Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Flækjusagan

„Guð, hvað hann hlýtur að hafa þjáðst!“

Ástin er ekki bara blind, hún getur líka verið svo heimsk. Nikulás II og Alexandra keisaraynja urðu með vanhæfni sinni til þess að blóðug bylting braust út í Rússlandi, eins og Illugi Jökulsson rekur hér.

Mótmæli Rússar voru ótrúlega lengi trúir keisurum Romanov-ættarinnar. En á útmánuðum 1917 voru íbúar í Pétursborg búnir að fá nóg. Alvarlegur brauðskortur var kornið sem fyllti mælinn.

Í fyrri tveimur greinum um rússnesku byltinguna (hérna og hérna) hef ég lýst því hvernig stöðnuð og afturhaldssöm keisarastjórn Romanov-ættarinnar var orðin algjör dragbítur á rússnesku samfélagi þegar komið var fram í fyrri heimsstyrjöld. Rússar áttu í erfiðu stríði við Þjóðverja og Austurríkismenn en stríðsreksturinn varð sífellt óvinsælli og stjórn Nikulásar II var óðum að glata öllum trúnaði þjóðarinnar.

Mikilla lýðræðis- og samfélagsumbóta var þörf. Það var öllum ljóst, meira að segja flestum úr nánustu fjölskyldu Nikulásar, sem hvöttu hann ýmist til að segja af sér eða koma á þingbundinni stjórn. Hann þvertók hins vegar fyrir það, gjörsamlega blindur á ástandið og hvattur áfram af eiginkonu sinni, Alexöndru.

„Nikki“ og „Alix“ elskuðu hvort annað ofurheitt og treystu engum nema hvort öðru. Gallinn var sá að bæði voru þröngsýn og illa gefin, hugmyndasnauð og einstrengingsleg. Romanov-ættin hafði verið við völd og einráð síðan 1613; þannig skyldi það þá alltaf vera.

Og þau ólu ungan og dreyrasjúkan son sinn Alexei upp í að hann yrði líka að lokum alvaldur einræðisherra yfir hinu mikla Rússlandi.

Sumir héldu að „óði munkurinn“ Raspútín hefði með næstum dulrænu valdi sínu yfir keisarahjónunum haldið aftur af umbótakröfum. En þótt hann væri myrtur um áramótin 1916-17 breyttist ekkert. Gremja almennings og hermanna jókst, matarskortur var orðinn vandamál, ekki síst í höfuðborginni Pétursborg. Stjórnkerfið sjálft kveinaði og grátbað um styrka stjórn einhvers sem nyti víðtæks trausts.

En keisarahjónin sáu ekki skriftina á veggnum, ekki einu sinni þótt ættingjar Nikulásar grátbæðu hann að bjarga keisaradæminu, já, bjarga Rússlandi eins og það lagði sig með því að slaka á klónni.

Það hvarflaði ekki að honum: „Mér er sagt að ég þurfi að endurheimta traust þjóðar minnar,“ sagði hann við sendiherra Breta. „En ætli það sé ekki frekar þjóðin sem þarf að endurheimta traust mitt?“

Alexandra keisaraynja
Alexandra keisaraynja Alexandra var 44 ára. Hún skipaði ráðherra og ráðskaðist með flest annað, enda treysti Nikulás henni skilyrðislaust. Því miður var hún ömurlegur mannþekkjari og valdi eingöngu óhæfa ráðherra sem kunnu það eitt að sleikja sig upp við valdhafa.

Nikulás keisari
Nikulás keisari Nikulás var 48 ára þegar byltingin sópaði honum burt. Hann taldi sér trú um að hann ætti sjálfur að stýra herjum Rússa í heimsstyrjöldinni og frá 1915 var hann mikið fjarri höfuðborginni.

Hinn 21. febrúar fór Nikulás til aðalstöðva hersins í Mogilev í Hvíta-Rússlandi, áhyggjulaus. Hann skrifaði Alix:

„Hugur minn hvílist vel hér, engir ráðherrar og ekkert vesin … Ef ég fæ frið ætla ég að snúa mér aftur að því að spila dómínó.“

Hann viðurkenndi í máli við herforingja einn að ástandið væri slæmt en það myndi lagast um síðir. Og þegar ný sókn hersins hæfist með vorinu myndi fólk flykkjast til stuðnings við stjórnina. Keisarinn fékk líka uppörvandi bréf frá konu sinni. Jú, það væri einhver skríll að mótmæla, en hann skyldi ekki taka það of hátíðlega. „Allir elska þig,“ skrifaði hún, „það þarf bara að kippa þessum brauðskorti í lag.“

Og hún kvartaði undan hlýindum í höfuðborginni. „Strax og hitinn fer aftur undir frostmark, þá fer fólk aftur inn til sín.“

Hún var orðin algjörlega firrt, sló niður allar hugmyndir um að skipa öflugan forsætisráðherra, þá sjaldan að Nikki hennar léði máls á kröfum um slíkt, og fór um í hjúkrunarkvennabúningi og taldi sig vera að vinna mikil og góð störf í þágu særðra hermanna. Þessa daga sinnti hún þó aðallega eigin börnum því þau voru komin með mislinga. Og svo fór hún á miðilsfundi að ráðgast við hinn afdauða Raspútín.

