.

Pasternak varð fyrir svo miklu áfalli við þessi hörðu viðbrögð að hann íhugaði að svipta sig lífi. Steininn tók úr þegar Pasternak var sagt að ef hann færi til Stokkhólms að taka við verðlaununum yrði honum ekki hleypt heim aftur.

Að lokum sendi Pasternak skeyti til Stokkhólms og sagði að vegna þess skilnings sem lagður hefði verið í verðlaunaveitinguna í því samfélagi þar sem hann byggi, þá hlyti hann að afþakka þennan óverðskuldaða heiður.

Og sagðist hann vona að sænska nefndin tæki ekki illa upp þessa höfnun sem væri alveg sjálfviljug af hans hendi!

Nefndin svaraði og harmaði ákvörðun Pasternaks. Verðlaunaveitingin myndi ekki fara fram en ákvörðun skáldsins drægi þó á engan hátt úr gildi hennar. Og Pasternak er jafnan á öllum listum yfir þá sem fengið hafa Nóbelsverðlaunin.

Þótt Pasternak hefði hafnað verðlaunum linnti ekki árásum á hann af hálfu þjóna yfirvaldanna meðal rithöfunda og embættismanna. Hann lést niðurbrotinn maður árið 1960.

Semítjasní varð hins vegar yfirmaður sovésku leyniþjónustunnar KGB nokkrum árum seinna.

Haustið 1964 hafði spurst út að sænska Nóbelsnefndin gæti átt það til að veita Jean-Paul Sartre verðlaun sín. Hann var kannski fyrst og fremst heimspekingur og mjög orðaður við exístentíalisma, en skrifaði líka bæði skáldsögur og leikrit sem þóttu þá til fyrirmyndar. Núorðið eru verk Sartres lítt lesin nema af sérstökum áhugamönnum um franskar bókmenntir, en framlag hans til bókmennta er þetta kunnast: „Helvíti, það eru hinir.“

Strax og það fréttist að Sartre kynni að fá verðlaunin skrifaði hann Nóbelsnefndinni og boðaði að ef hann fengi þessi verðlaun myndi hann hafna þeim. Sartre, sem var ákafur kommúnisti, sagðist ekki vilja verða leiksoppur í baráttu milli austurs og vesturs með því að þiggja viðurkenningu frá vestrænni stofnun.

Og sjálfur vildi hann heldur ekki verða að „stofnun“ eins og myndi fylgja Nóbelsverðlaununum.

Nóbelsnefndin virti þessar skoðanir Sartres að vettugi og tilkynnti brátt að hann hefði fengið prísinn.

Hann stóð þá við stóru orðin og hafnaði verðlaununum á þeim grunni sem hann hafði áður tilkynnt.

Sartre var vissulega ekki mikið fyrir viðurkenningar. Hann hafði 19 árum fyrr hafnað orðu frönsku Heiðursfylkingarinnar en sú orða þótti mikill vegsauki í Frakklandi.

Og er Sartre fyrsti og eini maðurinn sem hefur hafnað Nóbelsverðlaunum sjálfviljugur.

Sjáum hvað Dylan gerir.

Hvað sem gerist, þá verður hann á öllum listum yfir Nóbelsverðlaunahafa framvegis, því þar eru þeir báðir, Pasternak og Sartre.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Leiðari

Óvinir valdsins

Fréttir

Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál“

Pistill

Þorum við að vera við?

Fréttir

Fékk nóg af hagræðingartali ráðherra: „Við erum hér alla daga að reyna gera okkar besta“

Fréttir

Sagðist sjálfur hafa greitt skuldirnar sem faðir hans yfirtók

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Lögbann á frekari umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Fréttir

Faðir Bjarna Benediktssonar greiddi upp skuldir hans vegna áhættuviðskipta

Pistill

Það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að þú vitir um húsnæðismál

Pistill

Áskorun um #strákahitting

Pistill

Baráttan við TR-kerfið – mig grunaði aldrei hversu niðurlægjandi hún yrði

Leiðari

Óvinir valdsins