Þá var ástandið í Pétursborg skelfilegt, eins og allir sáu nema hin blindu keisarahjón. Það lá við algerri hungursneyð, mótmæli færðust sífellt í aukana, óeirðir brutust út daglega, sem lögregla og her áttu æ erfiðara með að ráða við þótt sívaxandi hörku væri beitt. Óánægja óx líka hröðum skrefum í hernum og þúsundir hermanna gerðust liðhlaupar á degi hverjum. Sumir flýttu sér hver til síns heima en margir bættust í hóp mótmælenda á götum Pétursborgar.

Þar í borg réru hefðbundnir stjórnarandstæðingar öllum árum að því að grafa undan stjórninni. Þar á meðal voru róttækir vinstri menn sem skiptust í tvo flokka, Mensévíka og Bolsévíka. Mensévíkar voru mun fjölmennari og Bolsévíkar, sem auk þess voru eins og höfuðlaus her því foringi þeirra, tæplega fimmtugur byltingarleiðtogi frá Síberíu, Vladimir Lenín, var í útlegð í Evrópu. Þrátt fyrir ötult starf róttækra andstæðinga keisarastjórnarinnar réðu þeir þó engum úrslitum um framgang mála þessa síðustu daga Romanov-ættarinnar.

Febrúar-byltingin var algjörlega sjálfsprottin og kom jafnvel byltingarmönnunum sjálfum mest á óvart.

Hinn 26. febrúar mótmæltu 200.000 manns á götum Pétursborgar. Stöðugar óeirðir voru í borginni og jafnvel hinir tryggu Kósakkar sáust ganga í lið með mótmælendum. Alls 200 manns féllu þennan dag á götunum. Rodzianko þingforseti sendi Nikulási skeyti og skóf ekki utan af því. Nú yrði að skipa þegar í stað forsætisráðherra sem nyti trausts mótmælenda og gæti hafið tafarlausar umbætur. „Yðar hátign, bjargaðu Rússlandi … Sérhver töf jafngildir dauða,“ sagði í skeytinu.

Nikulás reiddist við þessa skorinorðu bón.

Rodzianko
Rodzianko þingforseti var stór og mikill maður sem mátti sín þó lítils gegn þvergirðingshætti Nikulásar og Alexöndru.

„Fituklessan Rodzianko skrifaði mér eitthvert bull sem ég ætla ekki einu sinni að svara,“ sagði hann aðstoðarmanni sínum.

En næstu daga versnaði ástandið sífellt. Mótmælendur voru í raun búnir að taka yfir höfuðborgina. Herflokkar gengu í stórhópum til liðs við byltingarmenn. Vopnaðir uppreisnarmenn umkringdu Vetrarhöllina, þar sem keisarafjölskyldan hafðist við og var í raun eina byggingin sem keisarastjórnin réði enn. Alix fór pelsklædd í gönguferð millum hermannanna og tilkynnti svo eiginmanni sínum:

„Þeir eru allir vinir okkar. Þeir eru okkur trúir.“

Skipað hafði verið byltingarráð, svokallað „sovét“ líkt og í uppreisn sem gerð var 1905. Annar öxull hinnar sjálfsprottnu byltingar lá um þingið, þar sem Rodzianko þingforseti reyndi í ofboði að koma vitinu fyrir keisarann. Sovét vildi koma á fót lýðveldi, hugmyndir þingsins snerust flestar um þingbundna keisarastjórn þar sem yngri bróðir Nikulásar, Mikael stórhertogi, hefði hlutverki að gegna. Hann var enn tiltölulega vinsæll.

„„Nikki“ og „Alix“ elskuðu hvort annað ofurheitt og treystu engum nema hvort öðru. Gallinn var sá að bæði voru þröngsýn og illa gefin, hugmyndasnauð og einstrengingsleg.“

En öllum bar saman um að Nikulás og Alexandra yrðu að víkja.

Það sáu allir nema keisarahjónin sjálf.

Nikulás lagði að lokum af stað heim til Pétursborgar en lestarferð hans tók langan tíma. Járnbrautirnar voru uppteknar fyrir lestir sem áttu að flytja hersveitir hliðhollar keisaranum frá vígstöðvunum til höfuðborgarinnar og kveða niður uppreisnina. Að lokum varð lest Nikulásar stopp í Pskov, 300 kílómetra frá Moskvu. Aðsópsmikill hershöfðingi í borginni, sem hét því táknræna nafni Nikolai Ruzsky, tók þá nafna sinn til bæna, eða öllu heldur fylgdarlið hans:

Nikolai Ruzsky
Nikolai Ruzsky hafði stutt en mikilvægt hlutverk í sögunni.

„Sjáið hvað þið hafið gert … út í hvað þið hafið komið Rússlandi?“

Klukkan 2 að nóttu 2. mars sendi Nikulás skeyti til Rodziankos og skipaði hann forsætisráðherra. Rodzianko svaraði þegar og kvað það vera of seint.

„Það er augljóst að hvorki hans hátign né þú vitið hvað er í gangi hérna,“ sagði þingforsetinn í skeyti til Ruzskys.

Þingið og Sovétið höfðu kvöldið áður náð samkomulagi um bráðabirgðastjórn undir forsæti þingmannsins Lvov prins sem allir virtu að einhverju, en ófrávíkjanlegt skilyrði var að Nikulás segði af sér. Keisarinn hafði nú glatað síðustu leifunum af stuðningi ekki aðeins almennra hermanna, heldur einnig æðstu herstjórnarinnar.

Sendiboðar lögðu af stað til Nikulásar í Pskov og Mikhaíl Alexeév yfirshöfðingi sendi Nikulási skýr skilaboð um að allir æðstu herforingjar landsins væru sammála að hann yrði að segja af sér – þar á meðal Alexeév sjálfur, Brúsilov, og meira að segja Nikolai Romanov stórhertogi, hershöfðingi, náfrændi keisarans og alnafni. Hershöfðingjarnir töldu – og eflaust réttilega – að ef Nikulás þrjóskaðist lengur við myndi herinn hreinlega leysast upp, vígstaðan hrynja og fjendurnir í stríðinu ganga heldur betur á lagið.

Rússland allt væri í stórhættu.

Hershöfðingjarnir gerðu keisaranum því ljóst að hann yrði að segja af sér. Hinn tíu ára Alexis yrði keisari, eða tsar, og Mikael stórhertogi ríkisstjóri með skýr fyrirmæli um að koma á þingbundinni stjórn.

Alexis,
Alexis, hinn langþráði krónprins, var dreyrasjúkur sem þýddi að blóð hans storknaði seint og illa.

Nikulás horfði út um lestargluggann lengi. Hann var takmörkuð, þröngsýn sál sem hafði komið öllu í stórkostlegra óefni en hann hafði nokkurt hugmyndaflug til að ímynda sér. Hann átti enga vorkunn skilið. Samt er eiginlega ekki hægt annað en dást örlítið að rósemi hans þegar sjálfsvitund hans og heimsmynd sundraðist í þúsund mola.

En kannski skorti hann bara hugmyndaflug til að átta sig á hve algjört var hrun hans, ójá, ætli það sé ekki sennilegra?

Um þrjúleytið 2. mars kvaðst hann tilbúinn að skrifa undir og gerði það.

Nokkru seinna fékk hann bakþanka og spurði lækni fjölskyldunnar hvort Alexei sonur yrði nokkurn tíma svo heilsuhraustur að hann gæti í reynd tekist á við keisaraembættið. Læknirinn gaf honum skýrt til kynna að það væri ólíklegt.

Eftir frekari umhugsun um kvöld lýsti Nikulás því yfir að honum hefði snúist hugur og hann segði nú ekki einungis af sér persónulega, heldur svipti son sinn einnig tilkalli til keisaradóms.

Bróðir hans skyldi nú taka að fullu við sem Mikael II.

Mikael II
Mikael II „ríkti“ sem keisari aðeins í einn dag.

Þá um nóttina sat Nikulás lengi einn í hálfrökkvuðum lestarklefa og hugsaði eitthvað – væntanlega. Yfirmaður varðflokks hans settist hjá honum og allt í einu brast sjálfsstjórn Nikulásar. Hann faðmaði herforingja sinn að sér og grét.

„Svo svaf ég löngum djúpum svefni,“ skrifaði hann sjálfur. Lestin var þá að þokast til Pétursborgar og þaðan ætlaði Nikulás til sveitasetursins Tsarskoje Selo rétt við Pétursborg að hitta fjölskyldu sína. Þetta var löng lestarferð. „Ég las mikið um Júlíus Caesar,“ skrifaði Nikulás.

Í Tsarkoje Selo hafði Páli stórhertoga, föðurbróður Nikulásar, verið falið að bera Alexöndru tíðindin.

Hún skalf en sagði svo: „Ef Nikki gerði það, þá hlýtur það að hafa verið eina leiðin.“ Svo runnu tár en hún bætti við: „Ég er kannski ekki lengur keisaraynja en ég er þó ennþá hjúkrunarkona. Nú þegar Mikki verður keisari, þá ætla ég að hugsa um börnin, spítalann, við förum til Krím …“

Svo hljóp hún grátandi til vinkonu sinnar: „Abdiqué! Aumingja ástin mín – aleinn þarna og þjáður. Guð, hvað hann hlýtur að hafa þjáðst!“

Allra mest mun hún hafa grátið þegar hún brenndi gömul ástarbréf milli þeirra Nikka, svo þau féllu nú áreiðanlega ekki í vondar hendur á þessum óvissutímum.

Svo reyndi hún að senda eiginmanninum hughreystingarskeyti í járnbrautarlestina, en fékk það endursent: „Heimilisfang viðkomandi persónu óþekkt.“

„Mikki“ eða Mikael II gerði ekki alvarlega tilraun til að þiggja þá tign sem bróðir hans taldi sig þess umkominn að varpa á hans herðar. Rodzianko, Kerenskí og fleiri hvöttu hann til að segja strax af sér. Því myndi fylgja mikið blóðbað ef hann reyndi að viðhalda Romanov-stjórninni í einhverri mynd. Það vissi Mikael ósköp vel en eins og sönnum 19. aldar Romanov sæmdi snerist hugur hans um formsatriði. Að lokum gaf hann yfirlýsingu þar sem hann kvaðst ekki geta þegið hin æðstu völd, nema að undangengnum almennum kosningum.

„Tal um kosningar!“ sagði Nikulás bróðir hans fullur hryllings þegar hann frétti þetta. „Guð má vita hver ráðlagði honum að skrifa undir þvílíkan viðbjóð.“

En álit hans skipti nú þegar engu máli, og ekki heldur álit Mikaels - nema þennan eina dag. Því auðvitað lét enginn sér til hugar koma að kjósa hann til eins né neins.

Romanov-ættin hafði komist til valda í Rússlandi þegar Mikael I varð keisari eftir róstutímann, fimmtán ára blóðuga skelfingartíð 1598-1613. Eftir röð af Pétrum, Katrínum, Alexöndrum og Nikulásum sem ríktu í 304 ár þá kom loksins til skjalanna Mikhaíl II en „ríkti“ aðeins í einn dag og með brotthvarfi hans hófst róstutími sem sumir myndu segja að stæði enn.

Á sveitasetrinu í Tsarskoj Selo sagði Pierre Gillard um síðir hinum 10 ára krónsprins Alexei að faðir hans hefði sagt af sér og væri hættur að vera keisari. Gilliard hafði kennt keisarabörnunum frönsku en var fæddur við Genfarvatn í Sviss. Drengurinn varð þrumu lostinn en þrátt fyrir uppeldið lét hann sér nú ekki detta í hug að hann ætti að taka við.

„En hver verður þá tsar?“ spurði Alexei.

Gilliard velti vöngum.

„Kannski enginn,“ svaraði hann að lokum.

En einmitt á þeirri stundu sat furðu lostinn maður í 2.000 kílómetra við morgunverðarborð í Genf í heimalandi Gilliards, Sviss. Konan hans hafði fært honum dagblað þar sem sagði að bylting hefði verið gerð í Rússlandi og keisarastjórnin hefði hrökklast frá.

Þau voru bæði orðlaus um skeið.

„Kannski er þetta gabb,“ sagði konan að lokum.

En hvorugt þeirra trúði því í alvöru.

„Þetta er rosalegt,“ sagði karlinn. „Þetta er svo ótrúlega óvænt.“

Hann rauk upp frá borðinu. Lenín rauk upp frá borðinu!

„Ég verð að komast heim til Rússlands strax!“ sagði Lenín einbeittur í fasi. Byltingin sem hann hafði barist fyrir svo lengi var hafin án hans.

Tæpu ári seinna hafði Rússland fengið nýjan tsar. 

Tögg

Rússland Saga

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Fréttir

Gagnrýnir prófíl-mynd þingkonu sem kvartar undan áreitni

Fréttir

Isavia þarf að afhenda Aðalheiði yfirstrikaðar upplýsingar: „Svo mér endist ævin til að reka þetta mál“

Viðtal

Frá fíkli til flóttamanns

Fréttir

Þrjú hundruð stjórnmálakonur skora á stjórnvöld: „Hótað nauðgun vegna skoðana minna“

Fréttir

Óttast að trúfélagsapp safni persónuupplýsingum

Mest lesið í vikunni

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Aðsent

VG – in memoriam

Fréttir

Selur bílinn sinn til að borga ríkinu fyrir eigin brottflutning

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“

Fréttir

Súr Sigmundur kallar Bjarna farþega og segir að hann hljóti að hætta í stjórnmálum